Lestur blaða og vefmiðla hefur aukist mikið vegna kórónufaraldursins. Um leið hafa auglýsingar dregist saman. Róðurinn hefur því þyngst í fjölmiðlarekstri þrátt fyrir aukinn áhuga og lestur á fréttum. Fjölmiðlar áttu þó í vanda fyrir vegna þverrandi auglýsingatekna, en það var ekki út af veiru heldur netrisunum Facebook og Google, sem eru stórtækir á auglýsingamarkaði og njóta góðs af vinnu fjölmiðla án þess að borga fyrir.
Íslenskir fjölmiðlar hafa fengið smjörþefinn af þessari þróun og er sérstaklega súrt að sjá opinberar stofnanir og fyrirtæki verja peningum í auglýsingar hjá netrisunum.
Nú hyggjast stjórnvöld í Ástralíu rétta hlut ástralskra fjölmiðla. Þau tilkynntu í gær að fyrirtækin Facebook og Google yrðu skylduð til þess að deila auglýsingatekjum sínum með áströlskum fjölmiðlum. Með öðrum orðum hyggjast þau láta tæknirisana borga fyrir notkun á fréttum og öðru efni.
Þar í landi eru Facebook og Google með tvo þriðju af auglýsingatekjum á netinu. Fimmtungur starfa á áströlskum fréttamiðlum hefur orðið niðurskurði að bráð á undanförnum sex árum vegna samdráttar í tekjum.
Ekki er ljóst hvernig Facebook og Google munu bregðast við, en vísbending liggur fyrir. Frakkar urðu í fyrra fyrsta landið til að taka upp reglugerð Evrópusambandsins um greiðslur fyrir að endurnýta fréttaefni. Google tók því fálega og neitaði að borga krónu, frekar myndi fyrirtækið hætta að nota franskar fréttir.
Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna í þessum slag. Íslenskir fjölmiðlar eiga einnig í höggi við þessa risa og búa við þá skekkju í samkeppninni að greiða í ofanálag virðisaukaskatt, sem hinir alþjóðlegu keppinautar þurfa ekki að hafa áhyggjur af. Niðurstaðan skiptir því einnig máli fyrir Ísland.