Róbert Magni Jóhannsson fæddist að Efri Uppsölum á Eskifirði 27. október 1936. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. mars 2020.

Róbert var sonur hjónanna Þorbjargar Hávarðsdóttur, f. 4. júlí 1910 að Borgargarði við Djúpavog, d. 26. júlí 1976, og Jóhanns Halldórs Guðjónssonar, f. 29. september 1909 að Kaldalæk við Reyðarfjörð, d. 1. ágúst 1981. Þau bjuggu allan sinn búskap á Eskifirði.

Systir Róberts sammæðra var Auðbjörg, f. 3. júlí 1931, d. 20. febrúar 2020. Alsystur hans eru Unnur Þórlaug, f. 4. janúar 1943, og Kristín Guðdís, f. 29. september 1949, báðar búsettar á Eskifirði.

Róbert kvæntist 26. desember 1957 Guðbjörgu Elsu Egilsdóttur, f. 7. desember 1934. Hún er dóttir hjónanna Helgu Jónínu Jónsdóttur, f. 27. júní 1913, d. 29. maí 1988, og Egils Friðgeirssonar Hallgrímssonar, f. 28. mars 1912, d. 11. desember 1987. Róbert og Gugga settust að í Reykjavík og bjuggu þar lengst í Kleppsholti, um 17 ára skeið. Síðar bjuggu þau í Vesturbænum og Neðra-Breiðholti. Árið 1990 fluttu þau í Kópavog, þar sem þau hafa búið síðan. Róbert og Gugga eignuðust 5 börn. 1) Drengur f. 6. ágúst 1957, lést næsta dag. 2) Egill, f. 20. desember 1958. Hann var kvæntur Karitas Jónu Tómasdóttur en þau skildu. Synir þeirra eru a) Róbert, f. 1979, sambýliskona Sesselja Dagbjört Gunnarsdóttir og eiga þau tvær dætur, Ingu Karitas og Rakel Björgu, b) Arnþór Bjarni, f. 1982. Egill er kvæntur Guðrúnu Maríu Gísladóttur og á hún tvö börn, Ellý Ósk, f. 1982, og Guðmund Ómar, f. 1985. 3) Jóhann, f. 8. apríl 1960, kvæntur Kristínu Jónsdóttur. Þeirra börn eru a) Þórhallur Andri, f. 1982, í sambúð með Tinnu Dögg Kristberg Benediktsdóttur og eiga þau tvær dætur, Freyju Lilju og Emblu Sóleyj,. b) Þórhildur Sunna, f. 1990, í sambúð með Pétri Arnórssyni og eiga þau eina dóttur, Ástrós Amy, c) Selma Þóra f. 1998, unnusti hennar er Sævar Ingi Ásgeirsson. 4) Helga, f. 4. september 1963, er gift Stefáni Karli Jónssyni. Þeirra börn eru a) Guðbjörg Elsa, f. 1980, gift Snorra Frey Árnasyni og eiga þau þrjú börn, Stellu Bergrán, Árna Stefán og Kára Tómas, b) Jón Karl, f. 1981, í sambúð með Jóhönnu Katrínu Pálsdóttur og eiga þau tvær dætur, Önnu Helgu og Unni Elsu, c) Halldór Ingi, f. 1986, í sambúð með Rögnu Lóu Sigmarsdóttur, þau eiga einn son, Sigmar Orra. 5) Þorbjörg, f. 19. júní 1972, er gift Páli Viðari Jónssyni. Þeirra börn eru a) Guðbjörn Viðar, f. 1999, unnusta hans er Rebekka Marteinsdóttir, b) Sigrún Berglind, f. 2002, c) Róbert Helgi, f. 2006.

Róbert lauk Barna- og unglingaskóla Eskifjarðar árið 1950. Hann hélt ungur suður til Reykjavíkur og lauk mótorvélstjóraprófi í Reykjavík 1957. Hann sinnti ýmsum störfum til sjós og lands frá 12 ára aldri. Fimmtán ára var hann ráðinn sem messagutti á Kyndli en var síðar m.a. til sjós á Hólmaborg SU 555 og á Björgu SU 9. Eftir að Róbert hætti til sjós starfaði hann í Blikksmiðju J.B Péturssonar um tíma. Lengstan hluta starfsævinnar, í 37 ár, starfaði hann við steinsmíði í Steinsmiðju S. Helgasonar. Hann sat í trúnaðarmannaráði Iðju, félags iðnverkafólks, og var í stjórn félagsins frá 1996 þar til það sameinaðist Eflingu í ársbyrjun 2000. Eftir það gegndi hann áfram trúnaðarstörfum fyrir félagið um nokkurt skeið.

