Café París Nýir eigendur hafa keypt reksturinn af Birgi Bieltvedt og nýta samkomubann til endurbóta.
Café París Nýir eigendur hafa keypt reksturinn af Birgi Bieltvedt og nýta samkomubann til endurbóta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Fjórar vikur eru nú liðnar síðan hert samkomubann tók gildi hér á landi. Þá voru mörk mannfjölda við skipulagða viðburði færð úr 100 niður í 20. Við það var skemmtistöðum gert að skella í lás og fjöldi veitingastaða hefur gert slíkt hið sama. Óvíst er hvernig veitingastöðum og börum reiðir af á næstu vikum og óhætt er að segja að hljóðið í mörgum veitingamönnum sé þungt.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fjórar vikur eru nú liðnar síðan hert samkomubann tók gildi hér á landi. Þá voru mörk mannfjölda við skipulagða viðburði færð úr 100 niður í 20. Við það var skemmtistöðum gert að skella í lás og fjöldi veitingastaða hefur gert slíkt hið sama. Óvíst er hvernig veitingastöðum og börum reiðir af á næstu vikum og óhætt er að segja að hljóðið í mörgum veitingamönnum sé þungt.

Meðal þeirra veitingastaða sem hefur verið lokað er Grillið á Hótel Sögu. Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Sögu, segir að þegar faraldurinn skall á og samkomubann gekk í gildi hafi þurft að grípa til róttækra aðgerða enda ljóst að litlar tekjur yrðu af rekstrinum á næstunni. Segja þurfti upp helmingi starfsfólks og losa ýmsan fastakostnað. „Við vissum að þetta tæki meira en einn til tvo mánuði og þurftum að velja hvaða einingar væru opnar,“ segir hún.

Ingibjörg viðurkennir að óvissa sé um framtíð Grillsins eins og staðan er núna. „Grillið er ofboðslega stór hluti af Hótel Sögu. Vonandi náum við að finna einhvern flöt á því að opna það að nýju. Eins og staðan er núna verður það ekki á næstunni. Matreiðslumennirnir eru enn þá í vinnu hjá okkur og matreiða fyrir Mími. Ef ríkisstjórnin framlengir hlutastarfaúrræðið höfum við tök á því að halda þessu framúrskarandi fagfólki.“

Rekstur veitingastaðarins og barsins á Kex hosteli við Skúlagötu er farinn í þrot. Að því er kom fram í Stundinni verður hann ekki endurreistur. Staðurinn hefur notið talsverðra vinsælda síðustu ár en reksturinn hefur verið þungur. Þá herma heimildir Morgunblaðsins að óvíst sé hvort og hvenær Bryggjan brugghús verði opnuð að nýju.

Jón Mýrdal, veitingamaður á Röntgen við Hverfisgötu, segir að óvissa sem krár og skemmtistaðir búi við sé erfið. „Þetta er hræðilegt ástand. Við erum ekki komin með neina dagsetningu á opnun, 4. maí þýðir ekkert fyrir okkur.“

Hann segir að síðustu vikur hafi nýst vel við viðhald og fleira slíkt. „Flestir eru búnir að semja við birgja en menn hafa áhyggjur af samningum við leigusala. Fasti kostnaðurinn er erfiður, menn eru ekkert endilega tilbúnir að gefa eftir. Svo er bara beðið eftir hvað ríkisstjórnin kynnir í dag.“

Landið virðist þó vera að rísa hjá sumum og í gær var Sólon í Bankastræti opnaður að nýju. Þá verður Grillmarkaðurinn opnaður á morgun.