Landsvirkjun og MýSilica hafa undirritað samning um rannsóknir, þróun og framleiðslu á kísilríkum húð- og snyrtivörum úr jarðhitavatni virkjana á starfssvæði Landsvirkjunar á Norðurlandi, einkum úr Bjarnarflagi. Byggð verður upp aðstaða sem mun nýtast fyrir nýsköpun og fjölnýtingu og verður MýSilica fyrsta sprotafyrirtækið til að nýta aðstöðuna, segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Verkefnið gengur út á að vinna steinefnaríkt, sér í lagi kísilríkt, hráefni úr jarðhitavatni sem fellur til við orkuvinnslu. Þetta hráefni verður svo nýtt til þess að framleiða náttúrulegar húðvörur.
Markmið samningsins er að auka verðmætasköpun úr þeim efnum sem verða til við orkuvinnslu Landsvirkjunar og hafa hingað til ekki verið nýtt sérstaklega. Verkefnið bætir þannig nýtingu.
MýSilica er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og markaðssetningu á húðvörum. Hjá MýSilica starfa sérfræðingar með mikla reynslu í nýtingu auðlinda og framleiðslu á verðmætum úr skiljuvatni jarðvarmavirkjana.