Róbert var jarðsunginn frá Lindakirkju 15. apríl 2020. Minningarathöfn verður haldin síðar.

Pabbi minn fæddist í litlu sjávarþorpi austur á fjörðum á 4. tug síðustu aldar. Átthagarnir voru honum alla tíð kærir og þó ég hafi aldrei dvalið langdvölum á Eskifirði fékk ég í arf ást á upprunanum, firðinum fagra og „framhliðinni“ á Hólmatindinum.

Pabbi fór ungur suður til Reykjavíkur og örlögin höguðu því svo að þar settist hann að til langframa. Tæplega tvítugur kynntist hann reykvískri mær af austfirskum ættum, sem frá þeim tíma átti bæði hug hans og hjarta. Þau mamma fetuðu æviveginn saman og tókust í sameiningu á við þau verkefni sem lífið færði þeim á 64 ára samleið. Þau hafa alltaf verið einstaklega samrýnd og samstíga í daglegu lífi.

Pabbi var góð fyrirmynd. Hann var hógvær og gamansamur að eðlisfari og hafði lag á að dvelja ekki um of við það sem ekki varð breytt, heldur feta veginn áfram af jákvæðni og seiglu. Hann lét aldrei bíða til morguns það sem hægt var að gera í dag og kastaði heldur aldrei til hendi við nokkurt verk. Tilveran með pabba var traust og hlý, hann var ekkert að trana sér fram en var alltaf til staðar.

Bernska mín einkenndist af öryggi og hlýju. Ég var langyngst af systkinahópnum en um leið lítið eldri en nokkur hluti barnabarnanna. Í endurminningunni iðaði heimilið oftast af lífi, ört vaxandi fjölskyldur systkina minna áttu þar vísan stað og heimsóknir voru tíðar. Þess á milli átti ég líka dýrmætar stundir ein með foreldrum mínum, með reglubundnum sundferðum, hversdagslegu stússi og stöku leikhúsferðum. Alltaf var ljúft að hvíla höfuðið á öxl pabba og finna traustan arm hans umvefja sig. Sumarfríin með mömmu og pabba einkenndust af ferðalögum um landið og í endurminningunni var eiginlega alltaf sól.

Pabbi var börnunum okkar Palla góður afi og þátttakandi í daglegu lífi okkar meðan hann gat það. Um það leyti sem við Palli stofnuðum fjölskyldu leið að starfslokum foreldra minna. Þar með gafst þeim aukið svigrúm til samvista við okkur , öllum til ánægju og hagsbóta. Ómetanlegar samverustundir eru fjársjóður sem við fjölskyldan búum öll að. Hvort sem það voru stutt innlit, tómstundaskutl, ferðalög um landið, samvera á hátíðastundum, glettnislegar grettukeppnir eða metnaðarfullar tilraunir til að vinna afa í sjómann. Þá var okkur mikilsverður sá tími sem foreldrar mínir gættu Sigrúnar okkar vetrarlangt áður en hún byrjaði í leikskóla. Sá grunnur sem þar var lagður mótaði samband þeirra til framtíðar. Þó hlutverk pabba gagnvart börnunum hafi breyst hin síðari ár var elska hans og áhugi á lífi þeirra alltaf fyrir hendi.

Pabba var annt um íslenska tungu og hinn besti málfarsráðunautur. Hann var hagmæltur og hafði gaman að hvers kyns orðaleikjum. Pabba var lagið að segja skemmtilega frá og þær eru ófáar sögurnar sem lifa áfram í minningunni. Mér eru einnig kærar minningar frá brúðkaupsdegi okkar Palla, þar sem pabbi leiddi mig styrkri hendi inn kirkjugólfið og fór svo á kostum í ræðu sinni síðar um kvöldið.

Þó pabbi hafi í gegnum tíðina verið minnugur og haft ríka frásagnargáfu átti fyrir honum að liggja að tapa minni síðustu árin. Samhliða því var hann sviptur ýmsu sem áður hafði verið einkennandi fyrir hann, s.s. frumkvæði til verka, sjálfstæði og verklagni. Hann naut þó áfram líðandi stundar í þeirri regluföstu veröld sem þau mamma sköpuðu sér eftir því sem veikindin ágerðust. Hann spurði frétta og var fús að miðla, en öllum lærðist að endurteknar spurningar og frásagnir komu engum að sök. Pabbi bar gæfu til að þekkja fólkið sitt og það leyndi sér ekki að hann vissi hverju tilheyrðu hópnum hans. Hlýlegt viðmót, góðvild og glaðlyndi fylgdu honum ævina á enda.

