Methafi Guðjón Valur Sigurðsson skorar gegn Ungverjum á EM í Malmö í janúar. Hann er markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar í heiminum og hefur skorað 1.875 mörk í 364 landsleikjum fyrir hönd Íslands.
Methafi Guðjón Valur Sigurðsson skorar gegn Ungverjum á EM í Malmö í janúar. Hann er markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar í heiminum og hefur skorað 1.875 mörk í 364 landsleikjum fyrir hönd Íslands. — Ljósmyn/Einar Ragnar Haraldsson
Handbolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is Mikil óvissa ríkir hjá Guðjóni Val Sigurðssyni, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, þessa dagana en samningur hans við franska stórliðið París SG rennur út í sumar og er óvíst hvað tekur við hjá hornamanninum.

Í síðustu viku tilkynntu forráðamenn frönsku 1. deildarinnar að tímabilinu í Frakklandi væri lokið vegna kórónuveirunnar og var PSG úrskurðað Frakklandsmeistari, sjötta árið í röð, og í sjöunda sinn í sögu félagsins.

Guðjón Valur, sem verður 41 árs gamall í ágúst, vann þar með sinn sjöunda meistaratitil í fjórða landinu en hann varð danskur meistari með AG Kaupmannahöfn 2012, Þýskalandsmeistari með Kiel 2013 og 2014 og með Rhein-Neckar Löwen 2017. Þá varð hann spænskur meistari með Barcelona 2015 og 2016.

Endirinn vissulega sérstakur

„Maður er eins og flestir íþróttamenn í dag í ákveðinni biðstöðu ef svo má segja, og endirinn á tímabilinu var vissulega mjög sérstakur,“ sagði Guðjón Valur í samtali við Morgunblaðið. „Ég hefði, eins og allir í liðinu, viljað klára þetta mót og það var skrítið að verða meistari á þennan hátt. Persónulega þá líður mér ekki eins ég hafi unnið eitthvað þó þetta hafi vissulega litið vel út hjá okkur.

Við þurftum fjóra sigra úr síðustu átta leikjunum okkar og við vorum allir sannfærðir um að við myndum klára þetta á endasprettinum. Tilfinningin er hins vegar skrítin enda var engin formleg verðlaunaafhending sem dæmi og því ekkert til þess að loka tímabilinu ef svo má segja. Aðstæður eru hins vegar þannig í Evrópu og öllum heiminum í dag að maður sýnir þessu fullan skilning og það er mjög eðlilegt að íþróttir séu ekki í gangi eins og ástandið er í dag.“

Peningarnir stjórna ferðinni

PSG er komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir Dinamo Búkarest frá Rúmeníu en áætlað er að þeir leikir fari fram í byrjun júní. EHF, evrópska handknattleikssambandið, tilkynnti svo í síðustu viku að úrslitahelgin myndi fara fram milli jóla og nýárs í Köln í Þýskalandi, eins og venjan en, en margir lykilmenn PSG í ár verða þá horfnir á braut.

„Fyrir þá sem eru að renna út á samningi í sumar þá er þetta afar sérstakt svo ekki sé meira sagt. Eins og staðan er í dag þá verður allt annað PSG-lið sem mun klára tímabilið í Meistaradeildinni en það sem hóf leiktíðina. Leikmenn eins og Luc Abalo og Sander Sagosen verða báðir horfnir á braut og byrjaðir að spila í riðlakeppni Meistaraadeildarinnar á nýjan leik með öðrum liðum. Þetta sýnir manni svart á hvítu hversu miklu fjárhagslegu máli þetta skiptir fyrir EHF.

