Hofskirkja í Vopnafirði
Hofskirkja í Vopnafirði — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ætli eitt af fjölmörgu sem við getum tekið með okkur út úr þessum heimsfaraldri sé ekki það að átta okkur betur á þeim aðstæðum sem við búum við?

Ég hef nú reynt og fundið flest

sem fjarlægðin hefur að geyma.

Við mig kannski kann ég best

í kotinu mínu heima.

(Helgi Gíslason)

Þessi vísa er ein af mörgum vísum Helga Gíslasonar frá Hrappsstöðum í Hofsárdal í Vopnafirði. Helgi var fæddur árið 1897 og ólst upp við allt aðrar samgöngur og aðstæður til ferðalaga en við. Við búum nefnilega venjulega við það frelsi að geta ferðast og flúið veruleikann heimshorna á milli þegar okkur leiðist og kotið okkar heima er ekki nóg.

En nú er staðan önnur. Nú fáum við ekki flúið, því okkur er skipað að vera heima.

Ætli eitt af fjölmörgu sem við getum tekið með okkur út úr þessum heimsfaraldri sé ekki það að átta okkur betur á þeim aðstæðum sem við búum við? Að átta okkur betur á tilfinningum okkar því við erum neydd til þess að staldra við með þeim og horfast í augu við þær.

Í Lúkasarguðspjalli í Biblíunni er saga sem gjarnan er kölluð „ sagan af týnda syninum“.

Sagan segir frá fjölskyldu, föður og tveimur sonum hans, sem búa á bóndabýli og hjálpast að við að sinna því. Annar sonurinn vaknar einn daginn og ákveður að leita tækifæra annars staðar. Hann biður föður sinn um að fá arfinn sinn fyrirframgreiddan og með því heldur hann af stað, föður sínum og bróður til mikillar sorgar og ama.

Hann kemst hins vegar fljótt að því að lífið annars staðar er ekki eins auðvelt og spennandi og hann átti von á. Hann eyddi öllum peningunum fljótt og varð blankur, svangur og kaldur og saknaði eflaust þess sem hann átti áður. Að lokum kemur hann aftur heim með skottið á milli lappanna, biðst afsökunar á því að hafa farið og eytt öllum aurunum sínum og finnur hvað það er gott að koma heim í faðm föður síns, sem tekur honum opnum örmum, fyrirgefur honum mistökin og fagnar heimkomu hans.

Úr sögunni má draga margt og lyfta því upp. Fegurð fyrirgefningarinnar og þess að viðurkenna mistök sín til dæmis, en sagan fjallar einnig um rofin tengsl og flótta manns undan tilfinningum sínum. Ungi maðurinn fékk nóg og ég ímynda mér að hann hafi fundið til einhvers konar innilokunarkenndar, þar sem hann sat uppi með tilfinningar sínar í sveitinni heima. Vildi kanna aðrar slóðir, kanna hvort grasið væri grænna annars staðar. Fá útrás fyrir æskuþrána, en sá svo fljótt að það var ekki staðsetningin sem var vandamálið, hann gat ekki flúið vanlíðan sína.

Ég held að það sé tilhneiging hjá okkur mörgum á einhverjum tímapunkti í lífinu að halda að grasið sé grænna annars staðar og að okkur muni líða betur ef við breytum til. Að halda að aðrir hafi það betra, að það gæti verið betra að vinna annars staðar, búa annars staðar eða búa með einhverjum öðrum. Kannski er það betra í smástund því það er eitthvert frelsi sem fylgir því að prufa eitthvað nýtt, en ef við hugum ekki að okkur sjálfum og því sem okkur er næst held ég að grasið fari alltaf aftur að visna hjá okkur.

Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkar eigið gras sem er í garðinum hér og nú. Slá það, vökva, tæta mosann, gefa því áburð og allt þetta sem er alls ekki alltaf skemmtilegt að gera, en nauðsynlegt til þess að því líði vel.

Í sóttkví og einangrun hafa margir verið neyddir til þess að taka til í garðinum heima (háaloftið eða bílskúrinn á kannski betur við í þessu árferði). Taka til í höfðinu á sér, gefa sér tíma til að sortera hugsanir sínar. Sjá lífið í nýju ljósi. Einhverjir hafa eflaust áttað sig á því að breytinga er þörf. Aðrir hafa áttað sig á því að lífið er einmitt bara ágætt hér og nú, en hafa ekki gefið sér tíma til þess lengi að njóta þess sem er í garðinum heima.

Ég vona að við tökum eitthvað með okkur úr þessari einangrun sem við höfum öll verið í að einhverju leyti. Ég vona að þessi tími hafi gefið einhverjum skýrari sýn. Að einhver hafi áttað sig á því að það er ekki svo slæmt að ferðast innanhúss. Ég vona að þið kunnið vel við ykkur í kotinu ykkar heima, líkt og Helgi Gíslason heitinn áttaði sig á að hann gerði á sínum tíma. En ef svo er ekki hvet ég ykkur til að horfa fyrst inn á við áður en þið flýið veruleikann langt yfir skammt. Að taka aðeins til, því þá gæti kotið orðið að þeim stað sem þið viljið aldrei aftur yfirgefa.

Guð blessi ykkur og kotið ykkar heima.

Höfundur er sóknarprestur í Hofsprestakalli. thuridur.arnadottir@kirkjan.is

Höf.: Þuríður Björg Wiium Árnadóttir