Hvort sem horft er til drottningar Breta eða Kissingers fróða sést að þau nálgast mál jafnan úr óvæntri átt

Englandsdrottning flutti örstutt ávarp vegna atburðanna þar og í Samveldinu. Hún hefur senn ríkt í 70 ár. Það er þekkt að klukka valdsins kemur mönnum fyrr eða síðar „fram úr seinasta söludegi“. Það tekur þó augljóslega ekki til drottningar. Á ferli sínum hefur drottningin aðeins flutt fimm ávörp af þessu tagi. Og það var áhrifamikið.

Flytjandinn, sem verður 94 ára eftir fáeina daga, flutti það algjörlega væmnis- og tilgerðarlaust. Það var varla að hún nefndi veiruna á nafn. Hún rifjaði upp að fyrir 80 árum hefði hún ung, með aðstoð systur sinnar, flutt útvarpsávarp til þjóðarnnar. Tilefnið var að nauðsynlegt var talið að taka börn frá foreldrum og koma til vandalausra því mikilla loftárása var vænst í stórborgunum. Það hefði verið þungbært en óhjákvæmilegt þá eins og sambærilegar ráðstafanir núna. Og síðar í sínu stutta ávarpi vísaði hún aftur undir rós til stríðsins mikla: Við eigum huggun vísa, og það jafnvel þótt við kunnum áfram að mæta erfiðleikum, að betri tíð mun renna upp. Við munum njóta samfélags við vini okkar á ný. Við verðum í faðmi fjölskyldunnar á ný; „we will meet again“. Þótt átta áratugir væru liðnir og ekkert meira sagt vissi þjóðin samstundis hvað drottningin var að fara. Hún vitnaði í söng Veru Lynn, sem frægur varð ásamt The White Cliffs of Dover og öðrum og færði Bretum kjark, tiltrú og von á válegum tímum. „We will meet again“ var slegið upp á flestar forsíður. Og margir voru spurðir um álit á ávarpinu og töldu nánast einróma það þakkarefni, og þar voru einnig þeir sem kusu að taka fram að þeir væru andvígir skipan konungdæmis. Langoftast var umsögnin sú að viðkomandi var „djúpt snortinn“ eða því um líkt. Og Vera Lynn var spurð. Hún, 103 ára, fagnaði ávarpinu og sagði vel til fundið að nefna We will meet again.

Í vikunni birtist grein í Wall Street Journal sem vakið hefur athygli. Þar vísar höfundurinn einnig til persónulegrar reynslu er hann fjallar um hið einstæða andrúm sem fylgi faraldri kórónuveirunnar. Hann segir að ástandið „kalli fram minningar um tilfinnningar hans þegar hann fór ungur fram í 84. fylkingu fótgönguliða í „Battle of the Bulge“. Nú, eins og seint á árinu 1944, sé tilfinning fyrir óræðri hættu sem beinist ekki að neinum sérstökum en geri tilviljanakennt eyðileggjandi árásir. Þó sé mikilvægur munur á þessum löngu liðnu atburðum og því sem við upplifum nú. Þrautseigja Bandaríkjanna þá var styrkt af staðföstum ásetningi þjóðarinnar. Nú þegar samstöðuskortur hái þjóðinni sé þörf á öflugu og framsýnu ríkisvaldi til að sigrast á hindrunum og erfiðleikum sem ekki séu fordæmi fyrir sé horft til magns og víðfeðmis. Miklu skipti að trú almennings bíði ekki hnekki svo þjóðarsamheldnin bresti ekki og sama gildi um alþjóðlegan frið og stöðugleika. Þar talar Henry Kissinger, fyrrverandi öryggisráðgjafi Nixons og síðar utanríkisráðherra. Hann verður 97 ára 27. maí. Kissinger bendir á að það tryggi framþróun þjóða og þær blómstri ef meðal þeirra ríki vissa um að hörmulegir erfiðleikar komi ekki stofnunum þeirra í opna skjöldu, og að þær séu færar um halda afleiðingum þeirra innan marka og tryggja jafnvægi innanlands ný.

Kissinger telur að þegar faraldurinn verður fyrir bí verði ýmsar ríkisstofnanir þjóða taldar hafa brugðist í sínu verkefni. Hvort slíkur dómur verði reistur á sanngirni skipti naumast máli. Raunveruleikinn sé sá að „heimurinn verði aldrei samur eftir kórónuvírusinn“ segir hann. En hitt, að ætla sér að taka upp deilur varðandi liðinn tíma núna, mun einungis gera illt verra.

Eftir að hafa lýst mati sínu á stöðunni og ekki skafið af segir Kissinger: Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur skilað traustu verki með því að forða yfirvofandi stórtjóni. En úrslitum mun ráða hvort henni tekst að hemja útbreiðslu faraldursins og hægja svo á honum að þar með muni Bandaríkjamenn sannfærast um getu sína til að hafa stjórn á eigin málum.

Í framhaldinu tekur hann til við að fjalla um þætti fræða sem hann er kunnastur fyrir, bæði sem fræðimaður og þátttakandi í stjórn lands síns. Þeim hugmyndum verða ekki gerð skil hér þótt fróðlegar séu. Hugleiðingu hins reynda skörungs lýkur svo: „Við hurfum úr orrustunni við Bulge inn í heim vaxandi velsældar og mannlegrar reisnar. Nú eru aldahvörf. Nú standa leiðtogar frammi fyrir því sögulega verkefni að ná valdi á og stjórna uppnámsástandi og byggja samtímis upp fyrir framtíðina. Mistakist það gæti heimurinn farið í bál og brand.“