Elín Guðný Sæmundsdóttir fæddist 10. ágúst 1933 á Norðfirði. Hún lést á heimili sínu 3. apríl 2020 eftir stutta baráttu við krabbamein.

Foreldrar hennar voru Sæmundur Þorvaldsson frá Stóru-Breiðuvík Helgustaðahreppi, f. 4. janúar 1882, d. 7. desember 1949, og Marta Olsen frá Klöpp í Reyðarfirði, f. 11. janúar 1891, d. 24. febrúar 1969.

Elín var yngst átta systkina sem öll eru látin. Þau voru: Anna Þuríður, Jens Olsen, Þorvaldur, Kristín, Stefán Jóhann, Ásdís Ingigerður og Valtýr.

Elín giftist Páli Árnasyni vélstjóra, f. 9. nóvember 1930, d. 27. desember 1963. Dætur þeirra eru: Sædís, f. 18. júlí 1954, gift Arnari F. Sigurþórssyni. Sonur þeirra er Arnar Páll. Fyrir átti Sædís Andreu Þóru Ásgeirsdóttur. Gerður, f. 18. nóvember 1956. Sambýlismaður hennar er Hafþór Júlíusson. Börn Gerðar og fyrri manns hennar, Ingólfs Sigfússonar, eru Elín, Steinunn og Andri Páll.

Seinni eiginmaður Elínar er Ástbjörn Egilsson, f. 21. desember 1942. Dætur þeirra eru: Agla, f. 9. október 1966, gift Haraldi Erni Jónssyni. Börn þeirra eru Ástbjörn og Kristín. Marta María, f. 3. apríl 1969. Sambýlismaður hennar er Þórður Þórarinsson. Synir þeirra eru Þórarinn, Ástbjörn og Einar.

Langömmubörnin eru átta og eitt langalangömmubarn.

Elín ólst upp á Norðfirði og lauk þar skólagöngu. Á sextánda aldursári hélt hún til Reykjavíkur og stundaði þar ýmis störf. Elín giftist Ástbirni 11. júní 1966 og hófu þau búskap í Ljósheimum þar sem Elín bjó með dætrum sínum. Árið 1969 fluttu þau í Hraunbæinn. Árið 1973 keyptu þau litla matvöruverslun við Grettisgötu 86 og ráku til ársins 1976 er þau fluttu til Grindavíkur. Þar hófu þau rekstur á versluninni Bragakjörum. Um nokkurra ára skeið rak Elín einnig fataverslun í Grindavík. Árið 1986, eftir tíu ára búsetu í Grindavík, seldu þau reksturinn og fluttu til Reykjavíkur en þá hafði Elín hafið rekstur á tískuverslun við Laugaveg. Elín hætti verslunarrekstri upp úr 1990 og vann eftir það sem matráðskona hjá Hafró og Íslandspósti.

Í meira en áratug hefur Elín starfað sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn í fataverslun að Laugavegi 12. Árið 2007 fluttu þau hjón í Sjálandshverfið í Garðabæ. Útför fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 17. apríl 2020. Vegna samkomubanns verða eingöngu nánustu fjölskyldumeðlimir viðstaddir útförina en minningarathöfn verður auglýst síðar.

Mamma og tískan.

Við mamma að vinna saman í Strætinu – Marc O'Polo. Ég nýkomin úr Tollinum með sendingu og spenna í loftinu að sjá nýju kolleksjónina. Dáumst að pilsum, kjólum, skyrtum, buxum og kápum. Öllu skal komið fyrir á smekklegan hátt, enginn rekki má vera ofhlaðinn. Verðlagningin vefst fyrir henni: „Það bara gengur ekki að leggja fullt á þessar buxur, þær verða svo dýrar.“ Vildi vera sanngjörn.

Tískuverslanir í sérstöku uppáhaldi, ef flíkin var lekker, vönduð og á sanngjörnu verði sló mamma til. Komin heim með nýja flík og þau pabbi í búðinni daginn eftir því toppurinn var bara ekki í rétta litatóninum við buxurnar, skóna og veskið. Allt var betra í setteringu. Hún hafði flottan stíl.

Mamma og músík.

Mamma elskaði að dansa. Tina Turner var hennar kona. Og við dönsuðum líka, stelpurnar. Hún með okkur og við með henni.

Mamma og fjölskyldan.

Hún naut þess að vera með fólkinu sínu og fannst við oftar en ekki fara of fljótt: „Hva! Eruð þið farin strax?“ Hún var innilega þakklát fyrir allar samverustundirnar og kvaddi okkur alltaf með hlýjum faðmi og kossi á kinn.

