Bíó Kvikmyndatökuvélar á lofti.
Bíó Kvikmyndatökuvélar á lofti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kvikmyndaframleiðendur, sem fá að jafnaði fjórðung kostnaðar við framleiðslu mynda endurgreiddan úr ríkissjóði þegar verkefninu lýkur, geta nú óskað þess að fá hluta þessarar endurgreiðslu fyrirframgreiddan.

Kvikmyndaframleiðendur, sem fá að jafnaði fjórðung kostnaðar við framleiðslu mynda endurgreiddan úr ríkissjóði þegar verkefninu lýkur, geta nú óskað þess að fá hluta þessarar endurgreiðslu fyrirframgreiddan. Með þessu er tekið tillit til þess að framleiðsla kvikmynda geti hafa raskast vegna kórónuveirunnar. Þar sem því verður við komið geta greiðslur borist fyrr en ella væri. Þessi undantekning gildir á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí næstkomandi og verkefnið þarf þegar að hafa haft vilyrði stjórnvalda fyrir því að fá þessa endurgreiðslu á endanum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra birti reglugerð um þetta í Stjórnartíðindum í gær.

„COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft töluverð áhrif á kvikmyndagerð á Íslandi, þar sem frestað hefur þurft tökum og framleiðslu á verkefnum. Þá hefur frumsýningum einnig verið frestað vegna lokunar kvikmyndahúsa,“ segir í tilkynningu. „Fjármögnun flestra íslenskra kvikmynda og útgreiðsla styrkja er háð framvindu verkefna og lokum þeirra. Þannig greiða flestir sjóðir lokagreiðslu sína við skil á verkefnum og frumsýningu. Við frestun frumsýninga frestast því greiðslurnar og hefur þetta töluverð áhrif á greiðsluflæði verkefnanna.“