[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Körfuknattleiksdeild ÍR hefur samið við Everage Richardson og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Everage, sem er fæddur í New York, er með íslenskt ríkisfang. Leikmaðurinn hefur spilað hér á landi síðan 2017, fyrst með Gnúpverjum og síðan...

*Körfuknattleiksdeild ÍR hefur samið við Everage Richardson og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Everage, sem er fæddur í New York, er með íslenskt ríkisfang. Leikmaðurinn hefur spilað hér á landi síðan 2017, fyrst með Gnúpverjum og síðan Hamri. Hefur hann verið stigahæsti leikmaður 1. deildarinnar síðustu tvö tímabil. Áður en leiðin lá Íslands spilaði Everage í Lúxemborg og Þýskalandi. Skoraði hann m.a. 42 stig að meðaltali í leik með Bodfeld árið 2012.

*Karlalið KA í handknattleik hefur bætt við sig þriðja leikmanninum frá Færeyjum og þar er um markvörð að ræða. Nicholas Satchwell heitir hann og hefur leikið með færeyska landsliðinu. Hjá KA hittir hann fyrir færeysku landsliðsmennina Áka Egilsnes og Allan Norðberg . Á heimasíðu KA kemur einnig fram að Satchwell hafi leikið með Bretum á Ólympíuleikunum í London.

* Hjörtur Ingi Halldórsson hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild HK. Kemur hann til félagsins frá Haukum, þar sem hann skoraði ellefu mörk í 18 leikjum í vetur. Hjörtur, sem er fæddur árið 1999, er miðjumaður að upplagi en getur einnig spilað fleiri stöður á vellinum. „Við bindum miklar vonir við komu Hjartar til HK og verður gaman að sjá hann í HK treyjunni á næsta tímabili,“ segir í tilkynningu HK.

* Maksim Akbachev hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í handbolta hjá Gróttu. Þá mun hann einnig þjálfa 4. flokk karla og kvenna og sinna afreksæfingum hjá félaginu. Maksim hóf þjálfaraferil sinn hjá Val en hefur síðastliðin þrjú keppnistímabil þjálfað hjá Haukum þar sem hann hefur verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Þá stýrði hann einnig ungmennaliði félagsins í 1. deild. Maksim hefur einnig komið að þjálfun yngri landsliða Íslands og stýrði m.a. U-17 ára landsliðinu í tvö ár.

*Körfuknattleiksmaðurinn Sæþór Elmar Kristjánsson hefur framlengt samning sinn við ÍR um tvö ár.

Sæþór er 23 ára og hefur leikið með ÍR allan ferilinn. Hann lék alla leiki ÍR í vetur og skoraði 6,8 stig og tók 2,9 fráköst að meðaltali. Sæþór, sem er framherji, hefur leikið með yngri landsliðum Íslands. Hann lék sinn fyrsta leik með ÍR árið 2014.

*Örvhenta skyttan Geir Guðmundsson er á heimleið því hann hefur gert þriggja ára samning við Hauka. Félagið staðfesti tíðindin í gær. Geir er uppalinn Þórsari og lék með Akureyri og Val áður en hann hélt til Frakklands. Þar hefur hann leikið með Rennes síðustu fjögur tímabil, bæði í efstu og næstefstu deild. „Ég er mjög spenntur að spila fyrir Hauka á næsta tímabili, allan minn feril hafa Haukar verið toppklúbbur sem hefur barist um hvern einasta titil. Því er ég stoltur að vera orðinn Haukamaður,“ hefur félagið eftir Geir.