Róbert Jón Jack fæddist 15. september 1948. Hann lést 18. mars 2020.

Útför Róberts Jóns hefur farið fram. Minningarathöfn mun fara fram síðar.

Þegar við fréttum lát Róberts kom það í raun á óvart, þó svo að vitað væri að hann glímdi við ólæknandi sjúkdóm. Seiglan og lífskrafturinn í honum var svo ótrúlegur að hann lifði lengur en búist var við. Ef til vill hefur það lengt líf hans að hann hafði svo miklar framkvæmdir á Geitafelli sífellt til umhugsunar.

Meðal þess sem hann hafði í huga var að reisa þar orlofsbúðir fyrir Vestur-Íslendinga á stað nærri sjónum og gerðar voru teikningar sem hann sýndi mér. Leit vel út með að það kæmist í verk, en svo varð ekki úr.

Þá var ein hugmyndin að endurreisa klettinn Bárð sem stóð utar í fjörunni og tengist sögunni af Hvítserk og hafa hann ekki í sjó frammi, heldur hjá bænum á Geitafelli. Man ég eftir því að eitt sinn er ég hitti hann þar heima vorum við að athuga stað fyrir hann. Hvort tveggja hefði orðið mikil stoð við ferðamannaþjónustu hér, en verður vart úr þessu.

Ógleymanleg er samkoman sem þau hjón héldu um haustið 2017 heima á Geitafelli. Þar var á borðum, auk sviðaveislu, „haggis“ frá Skotlandi. Þá var skoskur maður í þjóðbúningi Skota sem flutti áður kvæði Roberts Burns, „Hail to the Haggis“, á skosku og blessaði yfir, á máli sem fáir þar inni skildu en spilaði á undan og eftir á sekkjapípu. Til þess að gera meira þjóðlegt flutti kvæðamannafélagið nokkrar stemmur og frumsamin kvæði voru lesin. Kona frá þjóðdansafélaginu stjórnaði skoskum og íslenskum þjóðdönsum. Ekki spillti fyrir að með hverjum miða fylgdi eitt staup af ekta skosku drammi. Var þar um merkan menningaratburð að ræða, sem ekki hafði verið áður á Vatnsnesinu. Til stóð að gera hann að árlegum viðburði, sem varð ekki úr.

Við hjónin þekktum Róbert heitinn ekki neitt áður fyrr því leiðir lágu ekki saman þar til hann fluttist að Geitafelli, en þá mynduðust fljótt góð kynni, enda þau hjón einstök í sinni röð.

Vegna þess samkomubanns sem er nú í landinu gátum við ekki mætt við útför hans til að kveðja, en hugur okkar var hjá aðstandendum.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Sigrúnar, barna þeirra, Vigdísar móður hans og systkina, sem og annarra aðstandenda.

Hlíf og Agnar, Hrísakoti.