Í Mosfellsbæ Þórdís G. Stephensen má ekki hitta börn og barnabörn í samkomubanninu en kemur við á göngu og laumar góðgæti á grillið.
Í Mosfellsbæ Þórdís G. Stephensen má ekki hitta börn og barnabörn í samkomubanninu en kemur við á göngu og laumar góðgæti á grillið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Göngugarpar leynast víða, en þeir eiga það yfirleitt sameiginlegt að lítið fer fyrir þeim og þeir eru ekki fyrir það að láta bera á sér heldur skunda áfram á áfangastað.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Göngugarpar leynast víða, en þeir eiga það yfirleitt sameiginlegt að lítið fer fyrir þeim og þeir eru ekki fyrir það að láta bera á sér heldur skunda áfram á áfangastað.

Þórdís G. Stephensen í Grafarvoginum fellur vel að þessari skýringu en fyrr í vikunni lét hún þess getið á Facebook að hún væri búin að ganga sem samsvaraði leiðinni til Akureyrar frá því hún fór í sjálfskipaða sóttkví, þegar samkomubannið tók gildi um miðjan mars.

„Ég er mjög ánægð með þríeykið, fer eftir öllu sem sérfræðingarnir segja, og þegar þeir sögðu að útbreiðsla kórónuveirunnar hefði náð hámarki hérlendis var ég komin til Akureyrar í kílómetrum talið, en fannst við hæfi að snúa við vegna orða þeirra,“ segir Þórdís.

Ganga í stað reykinga

Markviss íþróttaiðkun hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá Þórdísi. „Ég hef stundum farið í sund og ræktina með eiginmanninum en byrjaði í raun ekki að ganga reglulega fyrr en ég hætti að reykja fyrir um fimm og hálfu ári,“ útskýrir hún. Bætir við að venjan hafi verið að fá sér fyrstu sígarettu dagsins þegar heim var komið úr vinnu en þegar það hafi ekki lengur verið í boði hafi hún þurft að finna sér eitthvað annað að gera. „Ég hef alltaf lesið mikið og því fannst mér tilvalið að fara út að ganga og hlusta á upplestur í leiðinni. Ég hef haldið uppteknum hætti frá fyrsta degi, enda finnst mér gott að vera ein á rösklegri göngu. Það er allt í lagi að rölta með Óla einstaka sinnum en það er ekki sama og góð heilsubótarganga. Ef ég væri bara á röltinu væri ég ekki á leiðinni frá Akureyri núna!“

Gönguferðirnar eru fastur liður í rútínu dagsins hjá Þórdísi. Hún hætti að vinna vegna aldurs fyrr í vetur og síðan leggur hún yfirleitt af stað upp úr klukkan tíu á morgnana. „Ég geng alla daga burtséð frá veðri eða öðru. Þó að ég sé með hita stöðvar það mig ekki frekar en annað og nú er svo komið að ég fer að lágmarki Grafarvogshringinn í einu.“

Útbúnaðurinn skiptir miklu máli, að sögn Þórdísar. „Ég klæði mig eftir veðri og á orðið allt sem til þarf, þó að ekki sé um merkjafatnað að ræða. Lengi vel tímdi ég ekki að kaupa mér vatns- og vindheldar buxur og lét mig hafa það að rennblotna en það er allt annað líf að ganga í þessum buxum þegar rignir eldi og brennisteini.“ Hún bætir við að góðir skór hafi líka mjög mikið að segja og hún gangi á broddum í hálkunni.

Til að byrja með gekk Þórdís í kringum hús þeirra Ólafs, síðan stækkaði hún hringinn og fljótlega var hún farin að ganga þrjá kílómetra á dag. „Ég fór Grafarvogshringinn og það var enginn afsláttur á honum,“ segir hún og leggur áherslu á að hún hafi ekki verið í góðu formi, þegar gönguferðirnar byrjuðu. Eftir því sem þolið jókst fór hún að fara lengri ferðir í allar áttir út frá Grafarvogi og undanfarinn mánuð hefur hún gengið um 20 km á dag. „Áður en kórónuveiran kom gekk ég fjóra kílómetra að meðaltali á dag, en undanfarnar vikur hef ég lítið sem ekkert haft að gera nema ganga og hlusta á þríeykið. Ég er enda komin í mjög gott form, sennilega besta form ævinnar, og ef að líkum lætur verð ég betur á mig komin eftir veiru en fyrir.“