Mamma veik og við hjá henni, pabbi og stelpurnar. Komið er kvöld og að skilnaði segir hún: „Elskurnar mínar, eru þið ekki búnar að vera allt of lengi?“ Nei mamma, við hefðum viljað vera svo miklu lengur.

Takk elsku mamma mín, fyrir að vera til staðar fyrir mig og mína.

Þín

Agla.

Elsku mamma verður lögð til hinstu hvílu í Dómkirkjunni í dag. Í huga mínum var hún mikil nútímakona og þrátt fyrir að vera á 87. aldursári varð hún aldrei gömul. Undanfarna daga hefur hugurinn reikað aftur og það hefur verið gott að ylja sér við góðar minningar.

Minningar þar sem ég hlusta spennt á mömmu segja mér sögur frá æsku sinni á Norðfirði, ævintýrum tengdum hernáminu og þeim kröppu kjörum sem flestir bjuggu við á þeim tíma. Mamma var yngst átta systkina og sagðist hún alltaf hafa notið góðs af því að eldri systkini hennar hefðu dekrað við hana og borið hana á höndum sér. Bræður hennar voru farnir að vinna fyrir sér þegar hún var lítil stelpa og þegar þeir komu heim færðu þeir henni leikföng og hluti sem ekki var sjálfsagt að stelpur á þessum tíma ættu.

Minningar af því þegar ég fékk að fara með henni fyrst að salta síld og við sátum á netahrúgu í Gjögri um miðja nótt að bíða eftir síldinni, mér fannst ég svo ótrúlega stór en var ekki stærri en það að mamma þurfti að salta neðstu tvær raðirnar í tunnuna því ég náði ekki niður á botninn enda bara níu ára. Þarna áttum við vel saman, kepptumst við að salta sem flestar tunnur.

Minningar af mömmu kenna okkur systrum réttu handtökin við að strauja, hengja út þvott og fleira. Ég átti alltaf erfitt með að gera hlutina eins og átti að gera þá, þurfti að finna upp mínar eigin leiðir. Ég er þakklát fyrir leiðsögnina og fyrir að hafa mátt hafa minn hátt á.

Minningar af svipnum sem kom á andlitið á mömmu þegar hún var stolt af manni. Hún var ekki sparsöm á þennan svip og þurfti stundum ekki mikið til, en það sem kallaði hann oftast fram var þegar maður sýndi dugnað og athafnasemi, var hugrakkur eða breytti rétt á einhvern hátt. Þessi svipur sagði meira en nokkur orð og hvatti mann áfram á svo margvíslegan hátt.

Minningar af mömmu í essinu sínu í verslunarrekstri, fyrst í matvöruverslun og svo í tískuvöruverslun þar sem hún lagði metnað sinn í að selja vandaðar vörur. Það var ósjaldan sem hún kom heim í lok dags og sagði manni stolt sögur af ánægðum viðskipavinum og það leyndi sér ekki að það var það sem gaf henni mest.

Minningar af mömmu og pabba, samhent og samtaka að takast á við lífið, í blíðu og stríðu. Þau voru heppin með hvort annað og vissu það bæði.

Minningar um hlýja, hláturmilda og skemmtilega mömmu og ömmu. Mamma rækti fjölskylduna sína af mikilli alúð og átti gott og innihaldsríkt samband við alla afkomendur sína. Þau pabbi tóku virkan þátt í lífi okkar allra, sýndu einlægan áhuga og settu sig vel inn í hugðarefni okkar. Þau mættu áhugasöm á fótboltaleiki, tónleika, danssýningar og annað sem fólkið þeirra tók sér fyrir hendur. Þau voru bakvarðasveitin okkar.

Það er sárt og erfitt að kveðja en ég er þakklát fyrir það góða veganesti sem þú og pabbi hafið gefið mér.

Hvíl í friði, elsku mamma.

Marta María

Ástbjörnsdóttir.

Gengin er ástkær tengdamóðir mín Elín Sæmundsdóttir eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Hana hitti ég fyrst er dóttir hennar Marta María og ég felldum hugi saman fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þau hjónin Elín og Ástbjörn tóku mér opnum örmum og tókst strax með okkur náin vinátta. Þau voru samheldin og hamingjusöm hjón, stofnun í stórri fjölskyldu. Það var mikil gæfa þeirra að kynnast og ganga í hjónaband. Með sameiginleg áhugamál og lífssýn sem hafa leitt þau í gegnum gott líf saman. Líf sem borið hefur ríkulegan ávöxt, ekki einungis í afkomendum þeirra heldur líka í þeim áhrifum sem þau hafa haft á samferðamenn sína.

