Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson
Eftir Hauk Ágústsson: "Hvað bíður „Evrópu“ ESBs."

Það vill iðulega gleymast – eða þá að því er virðist er sleppt í umfjölluninni – að Evrópa er meira en Evrópusambandið (ESB). Í álfunni Evrópu telja Sameinuðu þjóðirnar að séu 44 ríki, en sú „Evrópa“, sem ESB nær til, telur ekki nema 27.

Upphaf ESB

Kímið að „Evrópu“ ESBs varð til árið 1949 í Evrópuráðinu og síðar í Stál- og kolasambandinu (SK) árið 1957, sem sex ríki, Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg, Holland og Vestur-Þýskaland stóðu að. SK var á yfirborðinu stofnað til þess að hafa stjórn á stál- og kolaiðnaðinum hjá þeim þjóðum, sem mynduðu það, vegna þess að talið var að með því að stýra þessum þáttum mætti koma í veg fyrir nýtingu þeirra til hergagnaframleiðslu og hervæðingar og að þannig yrði unnt að stuðla að friði í álfunni. Raunar var þó strax í upphafi víðtækari hugmynd að baki þó að hún færi ekki hátt í umræðunni lengi framan af. Hún sneri að myndun Bandaríkja Evrópu í anda Bandaríkja Norður-Ameríku og átti uppruna lengra aftur í sögunni.

ESB

Er tímar liðu stækkaði það, sem upphaflega var KS, með inntöku ríkja í sambandið og lokastigið nú um stundir er ESB, sem talið er formlega komið til sögunnar árin 1992-1993 með Maastricht-sáttmálanum (MS). Í stað MS kom svo Lissabon-sáttmálinn (LS) árið 2009, sem er í raun stjórnarskrá ESB. Í honum kemur fram með ljósum hætti það markmið, sem hljótt var um lengi framan af, eða það að koma á einni yfirstjórn yfir öllum þeim ríkjum, sem mynda ESB, þar sem sjálfstæði þeirra yrði sem næst að öllu lagt fyrir róða.

Reyndar hefur alla tíð verið unnið ötullega að því að skerða þetta sjálfstæði og það gert undir yfirskini samræmingar með ýmsum reglugerðum og sáttmálum, sem binda hendur stjórnvalda hina einstöku ríkja – og jafnvel ríkja utan ESB, sem hafa undirgengist föst tengsl við sambandið og þar með það að lúta boðum þess. Á meðal þessara ríkja er Ísland og má í því efni minnast þriðja orkupakkans, sem deilur stóðu um fyrir skömmu, en mun fleira mæti nefna.

Vaxandi óánægja

Alla tíð hafa verið uppi efasemdir um ESB og forvera þess. Þær fóru ekki hátt árum saman, enda kom upp nokkurs konar pólitískur rétttrúnaður innan þess, sem laut að því að ekki mætti gagnrýna það og sem kvað alla gagnrýni niður að hætti rétttrúnaðarsinna allra tíma – það er að segja með hnýfilyrðum, uppnefnum og óhróðri en ekki rökum. Efasemdirnar hurfu þó ekki, heldur efldust þær ekki síst eftir tilkomu LS, enda má segja að þá hafi hið ólýðræðislega stjórnarfar ESBs opinberast einna ljósast. Sáttmálann átti að fá samþykktan í þjóðaratkvæðagreiðslu innan meðlimaríkjanna árið 2008. Frakkar og Hollendingar höfnuðu honum og einnig Írar, en þeir voru látnir kjósa aftur og samþykktu hann þá. Síðan LS sett á án þess að leitað væri samþykkis þegnanna.

Hin vaxandi óánægja almennings með ESB kemur ekki hvað síst fram í síauknu fylgi stjórnmálaflokka, sem hafa uppi gagnrýni á sambandið. Þeir hafa gagnrýnt íþyngjandi og viðamikið regluverk sambandsins, sem runnið er að miklu mestu undan rifjum ókjörinna embættismanna og hefur þrúgandi áhrif á fjölda sviða atvinnulífs og gerða almennings. Einnig hefur gagnrýnin beinst að sjálfum stjórnarháttum og uppbyggingu ESB, sem ýmsir telja ekki meira en svo lýðræðislega, þó að fylgjendur sambandsins telji sig vera í framvarðarsveit lýðræðisins. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt, að líkja ESB við hið rússneska sovét, þar sem til dæmis var kosið til sýndarþings, og telja, að hið sama sé uppi í tilfelli Evrópuþingsins, enda sé það lítið annað en stimpilstofnun.

Sá blær andúðar, sem uppi hefur verið í garð ESB, hefur á síðustu vikum og mánuðum stig af stigi verið að sækja í sig veðrið. Einkum hefur það gerst í allra síðustu tíð eftir tilkomu COVID-19-plágunnar. Stoðir sambandsins virðast vera teknar að bresta. Hin háa hugsjón – ein af meginstoðum ESB – frjáls för manna um álfuna heyrir í það minnsta um sinn sögunni til. Ríki loka sig af. Uppi eru háværar raddir um getuleysi og ónýti sambandsins í því að bregðast við plágunni. Ítalir leituðu aðstoðar betur megandi ríkja í norðanverðri álfunni, en komu að mestu að lokuðum dyrum og svo er að yfir 60% Ítala telja sig ekki hafa gagn af verunni í ESB. Í sunnanverðri álfunni gnæfir yfir gífurleg kreppa vega þeirra áhrifa sem plágan hefur og mun hafa en lítill vilji virðist vera til samstöðu. Fyrir var klofningur innan ESB, til dæmis vegna innflytjendamála. Útganga Breta úr ESB jók í og nú bætist plágan við sem eykur enn á sundrungu og þá kreppu sem ESB hefur verið og er í.

Hvað bíður?

Ýmsir spekingar telja sig jafnvel sjá endalok ESB fyrir. Að minnsta kosti það að miklar sviptingar séu langlíklegastar og þá miklar breytingar innan sambandsins. Framtíðin leiðir í ljós hvað verður.

ESB mun án efa reyna að halda sér og sinni stefnu við lýði. Óneitanlega er það þó svo að flest hnígur að því að menn verði að íhuga stefnu sína og gerðir allt frá grunni og að ESB verði ekki það sama og fyrr þegar þeirri óáran sem nú gengur yfir það og heiminn allan linnir.

Höfundur er fv. kennari.

Höf.: Hauk Ágústsson