Kristján fær útrás með reglulegum heimsóknum í GT Akademíuna.
Kristján fær útrás með reglulegum heimsóknum í GT Akademíuna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Þótt keppnisferli Kristjáns Einars Kristjánssonar sé lokið er þessi frækni Formúlu 3-ökuþór aldeilis ekki búinn að leggja stýrið á hilluna. Hann er með mörg járn í eldinum, er m.a.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þótt keppnisferli Kristjáns Einars Kristjánssonar sé lokið er þessi frækni Formúlu 3-ökuþór aldeilis ekki búinn að leggja stýrið á hilluna. Hann er með mörg járn í eldinum, er m.a. viðskiptastjóri hjá auglýsingastofu og rekur eigið sprotafyrirtæki, og er iðulega kallaður til þegar vantar lipran ökumann fyrir atriði í auglýsingu eða kvikmynd. Þá heldur Kristján úti hlaðvarpinu Pitturinn, þar sem Formúla 1 er rædd frá öllum hliðum, hefur lýst kappakstri hjá Stöð 2 Sport síðustu ár og er umsjónarmaður Vodafone-deildarinnar á Stöð 2 Esport.

Margt er að gerast í akstursíþróttaheiminum og hægt að greina merki um aukinn áhuga hjá almenningi. „Það er svo sannarlega undiralda í samfélaginu og má kannski ekki síst rekja til þess að Bernie Ecclestone seldi frá sér Formúlu 1 en bandarískt fyrirtæki tók við keflinu. Í framhaldinu fór efni úr Formúlu 1-kappakstrinum að sjást á samfélagsmiðlum og YouTube en þessu efni höfðu Ecclestone og félagar áður haldið alveg út af fyrir sig. Þá gerðu nýju eigendurnir líka vinsæla heimildaþáttaröð í samvinnu við Netflix, og smám saman jókst sýnileiki íþróttarinnar á ný. Árangurinn sást m.a. í kappakstrinum í Barein í mars á síðasta ári sem var á nokkuð góðum tíma fyrir bandaríska sjónvarpsáhorfendur en sú keppni sló bandarískt áhorfsmet og áhuginn hefur bara aukist síðan þá.“

Leikjatölvur opna dyr

Fleira spilar inn í, s.s. vaxandi vinsældir rafíþrótta, en mikill kraftur er í áhugamönnum um hermikappakstur á Íslandi og kappakstur í aksturshermum orðinn hluti af keppnisdagskrá Akstursíþróttasambandsins: „Þar er að opnast alveg ný vídd, og munar ekki síst um hvað þarf lítið til að byrja: aðeins sjónvarp, leikjatölvu og kannski stýri,“ segir Kristján og bendir á að kappaksturstölvuleikir verði æ fullkomnari og upplifunin mjög lík því að vera í alvörukappakstursbíl á alvörukeppnisbraut. „Eru uppi vangaveltur um það hvort atvinnumenn framtíðarinnar muni ekki fyrst og fremst koma inn í greinina í gegnum hermikappaksturinn, enda hefur það átt við hingað til að varla hefur verið nokkur von fyrir fólk að komast langt í þessum heimi nema eiga mjög fjársterka að.“

Sjálfur fær Kristján útrás fyrir kappakstursþörfina með reglulegum heimsóknum í GT Akademíuna í Ármúla. Hann segir aðstöðuna þar himnasendingu fyrir áhugafólk um kappakstur og í góðum hermi gleymist fljótt að verið er að keppa í tölvu en ekki á bak við stýrið á alvörukeppnisbíl. „Ég fann það t.d. að þegar ég ók Spa-Francorchamps í hermi hjá GT-akademíunni notaði ég ósjálfrátt það vöðvaminni sem varð til þegar ég ók þessa sömu braut mörg hundruð sinnum við æfingar á Formúlu 3-bíl.“ ai@mbl.is