Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Ég steinhætti allt í einu að skrifa skáldsögur fyrir nokkrum árum – ekki viljandi, heldur hvarf mér gáfan og ég hef aldrei viljað kreista neitt upp úr mér. Hins vegar fór ég að iðka það að setja saman lög þá sjaldan að stopular stundir gáfust í slíkt: sat kannski í sófa yfir einhverri vitleysu í sjónvarpinu, helst Barnaby , með gítar og hummaði einhverjar lagleysur yfir alls konar hljómagang meðan ég fylgdist með einstaklega óáhugaverðum framgangi mála á skjánum. Stundum small eitthvað og allt í einu tilbúið lag. Og ég get sagt eins og allir stoltir fúskarar: ég veit bara ekkert hvaðan það kom!“ skrifar þingmaðurinn, rithöfundurinn og söngvaskáldið Guðmundur Andri Thorsson á fésbókarsíðu sína um tilurð fyrstu sólóplötu sinnar, Ótrygg er ögurstundin , sem væntanleg er um mánaðamót.
Guðmundur Andri er enginn nýgræðingur þegar kemur að tónlist, hefur verið einn liðsmanna Spaða um árabil en ekki gefið út plötu einn síns liðs fyrr en nú.
Gott að kúpla sig út
Blaðamaður er sammála Guðmundi Andra þegar kemur að Barnaby , finnst þættirnir óttalega leiðinlegir en hann bendir á jákvæða hlið þeirra leiðinda, að notalegt geti verið að horfa á leiðinlegt sjónvarpsefni eftir erfiðan vinnudag eða -viku. „Eitthvað sem höfðar ekki á neinn hátt til manns,“ segir hann, „og þá hef ég stundum setið með gítar í hönd og raulað eitthvað yfir einhverjum hljómagangi sem maður fer að spila. Síðan verður bara til eitthvert lag, allt í einu.“
Angurvær og frekar blíðleg
–Hvernig söngvaskáld ertu?„Þetta er svolítið angurvært, hljóðlátt og hægt. Ég er svo lélegur gítarleikari, spila mjög hægt á gítarinn og því verða lögin öll frekar hæg og angurvær, frekar blíðleg. Það er frekar blíðleg stemning í þessari músík og hún er ekkert flókin og ekki mikið áreiti í henni. Hún er frekar þægileg að hlusta á,“ svarar Guðmundur Andri.
–Hvað ertu að semja um? Um hvað eru textarnir?
„Ég er að semja um ástina og hverfulleika alls, eru ekki allir textar um það? Ástina, dauðann og hverfulleikann?“ spyr söngvaskáldið og blaðamaður segir það líklega rétt athugað.
Guðmundur Andri segir lögin hafa komið á undan textunum, hann hafi fundið einhverja texta sem pössuðu við lögin. „Þá fór ég oft í gömul þjóðkvæði og fann þar stef sem ég prjónaði í kringum, það er oft þægilegt að hafa eitthvað til að prjóna við. Þannig að það eru dálítið mörg þannig lög, prjónuð í kringum gömul þjóðkvæðastef.“
Góðar viðtökur
–Svo ég vitni aftur í textann þinn á Facebook þá virðist þú ekki hafa fengið mikla hvatningu til útgáfunnar?Guðmundur Andri hlær. „Þú mátt ekki taka bókstaflega allt sem maður skrifar,“ segir hann, „þetta er eiginlega lygi, það tóku mér allir voðalega vel og hvöttu mig til dáða.“
–Fékkstu einhverjar ráðleggingar, t.d. frá félögum þínum í Spöðunum?
„Það var nú félagi minn í Spöðunum sem tók þetta upp, bassaleikarinn Guðmundur Ingólfsson. Hann tók þetta allt upp og spilaði á bassann og hjálpaði mér heilmikið við þetta. Og ýmsir fleiri komu og spiluðu fyrir mig í þessum lögum. En í rauninni fékk ég engar sérstakar ráðleggingar, nei, enda var þetta dálítið tilbúið.“
Carpe diem
–Þessi titill, Ótrygg er ögurstundin , þú segist hafa stolið honum. Hvaðan stalstu honum?„Frá föður mínum. Þetta er þýðing hans á leikriti sem var sýnt í Iðnó og hét A Delicate Balance á ensku. Ég notaði þessa línu í einhverju lagi og ég ákvað bara að nota hana sem titil. Þá var þetta kannski eitthvað svona „carpe diem“, maður lifir bara einu sinni.“
Guðmundur Andri er spurður að því hvort hann ætli að gefa út fleiri plötur. „Já, þetta er svona tíu platna plan sem ég er með. Nei, ég er nú að ljúga því en það er aldrei að vita. Ég á alla vega slatta af lögum í viðbót,“ svarar hann.
Þingmenn þurfa ekki að óttast
–Hafa störfin á þinginu ekki veitt þér innblástur við textagerð?„Nei, ekki ennþá en kannski þegar maður verður laus þaðan og fer að vinna úr þessari reynslu, þá er aldrei að vita. En á þessari stundu, þegar maður er í óveðrinu miðju, verður maður að einbeita sér að því. Samþingmenn og félagar mínir á þingi þurfa ekki að óttast að ég fari alltaf heim á kvöldin og skrifi einhverjar lýsingar á þeim sem ég nota svo í skáldsögu,“ segir Guðmundur Andri sposkur.