Utanríkisráðuneytið Lagt er til að framvegis taki enginn við starfi sem embættismaður í utanríkisþjónustunni án auglýsingar og hæfnismats.
Utanríkisráðuneytið Lagt er til að framvegis taki enginn við starfi sem embættismaður í utanríkisþjónustunni án auglýsingar og hæfnismats. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Fjölmargar athugasemdir eru gerðar við frumvarpsdrög utanríkisráðherra um breytingar á lögum um utanríkisþjónustuna í umsögnum frá starfsmönnum í utanríkisþjónustunni.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fjölmargar athugasemdir eru gerðar við frumvarpsdrög utanríkisráðherra um breytingar á lögum um utanríkisþjónustuna í umsögnum frá starfsmönnum í utanríkisþjónustunni. Í frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar á skipun sendiherra, m.a. verður sett þak á fjölda sendiherra, sem taki mið af fjölda sendiskrifstofa, en það myndi þýða fækkun sendiherra úr 37 í 30 nái breytingin fram að ganga. Skylt verði framvegis að auglýsa laus embætti sendiherra en ráðherranum verði þó heimilt að skipa sendiherra tímabundið í allt að 5 ár án auglýsingar og setja sendifulltrúa tímabundið í embætti sendiherra, á meðan hann gegnir stöðu forstöðumanns sendiskrifstofu.

Frumvarpsdrögin voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögn Friðriks Jónssonar fyrir hönd Hagsmunaráðs starfsfólks utanríkisþjónustunnar, segir að það séu jákvæð og málefnaleg markmið að gera auknar hæfniskröfur til sendiherra og auka möguleika yngra starfsfólks til framgangs en hagsmunaráðið gerir engu að síður fjölmargar athugasemdir. Telur það t.a.m. engin málefnaleg rök fyrir því að ráðherra fái heimild til tímabundinnar skipunar sendiherra án auglýsingar og án sérstakra hæfniskrafna. Þá segir um kvótasetningu á fjölda sendiherra að takmörkun á valdi ráðherra til pólitískra skipana sé jákvæð í sjálfu sér en miðað við forsendur frumvarpsins og núverandi fjölda sendiskrifstofa gætu þetta verið u.þ.b. 6-8 einstaklingar á hverjum tíma.

,,Vandséð er hvernig það samræmist markmiði um fækkun heildarfjölda sendiherra,“ segir í umsögninni og ennfremur; „Þessi fjöldi er einnig á skjön við þá hefð sem hingað til hefur ríkt varðandi svokallaða pólitíska skipun sendiherra. Með einni undantekningu undanfarna áratugi hafa ráðherrar á hverjum tíma farið mjög sparlega með þá valdheimild að skipa

sendiherra sem ekki hafa unnið sig upp skv. hefðbundnum framgangsmáta utanríkisþjónustunnar.“ Telur hagsmunaráð starfsmannanna þessa skipan mála á skjön við það sem þekkist í helstu nágrannalöndum og hvetur utanríkismálanefnd til að kynna sér fyrirkomulagið á Norðurlöndum og í Bretlandi.

„Illa rökstutt, ruglingslegt“

Gunnar Pálsson sendiherra er hvassari í gagnrýni sinni á frumvarpið og segir tillögurnar líklegar til að veikja stöðu utanríkisþjónustunnar og hafa neikvæð áhrif til lengri tíma litið. ,,Það er illa rökstutt, ruglingslegt og mótsagnakennt, auk þess sem það kyndir undir tilefnislausa tortryggni í garð einnar starfsstéttar stjórnarráðsins,“ segir Gunnar, sem leggur til að það verði dregið til baka og þess í stað ráðist í yfirgripsmeiri skoðun á starfsháttum utanríkisþjónustunnar, m.a. með hliðsjón af nútíma mannauðsstjórnunarsjónarmiðum.

Í ítarlegri umsögn hans segir m.a. að ef talið sé að sendiherrar séu of margir virðist mótsagnakennt að sendiherrum verði fækkað „en á sama tíma gert ráð fyrir [að] starfsfólk sem ekki hafi verið skipað í stöðu sendiherra, geti fengið titilinn til afnota. Ef vaxandi eftirspurn er eftir málamyndasendiherrum af þessu tagi er óhjákvæmilegt að spurt sé hvernig greina eigi á milli starfa þeirra og raunverulegra sendiherra,“ segir Gunnar.

Þak á fjölda ekki tryggt

Gunnar Pálsson sendiherra segir í umsögn að núverandi fjöldi sendiherra í utanríkisþjónustunni virðist vera í eðlilegu samræmi við þau verkefni sem stjórnvöld hafa talið að annast þyrfti. Í frumvarpinu sé því haldið fram að 37 sendiherrar sé of há tala og fækka beri þeim í 30. „Athugun á störfum sendiherra innan utanríkisþjónustunnar sýnir að fullyrðingar af þessu tagi eiga ekki við haldbær rök að styðjast, auk þess sem frumvarpið sjálft felur ekki í sér neina tryggingu fyrir því að samanlagður heildarfjöldi sendiherra og þeirra sem nota megi titil sendiherra tímabundið verði ekki meiri en nú er.

Innan ráðuneytisins hefur jafnan verið miðað við að reynslumeiri starfsmenn úr röðum sendiherra leiddu veigamestu skrifstofurnar og er það í samræmi við venjur í öðrum ríkjum sem Ísland ber sig saman við.“