Nú eru einkar dýrmætar minningarnar frá síðustu jólum og árvissu jólaboði stórfjölskyldunnar í byrjun janúar. Nokkrum dögum síðar var pabbi lagður inn á sjúkrahús og átti ekki afturkvæmt heim.

Við lifum á undarlegum tímum og almenningur bíður þess að lífið fari að ganga sinn vanagang. Að geta ekki syrgt í eðlilegum samvistum við mömmu og í návist stórfjölskyldunnar hefur sannarlega tekið á.

Þó pabbi hafi á vissan hátt horfið okkur smám saman seinni árin þá var nærvera hans alltaf sterk. Vanagangur án hans verður ekki samur og áður.

Elsku pabbi, hjartans þakkir fyrir allt sem þú hefur verið mér og mínum. Minning þín mun lifa með okkur alla tíð og gerir okkur ríkari en ella. Guð veri með þér.

Þín

Þorbjörg

Hvernig gengur í skólanum var ávallt það fyrsta sem afi spurði um þegar ég hitti hann þegar ég var yngri. Afi var alltaf mjög áhugasamur og ræðinn og sá ég það betur eftir að ég eignaðist sjálf börn hvað afi hafði gaman af börnum, ræddi við þau og spurði um þeirra hagi og sagði sögur af sinni barnæsku. Hann var mikill húmoristi og minnist ég þess ekki að hafa nokkurn tímann séð afa reiðan.

Það sem kemur alltaf fyrst upp í huga minn þegar ég hugsa til hans er minning frá unglingsárunum. Afi og amma í heimsókn hjá okkur í Keflavík og afi spyr eins og svo oft áður hvenær við ætlum að flytja í bæinn. Unglingnum líkaði ekki þessi stanslausa umræða um mögulegan flutning enda trúði ég því að hvergi annars staðar væri hægt að búa og brást því harkalega við. Það var minna rætt um flutninga fyrir framan unglinginn eftir þetta. En afa varð að ósk sinni, fyrir 20 árum fluttum við í bæinn og síðustu 15 ár höfum við Snorri búið örfáum götum frá þeim Kópavogi.

Mér fannst alltaf mikil kyrrð og ró heima hjá afa og ömmu, mínar sterkustu minningar eru frá árunum sem þau áttu heima í Efstahjalla. Sé afa fyrir mér með bollann sinn ýmist að fá sér vatn við vaskinn eða amma að hella kaffi í bollann þar sem hann situr í sínu sæti. Afi gangandi um gólf blístrandi og amma jafnvel annars staðar í húsinu blístrandi eitthvað annað eru hljóðin sem ég heyri þegar mér verður hugsað um Efstahjallann. Afi var mjög handlaginn og nýtinn og fannst mér þau oft vera að breyta og laga á þessum tíma en alltaf með efnivið sem til var, færa skápa til og frá.

Á jóladag allt mitt líf er ég vön að vera með afa og ömmu, fyrst heima hjá þeim með allri stórfjölskyldunni en síðustu ca. 15 árin heima hjá mömmu og pabba. Flest árin var tækifærið nýtt og hópmynd tekin. Verður skrítið og erfitt að horfa á hópmyndina næstu jól en munum við nú samt öll gretta okkur á einni mynd sérstaklega fyrir afa sem fannst alltaf vera þörf á einni slíkri.

Ég var svo heppin að fara í hringferð með afa, ömmu og Róberti frænda þegar ég var lítil og þá var auðvitað stoppað á Eskifirði og fannst honum ekki leiðinlegt að fræða okkur frændsystkinin um sína heimahaga. Þó honum hafi fundist ég hafa lítinn áhuga á landinu okkar þá sá ég og heyrði ávallt hversu vænt honum þótti um sinn æskubæ og Hólmatind, því jú eins og hann sagði þá hafði ég meiri áhuga á fólkinu en landinu og naut þess að vera með ykkur í þessari ferð.

Mig langar að fara og fjallið mitt klífa

og fegurð þess kanna og sjá.

Því fjallið mitt faðminn út breiðir

svo fallega á móti mér.

Ég kem til þín langar leiðir.

Mikið ljómandi er gaman að vera hjá þér.

Þú angar af mosa og móum,

merla þér fögur ský.

Í lofti er söngur frá syngjandi lóum.

Þær syngja þér dirrindí.

(Aðalbjörn Úlfarsson)

Góða ferð á fjallið þitt, elsku afi, og þakka þér fyrir allar þær minningar sem ég á um þig. Mun ég deila þeim með mínum börnum sem sakna þín sárt og fannst alltaf gott að koma og spjalla við þig.

Guðbjörg.

