Samherjar Ásgeir Örn og Vignir Svavarsson léku ófáa leikina saman.
Samherjar Ásgeir Örn og Vignir Svavarsson léku ófáa leikina saman. — Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir
Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vignir Svavarsson, fyrrverandi landsliðsmenn í handknattleik, eru hættir eftir farsæla ferla. Léku þeir báðir með Haukum í vetur eftir langa veru sem atvinnumenn erlendis.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vignir Svavarsson, fyrrverandi landsliðsmenn í handknattleik, eru hættir eftir farsæla ferla. Léku þeir báðir með Haukum í vetur eftir langa veru sem atvinnumenn erlendis.

Ásgeir er 36 ára og lék 247 landsleiki og skoraði í þeim 414 mörk.

Hann var hluti af landsliðinu sem vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki tveimur árum síðar. Tók hann alls þátt á sextán stórmótum. Ásgeir hóf ferilinn með Haukum árið 2000 og vann tíu stóra titla áður en hann fór til Lemgo í Þýskalandi árið 2005. Þá lék Ásgeir einnig með GOG og Faaborg í Danmörku áður en leiðin lá til Hannover-Burgdorf og síðan Frakklands þar sem hann lék með stórliði PSG og síðar Nimes. Þá varð hann Frakklands- og bikarmeistari með PSG og vann EHF-bikarinn með Lemgo.

Vignir er 39 ára og hóf einnig ferilinn með Haukum árið 2000 og var afar sigursæll hér á landi áður en hann hélt til Skjern í Danmörku árið 2005. Eins og Ásgeir Örn lék Vignir einnig með Lemgo og Hannover-Burgdorf. Þá lék hann með Minden í Þýskalandi og Midtjylland og Holstebro í Danmörku. Línumaðurinn spilaði 234 landsleiki og skoraði í þeim 261 mark og var í bronsliðinu á EM 2010. Í atvinnumennsku varð Vignir EHF-meistari með Lemgo árið 2010 og tvívegis danskur bikarmeistari; 2015 með Midtjylland og 2017 með Hostebro.