Almannaheill Ýmis hjálparsamtök leggja fólki lið í erfiðum aðstæðum.
Almannaheill Ýmis hjálparsamtök leggja fólki lið í erfiðum aðstæðum. — Morgunblaðið/Ómar
Regnhlífarsamtökin Almannaheill hvetja aðildarfélög sín, önnur félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og almenning til að leggjast á sveif með yfirvöldum í að draga úr áhrifum kórónuveirufaraldursins og fylla í þau skörð sem ekki er á færi opinberra aðila...

Regnhlífarsamtökin Almannaheill hvetja aðildarfélög sín, önnur félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og almenning til að leggjast á sveif með yfirvöldum í að draga úr áhrifum kórónuveirufaraldursins og fylla í þau skörð sem ekki er á færi opinberra aðila að gera.

Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla, segir að félagasamtök vinni oft náið með hópum og fólki sem á í vök að verjast af ýmsum ástæðum. „Þetta áfall nú ýtir undir þessa veikleika,“ sagði Jónas. Hann nefndi til dæmis eldri borgara og ýmsa hópa sjúklinga. Erfiðleikar þeirra geti aukist við þessar aðstæður.

Almannaheill segja að afleiðingar Covid-faraldursins verði margþættari og víðtækari en í fyrstu var talið. Ekki einungis líkamlegar heldur einnig andlegar, félagslegar og efnahagslegar. Auk þess verði þær langvinnar og þeirra muni eflaust gæta þar til stór hluti mannkyns hefur verið bólusettur gegn sjúkdómnum.

„Allar líkur eru á að áhrif heimsfaraldursins muni teygja sig til hópa sem að jafnaði telja sig óhulta. Atvinnuleysi, tekjuskerðing og fátækt geta náð til millitekjuhópa sem hingað til hafa talið sig búa við efnahagslegt öryggi,“ segir í tilkynningu Almannaheilla. Jónas sagði að almannaheillasamtök létu sig varða fátækt og þrengingar fólks.

„Því er spáð að atvinnuleysi geti farið upp í 20% og 8% hér á landi yfir árið. Hópar sem hafa talið sig nokkuð örugga geta þurft á verulegri aðstoð að halda,“ sagði Jónas. En hafa almannaheillafélög burði til að takast á við svo stórt verkefni?

„Almannaheillasamtök eru ekki sterkari en sá stuðningur sem þau njóta. Þau reiða sig mest á stuðning almennings, opinberra aðila og annarra,“ sagði Jónas. Hann benti á að félagsmenn legðu einnig af mörkum mikla sjálfboðavinnu.

„Nú eru hópar að missa atvinnu. Þeir gætu ef til vill komið til liðs við félagasamtök meðan á því stendur og hjálpað til.“

Almannaheillasamtök eins og Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og fleiri hafa vakið athygli á starfi sínu undanfarið. Jónas segir að almannaheillasamtök þurfi oft að fylgja fólki eftir í langan tíma eftir stór áföll. Hann segir að eftir bankahrunið 2008 hafi stjórnvöld beðið almannaheillasamtök að koma til aðstoðar. Þau hafa því reynslu.

„Auk stuðnings þarf líka að hugsa um hagsmuni og réttindi fólks í svona áföllum,“ sagði Jónas. Hann bendir t.d. á starf Neytendasamtakanna nú og segir að almannaheillasamtök komi að því á margan hátt að byggja einstaklinga og samfélagið aftur upp. gudni@mbl.is