Met var sett hvað varðar fjölda umsókna um styrki úr Hönnunarsjóði. Umsóknarfrestur fyrir úthlutun í maí rann út 15. apríl og er ljóst að aldrei hafa jafnmargir sótt um.

Met var sett hvað varðar fjölda umsókna um styrki úr Hönnunarsjóði. Umsóknarfrestur fyrir úthlutun í maí rann út 15. apríl og er ljóst að aldrei hafa jafnmargir sótt um. Alls bárust 126 umsóknir um 237 milljónir króna, sem er um 30% aukning, en sjóðurinn mun veita 20 milljónir að þessu sinni. Í tilkynningu frá Hönnunarsjóði segir að ljóst sé að „ástandið í kjölfar Covid-19-faraldursins hefur áhrif á fjölda umsókna og virðist líka hafa áhrif á verkefnin sem sótt er um sem snúa mörg að nýsköpun í kjölfar faraldurs og breyttri heimsmynd sem blasir við. Meðal annars má sjá áherslu á rafrænar lausnir, sjálfbærni og matarsóun.“

Hlutverk sjóðsins er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Hönnunarsjóður veitir jafnframt styrki til kynningar- og markaðsstarfs erlendis í því skyni að efla útflutning íslenskrar hönnunar.