Björn Viðar Sigurjónsson fæddist á Akureyri 7. júní 1944. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 4. apríl síðastliðinn.
Foreldrar Björns Viðars voru Sigurjón Sigurjónsson, aðalbókari á Reykjalundi, f. 12. maí 1915 á Ísafirði, d. 5. september 1979, og Ármey Björnsdóttir, f. 1. október 1921 í Reykjavík, d. 10. september 1960. Björn var elstur þriggja systkina, en hin tvö eru Erna, f. 30. september 1949, d. 21. janúar 2004, og Sigurður Rúnar, f. 17. desember 1955.
Björn kvæntist 7. júní 1965 Bergljótu Aðalsteinsdóttur, f. 28. febrúar 1944. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Sigurjón Helgi, f. 10. mars 1965, í sambúð með Þorgerði Jónsdóttur. 2) Aðalsteinn Rúnar, f. 3. mars 1966, í sambúð með Paulu Holm og eiga þau tvö börn, Hans, f. 1996, og Guðrúnu, f. 2000. Fyrir átti Aðalsteinn dótturina Dagnýju Björk, f. 1990, í sambúð með Aroni B. Jósepssyni og eiga þau þrjú börn, Elfar Bjarka, f. 2013, Baldur Leó, f. 2015, og Evu Marí, f. 2019. 3) Ármey Björk, f. 7. júlí 1970, gift Jóni G. Þormar og eiga þau tvær dætur, Maríu Ólafíu, f. 2007, og Rakel Hrönn, f. 2010. Stjúpsonur Björns og sonur Bergljótar er Páll Pálsson, f. 13. maí 1963, og á hann þrjú börn, Eystein Helga, f. 1998, Steinunni Helgu, f. 2002, og Ásgeir Harald, f. 2007.
Björn Viðar fluttist ungur að norðan og ólst síðan upp í Mosfellssveit til 16 ára aldurs. Eftir andlát móður sinnar dvaldi Björn um skeið hjá ættingjum í Vestmannaeyjum en bjó svo í Reykjavík. Hann vann um tíma á Keflavíkurflugvelli, en hóf árið 1964 störf hjá Skeljungi í Reykjavík og vann þar þangað til starfævi hans lauk.
Útför Björns Viðars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. apríl 2020. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu verður athöfnin einungis fyrir nánustu aðstandendur.
Elsku pabbi, með þessu ljóði kveð ég þig. Hafðu hjartans þakkir fyrir góðar stundir.
Nú liðin er hin þunga þraut
og þreytta brjóstið rótt,
þinn andi svífur bjarta braut
á bak við dauðans nótt.
Ég kveð með þökk, í traustri trú
um tilverunnar geim
að sál þín örugg svífi nú
til sigurlandsins heim.
(Ingibjörg Þorbergs)
Guð geymi þig.
Þín
Ármey (Emma).
Ég hitti hann fyrst fyrir um 29 árum þegar ég og sonur hans hófum sambúð. Björn var mér alltaf góður tengdapabbi, við gátum hlegið og talað saman um allt milli himins og jarðar.
Þegar við eignuðumst börnin okkar tvö var hann tíður gestur á heimili okkar, hann passaði þau stundum og fór oft í göngutúra með þeim í 10/11 sem var nálægt okkur þá. Svo skemmtilega vildi til að þau komu alltaf til baka með fulla poka af alls konar mat, kaffi, hakki, mjólk og kókómjólk, sem sonur okkar örugglega hafði sett í körfuna. Svona var tengdapabbi, alltaf tilbúinn að hjálpa til að leggja í búið.
Árin liðu og í lokin var hann orðinn það slæmur til heilsu að hann þurfti að fara á hjúkrunarheimili. Ég tel mig heppna að hann kom á hjúkrunarheimilið sem ég er að vinna á, svo ég var í daglegu sambandi við hann. Hann var farinn að bíða eftir mér, stundum frammi við lyftuna. Hann sagði of að hann hlakkaði til að ég kæmi bara til að spjalla og gleyma öllu öðru í kringum sig. Þetta hefur verið mín daglega rútína í nærri tvö ár.
Elsku Björn, ég takka fyrir stundirnar okkar og fer að saknað þeirra mikið, ég veit að þú ert kominn á betri stað núna. Ég á eftir að saknað þín mjög mikið, hvíldu í friði, elsku tengdapabbi.
Þakkir til starfsfólks Heiðarbæjar fyrir að hugsa vel um hann.
Paula.