Í lok marsmánaðar námu eignir Seðlabanka Íslands í gulli tæpum 14,5 milljörðum króna. Samkvæmt tölum bankans, sem ná aftur til ársins 2001, hefur gullforðinn ekki verið metinn jafn hátt í bókum hans frá aldamótum . Þetta kemur fram í nýbirtum tölum yfir erlenda stöðu Seðlabankans.Verðmæti forðans hefur aukist um rúma 1,3 milljarða frá lokum febrúarmánaðar en frá áramótum nemur hækkunin 2,7 milljörðum króna.
Gullverð hefur hækkað talsvert á síðustu mánuðum, mælt í dollurum, og nemur hækkunin síðustu sex mánuði 10,54%. Á síðastliðnum 12 mánuðum nemur hækkunin hins vegar tæpum 28%.
Erlendar eignir SÍ námu 947,8 milljörðum króna í lok marsmánaðar samanborið við 855,6 milljarða í lok febrúarmánaðar. Stærstur hluti þeirra eigna er varðveittur í verðbréfum, eða 722 milljarðar. Seðlar og innstæður stóðu í 175 milljörðum.