Kollavíkurvatn Hvalhræið marar í hálfu kafi. Viðarfjall í bakgrunni.
Kollavíkurvatn Hvalhræið marar í hálfu kafi. Viðarfjall í bakgrunni. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Einhvern tíma hefði það þótt ótrúleg saga að stórhveli væri komið í Kollavíkurvatn við Þistilfjörð í stað silungs en sú er raunin. Hræ af stórum hval, líkleg búrhval, sást fyrst í vatninu núna í byrjun apríl.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Einhvern tíma hefði það þótt ótrúleg saga að stórhveli væri komið í Kollavíkurvatn við Þistilfjörð í stað silungs en sú er raunin. Hræ af stórum hval, líkleg búrhval, sást fyrst í vatninu núna í byrjun apríl.

Kollavíkurvatn var áður gjöfult silungsveiðivatn en óveðrið sem gekk yfir landið um miðjan desember hefur nú gjörbreytt vatninu í brimsalt sjávarlón. Morgunblaðið greindi frá því 16. janúar sl. að í þessu óveðri rauf brimið skarð í malarkambinn sem aðskildi vatnið og hafið og hæpið er að það skarð lokist aftur, að sögn Kollavíkurbænda. Hefur þessi renna væntanlega verið leið hvalsins inn í vatnið.

Góður silungur hefur í gegnum tíðina veiðst í Kollavíkurvatninu en spurning er hvort lífríki vatnsins hefur breyst það mikið að ekki séu skilyrði þar lengur fyrir silunginn. Kollavíkurbændur lögðu net í vatnið fyrir skömmu en ekki fékkst branda í það enda er það ekki lengur stillt stöðuvatn. Mikil ókyrrð og ölduhreyfingar eru í vatninu en þar gætir einnig sjávarfalla.

Hvalshræið marar enn í hálfu kafi í vatninu skammt frá bænum Kollavík og þykir bændunum það ekki góð sending.