Guðni Jónsson fæddist 31. ágúst 1942. Hann lést 25. mars 2020.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Guðni Jónsson var áhrifamaður í sínu lífi. Ekki vegna þess að hann gegndi störfum sem bæru áhrifin með sér, heldur vegna þess að hann náði til viðmælenda sinna.

Ég er einn þeirra fjölmörgu sem hann hafði áhrif á.

Við áttum ýmislegt saman að sælda á liðinni öld og með okkur tókst vinátta sem aldrei brast, þótt samskiptum okkar hafi fækkað hin síðari ár.

Hann gat verið hvass í samskiptum en þeim hann þekktu leyndist ekki að undir sló milt hjarta.

Nú hefur hann kvatt. Börnum hans, Ásgeiri og Önnu, börnum þeirra og mökum samhryggist ég og segi þeim og öðrum að Guðni var góður maður sem vildi vel.

Guð blessi minningu vinar.

Jón Þórisson.