Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Netverslun með lyf hefur aukist umtalsvert upp á síðkastið að sögn Hauks Ingasonar, lyfsala í Garðs apóteki. Auk apóteksins hefur hann rekið lyfsöluvefinn appotek.is í þrjú ár og er frumkvöðull á því sviði hérlendis.
„Það hafa margir skráð sig undanfarið og það er fólk á öllum aldri, ekkert síður eldra fólk en yngra. Viðskiptavinirnir eru bæði af höfuðborgarsvæðinu og utan af landi,“ sagði Haukur. Hann sagði að appotek.is hefði lengi verið eitt á lista Lyfjastofnunar yfir apótek sem hafa heimild til lyfsölu á netinu. Nítján apótek hafa nú tilkynnt netverslun með lyf, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.
Haukur sagði að vefurinn appotek.is hefði frá upphafi gætt vel að öryggismálum gagnvart viðskiptavinum sínum. Gerð var öryggisúttekt á appotek.is vefverslun Garðs apóteks og var hún staðfest af Embætti landlæknis.
„Þú þarft að hafa rafræn skilríki til að skrá þig inn hjá okkur,“ sagði Haukur. „Hjá okkur geta innskráðir séð lyfseðla sína og barna sinna 15 ára og yngri. Einnig getur fólk séð lyfjagreiðslutímabil sitt og greiðslustöðu á tímabilinu.“ Hægt er að fá lyfin send heim á höfuðborgarsvæðinu. Sé pantað fyrir kl. 12.00 er lyfjunum ekið heim til viðskiptavina samdægurs, annars daginn eftir. Lyf eru send út á land með Póstinum. Þó ekki eftirritunarskyld lyf, en í þeim flokki eru m.a. ávanabindandi lyf.
Einnig getur fólk pantað lyf á netinu, látið taka þau til og greitt í gegnum vefinn og sótt þau í Garðs apótek. Þá tekur afgreiðslan mjög stutta stund, sem er kostur á þessum tímum. Haukur segir að margir notfæri sér þessa leið við lyfjakaup.
Netlyfsala er tilkynningarskyld
Heimild til netverslunar með lyf, það er leyfi til að stunda póstverslun með lyf og fjarsölu til almennings í gegnum netið, fylgir lyfsöluleyfi, samkvæmt svari Lyfjastofnunar við spurningum Morgunblaðsins.„Einungis þeim sem hlotið hafa lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar er heimilt að stunda netverslun með lyf og er þeim skylt að tilkynna til stofnunarinnar sé fyrirhugað að stunda slíka starfsemi. Ekki er því um sérstakt leyfi að ræða frá stofnuninni heldur einungis tilkynningarskyldu sem lyfsöluleyfishafar þurfa að sinna eigi síðar en þegar netverslun hefst.“
Lyfjastofnun bendir á að þeim sem starfrækja póst- og netverslun með lyf er skylt að hafa á vef sínum sameiginlegt kennimerki (logo) Evrópusambandsins, sem sýnir með skýrum hætti á hverri síðu vefsetursins hvaða lyf eru í boði til almennings í fjarsölu gegnum netið. „Kennimerkið gerir almenningi kleift að átta sig á því í hvaða ríki netverslunin er staðsett og jafnframt hvar hún er eftirlitsskyld. Kennimerkið ber þjóðfána þess ríkis þar sem netverslunin er starfrækt, og með því að smella á merkið mun vefur lyfjastofnunar landsins opnast og sýna lista yfir þær netverslanir sem heimilar eru. Auðkenni Lyfjastofnunar er þannig ætlað að auðkenna öruggan lyfsala í fjarsölu, ekki er um vottun á rafrænu gagnaöryggi sendinga að ræða né vottun á öryggi í meðhöndlun persónuupplýsinga.“
Sömu kröfur eru gerðar til öryggis við afhendingu og afgreiðslu lyfja og þegar þau eru afgreidd og afhent í lyfjabúð, bæði hvað varðar lausasölulyf og lyfseðilsskyld lyf, að sögn Lyfjastofnunar.