Elín var barngóð og þótti sérstaklega vænt um vini sína og vandamenn. Hún sinnti barna- og barnabörnum sínum afar vel og var umhugað um velferð þeirra. Enda var hún náinn vinur afkomenda sinna og maka þeirra. Hún elskaði þau öll og þau elskuðu hana. Þegar elsti sonur minn fæddist var það okkur unga parinu dýrmætt að geta sótt góð ráð og aðstoð til Elínar og Ástbjörns. Þegar þörf var á að láta passa drengina, þá bauð maður þeim það. Það var óþarfi að biðja þau um það, þau vildu fá að passa. Drengirnir mínir hafa átt ófáar dýrmætar og yndislegar stundir með ömmu sinni. Ætíð var hún reiðubúin til að segja þeim sögur svo ekki sé talað um að spila við þá enda deildi hún spilaást með þeim. Og það eru ekki allar ömmur á níræðisaldri sem mæta á flesta íþróttaleiki afkomenda sinna í hvaða veðri sem er.

Ávallt var Elín boðin og búin til að leggja fjölskyldu sinni sitt lið. Hún var ráðholl og hjálpsöm með eindæmum. Ég minnist þess er við Marta vorum að kaupa okkar fyrstu íbúð hversu Elín var spennt og þau Ástbjörn nenntu að hlusta á allar vangaveltur okkar um kosti hinna og þessara íbúða.

Elín var stórglæsileg kona, ungleg og alltaf flott í tauinu. Það var ætíð stutt í húmorinn hjá henni. Hún var mikil smekkmanneskja og vildi hafa hreint og allt í reglu í kringum sig. Heimili þeirra hjóna hefur borið merki þess, en ég er ekki viss um að Ástbjörn hafi haft mikið um innanstokksmuni að segja nema ef vera skyldi um málverkin sem veggina prýða. Eitt af því sem einkennt hefur hjónin er félagslyndi þeirra og mannblendni. Enda vinahópar þeirra stórir og vel skipaðir. Elínu var umhugað um að láta gott af sér leiða og var hún meðal annars sjálfboðaliði Rauða krossins í mörg ár.

Að vera nýtin og nægjusöm eru kostir sem Elín lærði í æsku. Kostir sem veittu henni enn meiri ánægju af því að njóta lífsins. Sú lífsspeki sem holl er hverjum manni, að til þess að geta leyft sér hluti þurfi að spara fyrir þeim. Og það gerði Elín. Hún naut þess að ferðast til útlanda, ekki síst til Spánarstranda og annarra hlýrra staða.

Trúin hefur skipt þau hjónin miklu máli og tók Elín örlögum sínum af einstöku æðruleysi. Henni var brugðið er veikindin börðu dyra, enda vart orðið misdægurt á ævi sinni, en gekk til móts við skaparann sátt og þakklát fyrir sitt.

Ég minnist góðra stunda með Elínu. Heimsókna hennar til okkar Mörtu er við bjuggum í Danmörku. Samverustunda hennar með okkur og sonum okkar. Ferðalaganna með henni og Ástbirni. Þar sem ég kveð Elínu hinsta sinni þakka ég henni kærlega fyrir samfylgdina, fyrir hjálpsemina og fyrir að hafa útdeilt af jákvæðum lífsskoðunum og elsku í kringum sig.

Þórður Þórarinsson.

Elsku amma mín, það er þyngra en tárum taki að þurfa að kveðja og sjá framtíðina án þín. Þú varst svo mikilvægur hluti af mínu lífi og lékst gríðarlega stórt hlutverk sem ég mun alltaf sakna. Varst einstök amma og vinkona sem ég elskaði að vera í kringum, á góðum dögum sem slæmum, því áhrif þín voru slík að þú gerðir dagana mína alltaf betri. Þú hafðir sérstakt lag á því að láta manni líða sem einu manneskjunni í heiminum þar sem þú gafst manni óskerta athygli og ást. Vissir alltaf hvað maður þurfti án þess að þurfa að segja nokkuð.

Með þér var einfaldlega auðvelt að vera... á þeim stað sem maður persónulega var á hverju sinni. Þú umvafðir mann skilyrðislausri ást, gleði, hughreystingu og stolti og ég veit að öllum barnabörnunum þínum leið eins. Við vorum öll þín uppáhalds og þú gerðir aldrei upp á milli. Dásamaðir alla þína jafnt og lagðir þig í líma við að vera með puttann á púlsinum um hvað var að gerast í lífi okkar. Ég hefði ekki getað óskað mér betri ömmu og fyrirmynd.