Þá er komið að því að kveðja Róbert afa. Þegar ég hugsa til hans sé ég hann fyrir mér fyrir framan eldhúsgluggann í Efstahjalla með vatnsglas í hendi að horfa yfir Esjuna. Á sama stað minnist ég þess hlýlega að hafa skrælt kartöflur yfir eldhúsvaskinum með honum á jóladag eitthvert árið, þau voru mörg jólaboðin og veislurnar sem við áttum saman.

Afi var alltaf áhugasamur um það sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur og var tilbúinn að vesenast ýmislegt til að styðja okkur í leik og starfi. Þegar ég var ungur að sinna áhugamálum í bænum fékk ég alltaf að gista hjá ömmu og afa. Þá skutlaðist afi með mig um allan bæ auðvitað á Toyota, því hann var alltaf á Toyota.

Afi var Eskfirðingur og hélt mikið upp á sinn Hólmatind. Hann sagði okkur skemmtilegar sögur frá því þegar hann var lítill fyrir austan en ljóst má af þeim vera að hann tók sér ýmislegt fyrir hendur. Afi og amma ferðuðust mikið.

Þau voru dugleg að draga barnabörnin með til að kenna okkur ýmislegt um fjöll og firnindi. Ég man sérstaklega eftir ferð sem við frændurnir fórum saman í með gömlu hjónunum þar sem var sungið hástöfum allan hringinn í kringum landið. Við fórum líka oft saman í sumarbústað bæði í lengri og skemmri tíma, þá var oft mikið um gleði og gaman.

Um páskana var ég að ræða við eldri dóttur mína um langafa hennar. Hún sagði mér þá að hún myndi sakna hans því hann var svo skemmtilegur. Afi var stríðinn á gamansaman hátt og þess minntist dóttir mín einmitt.

Amma, helst væri ég til í að geta knúsað þig í gegnum þetta, ég mun sakna hans afa, hlýjunnar og húmorsins.

Jón Karl.

Undanfarnar vikur hafa svo sannarlega verið skrítnar. Núna á síðasta degi í einangrun vegna Covid-19 veirunnar sit ég hér við stofuborðið og skrifa kveðjuorðin til þín, pabbi minn.

Aldrei í mínum verstu draumum hefði mig órað fyrir því að síðustu dagar þínir hér í þessu lífi yrðu svona. Að mamma og við börnin þín gætum ekki verið með þér nema að takmörkuðu leyti vegna sóttkvíar og einangrunar út af þessari plágu sem nú herjar á heiminn. Það er okkur þá huggun að hafa vitað af þér í höndunum á þessu frábæra starfsfólki sem sinnti þér á deild B4 á Landspítalanum í Fossvogi. Fyrir það verðum við ævinlega þakklát.

Að ferðast saman var eitt ykkar aðaláhugamál, þær voru ófáar Bændaferðirnar sem þið fóruð saman. Eins voru nokkrar ferðir sem þið fóruð með okkur systkinunum nú eftir að við urðum fullorðin bæði innanlands og utan. Barnabörnin fengu að njóta þess þegar þið ferðuðust um landið, því að þau fengu stundum að fara með og veit ég að þau lifa á því enn í dag. Samrýndari hjón eru held ég vandfundin en þú og mamma, ég var að fletta gömlum myndum af ykkur og þar kom ein upp sem lýsir ykkur vel. Þið stóðuð við eldhúsvaskinn í ferð sem þið fóruð með okkur Guðrúnu til Spánar fyrir nokkrum árum, mamma að vaska upp og þú að þurrka. Þannig var ykkar líf, hlið við hlið gegnum allt. Aldrei nein ákvörðun tekin nema ræða við hinn aðilann fyrst.

Síðustu árin hafa verið ykkur mömmu erfiðari eftir að þú veiktist en alltaf hélstu í húmorinn og sást broslegar hliðar á mörgu.

Í veikindum þínum hefur heldur betur komið í ljós hvað mamma var einbeitt í að þér liði sem best, hún stóð við hlið þér með allri sinni ást og umhyggju. Hún gerði þér lífið svo sannarlega auðveldara þarna eins og hennar var von og vísa. Pabbi minn, það máttu vita að við börnin þín og okkar fólk munum svo sannarlega halda utan um mömmu fyrir þig.

Setningin sem kom frá þér þegar komið var til ykkar mömmu er nú þögnuð: Hvað er að frétta hjá ykkur? Engar fréttir, góðar fréttir! En hún mun lifa í huga mér um ókomna tíð.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur í gegnum lífið.

Pabbi, ég kveð þig með söknuði og tárum, en samt með bros á vör því að minningarnar sem ég á um þig koma til með að gleðja mig um ókomna tíð.

Bless í bili, pabbi minn.

Þinn

Egill.