Séra Hjálmar Jónsson er sjötugur í dag og fær hann bestu afmæliskveðjur frá Vísnahorni. Við sátum saman á Alþingi frá 1995 til 2001, þegar hann var skipaður dómkirkjuprestur og lét af þingmennsku. Eftir innsetningarmessu voru haldnar ræður, m.a. séra Jakob Ágúst Hjálmarsson, sem bauð nýjan starfsbróður velkominn að boða sannleikann úr húsinu handan sundsins þar sem fólk segði ekki alltaf satt.
Hjálmar þakkaði:
Labba ég yfir lítið hlað
lífsblómið til að vökva.
Nú er ég kominn á nýjan stað,
nú er ég hættur að skrökva.
Þá stóð upp forseti Alþingis, Halldór Blöndal, og mælti:
Vel sómir sér
séra Hjálmar
Drottins þjónn
í Dómkirkjunni
prettlaus horfinn
úr pólitík
satt orð segir
af sínum Guði.
Mér þótti vænt um, að Hjálmar hafði frumrit af þessari heillaósk á vegg skrifstofu sinnar á árum sínum í dómkirkjunni.
Gunnar J. Straumland yrkir á Boðnarmiði:
Í veirustríð visku fékk ljáða,
valdstjórnin gekk svo til náða,
og núna það sést
hún er sannlega best
er aðrir fá öllu að ráða.
Húnvetningurinn Einar Kolbeinsson í Bólstaðarhlíð er bersýnilega orðinn leiður á vetrarveðrinu:
Illa á kjaftinn andinn fær
óðum dvínar kraftur.
Vorið hætti við í gær,
og veturinn kom aftur
Bíður dagsins basl og önn
en bráðum léttist sporið.
Ég dunda við að draga úr fönn,
draumana um vorið.
Fagnað var á facebook að Einar væri aftur farinn að láta til sín taka við ferskeytlugerð. Því svaraði hann:
Ennþá næ að yrkja þétt,
enda lítill vandi.
Því stundum renna ljóðin létt,
líkt og á færibandi.
Og Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum bætti þá við:
Afar fátt mun lengur lafa,
líkast hefur Freyja von.
Veira þessi virðist hafa
vakið Einar Kolbeinsson.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is