Samninganefndir Breta og Evrópusambandsins um fríverslun eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu funduðu á ný í gær, í fyrsta sinn eftir að viðræðurnar voru settar í bið vegna kórónuveirufaraldursins.
Bæði Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, og David Frost, samningamaður Breta, fengu kórónuveiruna, auk þess sem Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var þungt haldinn um stund.
Fór fundurinn fram með fjarfundabúnaði, en ekki eru taldar miklar líkur á að samkomulag náist í tæka tíð, því undanþágur Breta í viðskiptum við ESB vegna útgöngunnar renna út um áramótin næstu. Hafa bresk stjórnvöld lýst því yfir að ekki komi til greina að framlengja þær. Var sú afstaða stjórnvalda ítrekuð í gær.