Á sama tíma og gnístandi sársaukinn svífur yfir vegna fráfalls þíns þá er ég að springa úr þakklæti fyrir þá úthlutun að hafa fengið þig sem ömmu, þvílíkur lukkupottur og forréttindi.

Amma Ella var einstök, því ófá loforðin og lýsingarorðin sem eiga við um þessa yndislegu konu sem vakti athygli hvert sem hún fór með sínu geislandi brosi og innilega hlátri. Og ekki má gleyma glæsileikanum! Hún amma var nefnilega alltaf svo glæsileg og æðislega smart og fín, enda kölluð amma gella af vinkonum mínum. Það má segja að amma hafi í raun aldrei orðið gömul kona, hún var alltaf svo hress, ung í anda og til í allt. Já, hún gekk líka á hælum betur en flestar ungar konur. Hún hafði svo gaman af lífinu, elskaði að ferðast um heiminn, fara á tónleika, í leikhús, dansa og spila vist svo eitthvað sé nefnt. En eitt af hennar eftirlætis voru fallegar flíkur, fannst fátt skemmtilegra en að skoða í búðarglugga og fara í búðir. Það kom því engum á óvart að hún gerðist sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinnni, á Laugarveginum, þegar hún hætti að vinna. Þar naut hún sín vel í að gera búðina skemmtilega og aðlaðandi fyrir viðskiptavini. Var þar algjörlega á heimavelli enda ekki óvön að starfa í fataverslun eða vera í verslunarrekstri. Hún rak MarcoPolo-fataverslunina á Laugaveginum um árabil þegar ég var lítil stelpa. Það var því snemma sem ég byrjaði á að hlakka til og hafa gaman af að sýna ömmu nýjustu flíkurnar mínar, skóna eða töskurnar. En það var ekki síður skemmtilegt að fara yfir nýjustu flíkurnar hennar, sem voru ófáar.

Á meðan þú, elsku amma mín, dansar á himni umvafin uppáhaldslitnum þínum, bláum, þá mun ég leggja mig fram við að tileinka mér allt það sem þú kenndir mér og gafst mér í veganesti. Þú verður ávallt í hjarta mínu og ég mun hugga mig við yndislegar minningar.

Guð geymi þig, elsku amma mín, og ég hlakka til að hitta þig aftur.

Elín Ingólfsdóttir.

Í dag er kvödd elskuleg vinkona okkar, hún Ella. Eftir snörp og erfið veikindi lést hún á heimili sínu umvafin Ástbirni sínum og fjölskyldu sem henni þótti svo undur vænt um. Ella var ein af Perlunum en svo nefnist vinkvennahópurinn sem myndaðist þegar eiginmenn okkar, Svitabræður eins og þeir kalla félagsskapinn, hófu að hittast fyrsta laugardag í mánuði fyrir hartnær 30 árum. Allar götur síðan höfum við Perlurnar átt einstaka vináttu og notið þess að vera samvistum dagpart yfir vetrarmánuðina og gert margt skemmtilegt saman.

Miðbærinn var okkar staður og þar voru búðirnar okkar, fínar kvenfatabúðir og allt þar á milli. Við vorum óþreytandi að máta fötin og fá álit hinna á sniði og lit og þar var hún Ella okkar á heimavelli í álitsgjöfinni því hún hafði næmt auga fyrir smekklegheitum. Svo var snæddur hádegisverður og farið yfir mál líðandi stundar, sérdeilis skemmtileg upplyfting sem við nutum svo vel.

Við minnumst leikhúsferða, Vínartónleika, helgarferða og ekki síst matarboðanna á heimilum okkar. Þar var skrafað og skeggrætt um alla skapaða hluti, mikið hlegið og ekki óalgengt að einhver brysti í söng við minnsta tilefni. Hópurinn átti það sameiginlegt að láta sér líða vel heima og að heiman.

En nú er Perlubandið brostið á ný og okkar dásamlega vinkona hefur kvatt þessa jarðvist og haldið til nýrra heimkynna.

Við Perlur og Svitabræður þökkum henni ljúfar stundir og sendum vini okkar Ástbirni og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Já, þannig endar lífsins sólskinssaga.

Vort sumar stendur aðeins fáa daga.

En kannske á upprisunnar mikla morgni

við mætumst öll á nýju götuhorni.

Ásta og Ævar, Elísabet og Aðalsteinn, Gunnhild og Finnbogi, Sigrún og Árni, Stella og Sæmundur, Bragi.