Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Vestfjörðum þar sem embættið synjaði beiðni kæranda.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Vestfjörðum þar sem embættið synjaði beiðni kæranda. Sá hafði óskað eftir aðgangi að gögnum sem sýndu hver hefði fengið greiddar líftryggingabætur eftir mann sem var fæddur árið 1878 og lést árið 1900. Úrskurðarnefndin lagði það fyrir sýslumannsembættið að taka málið til nýrrar meðferðar, leita í skjölum sínum og taka afstöðu til þess hvort kærandi ætti rétt til að fá aðgang að þeim gögnum sem hann hefur óskað eftir.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, sagði að ákvörðun um að hafna beiðni kæranda að svo stöddu byggðist á því að talið var að illmögulegt, eins og á stóð, að nálgast skjöl þar sem gögnin kynni hugsanlega að vera að finna.

„Gögnin fengust varðveitt til bráðabirgða í húsnæði lögreglunnar sem er í sama húsi og skrifstofa embættisins en í rými þar sem þau eru ekki aðgengileg,“ sagði Jónas í skriflegu svari. Nú þegar úrskurðarnefndin hefur fellt þessa ákvörðun úr gildi „sýnist ekki um annað að ræða en að fá sem fyrst umráð þess hluta skjalasafns embættisins þar sem mögulegt kann að reynast að finna umrædd gögn með því að færa það í rými í umráðum embættisins og halda leit að umbeðnum gögnum áfram þar, eftir því sem aðstæður leyfa. Vonandi getur þetta orðið sem fyrst en ekki gott að nefna sérstakar dagsetningar í því sambandi. Kæranda verður tilkynnt formlega um þetta.“

Sjómaður og fórst í sjóslysi

Hinn líftryggði var sjómaður og fórst í sjóslysi í umdæmi embættis sýslumannsins í Barðastrandarsýslu sem hét sýslumaðurinn á Patreksfirði frá 1991 til 2015. Embætti sýslumannsins á Vestfjörðum var stofnað árið 2015 og leysti af hólmi fjögur sýslumannsembætti á Vestfjörðum og tók við skjalasöfnum þeirra, þar á meðal þessu. Þau náðu yfir marga áratugi og geymdu fjölda skjala. Heildstæð skrá yfir safnið er ekki til og því ekki hægt að fletta upp gögnum með einföldum hætti. Ekki er því vitað hvort þau eru í vörslum embættisins eða hafi verið í vörslum sýslumannsins á Patreksfirði.

Jónas sagði að Ríkiseignir hefðu ætlað að ráðast í gagngerar endurbætur á öllu húsinu í Aðalstræti 92, Patreksfirði. Þar er ein af þremur skrifstofum embættis sýslumannsins á Vestfjörðum ásamt lögreglustöð sem heyrir undir Lögreglustjórann á Vestfjörðum. „Mestöllum undirbúningi á að vera lokið og voru fyrirheit um að framkvæmdir yrðu boðnar út í sumar, en eins og málum er nú háttað í samfélaginu er ekki kunnugt hvenær af því verður,“ sagði Jónas.

Úskurðarnefndin sagði að gögnin væru orðin meira en 30 ára og því giltu lög um opinber skjalasöfn um aðgang að þeim. Meginreglan um afhendingu afhendingarskyldra skjala sé að þau skuli afhenda opinberu skjalasafni þegar þau hafa náð 30 ára aldri, í þessu tilviki Þjóðskjalasafni Íslands. Stendur til að senda skjölin til Þjóðskjalasafns?

„Mikil vinna þarf að fara í flokkun, skráningu og pökkun áður en til þess getur komið að skjölin verði send Þjóðskjalasafni Íslands enda ná skjölin áratugi aftur í tímann. Ekki hafa verið tök á að fara í þetta eftir að embætti sýslumannsins á Patreksfirði féll undir embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum árið 2015, og undirritaður varð sýslumaður, en vissulega er þetta á lista yfir verkefni sem ráðast þarf í,“ sagði Jónas í svari sínu.

Ekki er algengt að beðið sé um svo gömul skjöl sem þessi, að sögn Jónasar. Þó er af og til beðið um skjöl sem varða fasteignir og geymd eru í gömlum þinglýsingabókum. Einnig einstöku sinnum um skjöl varðandi dánarbú. gudni@mbl.is