Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Sigurður Bogi Sævarsson Stefán Gunnar Sveinsson Þórunn Kristjánsdóttir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra býst við að undirrita í dag samkomulag ríkisins við Seðlabanka Íslands um svonefnd brúarlán og í framhaldinu mun bankinn semja við...

Sigurður Bogi Sævarsson

Stefán Gunnar Sveinsson

Þórunn Kristjánsdóttir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra býst við að undirrita í dag samkomulag ríkisins við Seðlabanka Íslands um svonefnd brúarlán og í framhaldinu mun bankinn semja við fjármálafyrirtæki sem aftur lána fjármuni sem uppfylla tiltekin skilyrði. Fjárlaganefnd Alþingis óskaði eftir að fara betur yfir málið og gekk það eftir og sömuleiðis gaf Ríkisendurskoðun álit sitt. „Nú er bara frágangur á málinu eftir og þetta er að fara í gegn,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Verið að vanda til verka

Vinna við annan aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar er nú í fullum gangi, en samkvæmt heimildum blaðsins höfðu þingmenn vonast til þess að geta séð hvernig fyrirhugaðar aðgerðir myndu líta út í þessari viku. Greint var hins vegar frá því í gær að aðgerðirnar yrðu kynntar um eða eftir helgina og þótti líklegra að það yrði á mánudag eða þriðjudag.

Að sögn heimildarmanna blaðsins er ekkert sérstakt atriði sem veldur því að pakkinn komi nú eftir helgi, heldur sé nú vinna í fullum gangi í ráðuneytunum, þar sem gert sé ráð fyrir nokkrum frumvörpum sem leggja þurfi fram. Þá sé mikilvægt að pakkinn sé sem best úr garði gerður, þar sem mikið sé undir.

Steinunn Þóra Árnadóttir, fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, segir í samtali við Morgunblaðið að allir séu að vanda sig sem mest. „Þessar aðgerðir eiga að virka sem best fyrir alla, og því erum við að vanda til okkar verka.“

Í samtali mbl.is við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær kom fram að í pakkanum yrðu sérstakar aðgerðir í þágu námsmanna og sjálfstætt starfandi fólks. „Að þessu sinni erum við að skoða þá sem við teljum að hafi fallið milli skips og bryggju í fyrri pakkanum,“ segir Katrín. Þá verði þetta ekki síðustu aðgerðirnar sem gripið verði til vegna kórónuveirunnar.