Hjálmar Jónsson er fæddur 17. apríl 1950 í Borgarholti í Biskupstungum. Hann ólst þar upp til ársins 1961 þegar fjölskyldan fluttist að Jódísarstöðum í Eyjafirði 1961 og til Akureyrar 1963.
Hjálmar gekk í skóla í Reykholti í Biskupstungum, á Laugalandi í Eyjafirði og var í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1971, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1976 og stundaði framhaldsnám í St. Paul í Bandaríkjunum 1993.
Hjálmar var sóknarprestur í Bólstaðarhlíðarprestakalli 1976-1980 og síðan sóknarprestur á Sauðárkróki. Hann vann við löggæslu, fangavörslu, sjómennsku o.fl. á námsárunum og meðfram prestskap kenndi hann við Húnavallaskóla, Gagnfræðaskóla Sauðárkróks og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. „Ég skellti mér líka á sjóinn, skrapp nokkra túra aðallega til að vera viss um að ég gæti það ennþá.“ Hjálmar var prófastur frá 1982 þar til hann varð alþingismaður Norðurlands vestra 1995 fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hann hafði verið varaþingmaður frá 1991. Hann sat m.a. í fjárlaganefnd, Íslandsdeild Norðurlandaráðs og var formaður landbúnaðarnefndar. Hjálmar sat á Alþingi til ársins 2001 en varð þá Dómkirkjuprestur. Hann lauk störfum þar árið 2017 en þjónaði eftir það á Staðarstað, Sauðárkróki og í Njarðvíkurprestakalli. „Ég hef tekið síðan eitt og eitt verk sem til fellur.
Það sem er sameiginlegt við þingmennsku og prestskap er mikil mannleg samskipti,“ segir Hjálmar aðspurður. „Þingmenn þurfa líka að sýna trúnað eins og prestar. Það er mikilvægt að vera læs á umhverfið og fólkið, að skynja hver er þörfin og hvernig maður getur best orðið að liði. Þess vegna ákvað ég að sinna þessum störfum, til að geta þjónað samfélagi mínu. Svo er gaman að hafa þjónað í þessum tveimur húsum sem standa hlið við á Austurvelli, Alþingishúsinu og Dómkirkjunni. Bæði hafa skipt miklu máli í sögu þjóðarinnar.“
Hjálmar sat í ritstjórn landsmálablaðsins Feykis frá stofnun, í stjórn Prestafélags Hólastiftis, og hann var formaður Hólanefndar 1982–1987, en þá var lokið endurgerð Hóladómkirkju. Hjálmar sat í nefndum sem varða skóla- og fræðslumál Norðurlandsumdæmis vestra 1982-1994, sat í sálmabókarnefnd 1985-1991, í útvarpsráði 1991-1995, var fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins 19951999 og var stjórnarmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1997-2012 og í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins frá 1998.
Hjálmar hefur ort ljóð og sálma og samið smásögur og greinar um ýmis efni. „Ég hef nánast alltaf verið upptekinn. Það hefur alltaf verið fram undan að flytja talað mál, stjórna athöfn og tilefnin hafa líka verið næsta ólík og fjölbreytt. Ræður við messur, hjónavígslur og jarðarfarir auk allra hinna tilefnanna þar sem komið er saman á glöðum og góðum stundum. Ég hef auðvitað ekki tölu á ræðunum, þær skipta hundruðum á ári hverju og það var aldeilis orðið tímabært að slá af hraðanum. En þegar oft var tímapressa vegna ósaminnar ræðu var tíminn fljótur að líða. Hann bókstaflega þaut burt frá manni. Nú síðustu mánuðina hef ég lifað alveg nýjar aðstæður. Það er bæði vegna færri verkefna og vegna veirunnar illræmdu. Það er nýtt að vakna að morgni og það liggur ekkert fyrir, ekkert sérstakt sem bíður úrlausnar. Helsta umhugsunin snýst um það hvort eigi að fara og taka til í geymslunni eða fresta því enn um sinn.
En svo kemur náttúrlega vor, það er að koma þessa dagana. Með vorinu verður útivistin meiri og golfið tekur sinn tíma. Það er meiri hreyfing en margan grunar, 10-12 kílómetrar hringurinn. Það heldur manni sæmilega frískum. Mér finnst ég ekki vera gamall, ég er sáttur við ævistarfið en mér finnst ég hafa enn mikið starfsþrek og langar helst að skreppa nokkra túra á togara.“
Hjálmar ætlaði að halda hóf í tilefni afmælisins. „Það verður ekki, en við fjölskyldan komum saman þegar allar götur verða greiðar að nýju. Það verður gott að hittast og deila saman góðum stundum. Það eru ótal samkomur sem ekki verða þessa mánuðina. Það gefur tilefni til að hugleiða hvernig við mannfólkið lifum lífinu saman, í félagsskap hvers annars. Við komum saman á góðum stundum, gerum þær betri með vinarþeli og góðum tilfinningum.“
Fjölskylda
Eiginkona Hjálmars er Signý Bjarnadóttir, f. 9.7. 1949, líffræðingur. Þau gengu í hjónaband 9.9. 1973 og eru búsett í Garðabæ. Foreldrar Signýjar voru hjónin Bjarni Jónsson, f. 2.9. 1908, d. 10.1. 1990, útvegsbóndi í Asparvík á Ströndum og Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, og Laufey Valgeirsdóttir, f. 19.8. 1917, d. 6.2. 2007, húsfreyja.
Börn Hjálmars og Signýjar eru 1) Kristinn, f. 12.7. 1973, framkvæmdastjóri ISF um sjálfbærnivottun fiskveiða og starfsmaður HR, búsettur í Garðabæ. Kona hans er Jóna Rósa Stefánsdóttir leikskólakennari. Börn þeirra eru a) Bryndís Hrönn, en maki hennar er Margrét Rán Magnúsdóttir; b) Stefán Bjarni; 2) Sigríður, f. 7.10. 1975, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju og býr í Reykjavík. Maki: Halldór Halldórsson, forstjóri Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal. Dætur hennar eru a) Sandra Björk Ketilsdóttir, maki: Steinþór Bjarni Helgason og dætur þeirra eru Katla Kristín og Tekla Sól; b) Signý María Gunnleifsdóttir; 3) Reynir, f. 18.5. 1979, BA í bókmenntafræði og þýðandi, býr í Garðabæ. Maki: Unnur Agnes Níelsdóttir. Börn Reynis eru Árni Tumi, Árveig Ólöf, Bjarni Kristinn og Fanney Perla; 4) Ásta Sólveig, f. 12.8. 1985, snyrtifræðingur, býr í Stykkishólmi. Maki: Egill Hjaltalín Pálsson og synir þeirra eru Hjálmar Ingi, Reynir Axel og Bjarki Fannar.
Systkini Hjálmars eru Ólöf, f. 22.10. 1948, húsmóðir á Akureyri; Ari Axel, f. 19.4. 1951, vélstjóri, býr á Akureyri; Guðfinna Ásta, f. 14.6. 1954, hjúkrunarfræðingur, býr í Reykjavík; Erla Hrönn, 23.1. 1958, menntafulltrúi í Tönsberg í Noregi.
Foreldrar Hjálmars voru hjónin Jón Óli Þorláksson, f. 24.5. 1924, d. 2.2. 1982, járnsmiður og verslunarmaður á Akureyri, og Árveig Kristinsdóttir, f. 14.12. 1929, d. 8.7. 2002, húsmóðir.