Það er verið að fjölga liðum í þýsku deildinni úr átján í tuttugu sem þýðir að deildarleikirnir þar í landi verða fleiri en ella. Svo á að bæta við úrslitahelgi Meistaradeildarinnar, korteri fyrir heimsmeistaramót. Eins og þetta horfir við mér hefði mögulega verið hægt að láta liðin hittast í júní til þess að klára mótið, fyrst það á hvort sem er að spila sextán liða úrslitin þá. Það hefði frekar átt að aflýsa þessu en það eru peningarnir sem ráða, ekki heilsa leikmannanna.“

Engin töfralausn í boði

Eins og Guðjón Valur bendir réttilega á þá er mikið álag á handknattleiksmönnum en Evrópumótið í handbolta er haldið annað hvert ár á móti heimsmeistaramótinu sem á að fara fram í Egyptalandi í janúar á næsta ári. Guðjón Valur hefur áður gagnrýnt Alþjóðahandknattleikssambandið fyrir mikið leikjaálag en hann ítrekar að handboltinn sé ekki í sömu stöðu og fótboltinn þar sem félögin reiða sig einna helst á sjónvarpstekjur.

„Það má alveg horfa á þetta þannig að það sé lítill hljómgrunnur fyrir því sem við leikmennirnir höfum verið að segja varðandi álag og annað en við þurfum líka að horfa raunsætt á þetta. Handboltinn er ekki í sömu stöðu og fótboltinn og til þess að fá þessa stóra styrki þá þarftu að halda þessi stærstu mót. Handboltinn rekur sig ekki á sjónvarpstekjum, ólíkt fótboltanum, heldur áhorfendum og styrktarsamningum.

Í draumaheimi þá væru ekki fjórtán leikir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og svo sextán og átta liða úrslit ofan á það áður en þú kemst í sjálfa úrslitahelgina. Ég er ekki með neina töfralausn á þessum vanda sjálfur en ég sé fram á að næsta ár geti orðið mjög strembið fyrir marga. Það er eftir að spila undankeppni HM, undankeppni Ólympíuleikanna og undankeppni EM og einhvers staðar þarf að koma öllum þessum viðburðum fyrir.“

Ýmislegt annað í lífinu en handboltinn

Landsliðsfyrirliðinn hefur möguleika á því að spila áfram erlendis sem atvinnumaður og þá er einnig möguleiki á því að hann snúi heim til Íslands. Rekstur handboltafélaganna er afar erfiður í dag vegna kórónuveirunnar og segir Guðjón Valur erfitt að spá um framtíð margra þeirra þegar tekist hefur að ráða niðurlögum veirunnar.

„Ég verð vissulega án félags í sumar þegar samningur minn rennur út en það er margt verra í gangi í heiminum í dag og ég ætla alls ekki að setja sjálfan mig í eitthvert fórnarlambshlutverk. Ég hef mína heilsu og fjölskyldunni minni líður vel og það er fyrir öllu. Það sem kemur, kemur, og ef það kemur ekki þá er það bara þannig. Það er ýmislegt annað til í lífinu en að elta handbolta þótt ég sé búinn að gera það í þó nokkur ár.“

Fjölskyldan nýtur sín saman

„Ég hef leitt hugann að því að klára ferilinn hér á landi en maður veit svo lítið eins og staðan er í dag og það er erfitt að taka stórar ákvarðanir þegar maður hefur lítið til þess að byggja á. Ég hef talað við lið erlendis og mér stendur eitthvað til boða eins og staðan er núna. Stelpurnar mínar eru báðar fluttar heim til Íslands og við fjölskyldan erum öll á Íslandi núna sem er nokkuð óvenjulegt fyrir okkur á þessum tíma árs. Við nýtum tímann og njótum þess að vera saman.

Ég vona innilega að það verði hægt að ná niðurlögum þessa faraldurs og fólk geti farið að einbeita sér að öðrum hlutum. Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að ég er ekki að yngjast og ég er ekki að bíða eftir tveggja til þriggja ára samningi einhvers staðar. Ef það er ekkert sem manni líst vel á úti þá bara þakkar maður fyrir sig og gengur sáttur frá borði,“ bætti Guðjón Valur Sigurðsson við í samtali við Morgunblaðið.