Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Angela Merkel Þýskalandskanslari kallaði í gær eftir því að Þjóðverjar sýndu áfram af sér aga, þrátt fyrir að nokkrum af þeim hömlum sem þýsk stjórnvöld hafa sett á vegna kórónuveirunnar væri aflétt í gær. Sagði Merkel að í raun væri heimsfaraldurinn rétt að byrja og að Þjóðverjar væru langt frá því að vera „komnir yfir fjallið“.
Minni búðir í sumum héruðum Þýskalands mátti opna á ný í dag, en verslanir sem eru með meira en 800 fermetra munu þurfa að bíða enn um sinn. Þá munu einhverjir skólar, en ekki allir, fá að hefja kennslu á ný frá og með 4. maí. Jafnframt því að það mátti opna búðir settu stjórnvöld í sambandslöndunum Saxlandi og Bæjaralandi þá skyldu á fólk að hylja vit sín með grímu á almannafæri. Munu fleiri sambandslönd vera að íhuga slík tilmæli.
Leikskólar í Noregi voru opnaðir aftur í gær, og í Danmörku fengu sum minni fyrirtæki, þar á meðal hárgreiðslustofur, tannlæknar og húðflúrarar, að opna fyrir kúnnum á ný. Þá má einnig nefna að bókabúðir voru opnaðar á Ítalíu, sem verst hefur orðið úti í faraldrinum af Evrópuríkjum.
Þessar aðgerðir evrópskra stjórnvalda endurspegla aftur vonir um að kórónuveirufaraldurinn sé í rénun þar eftir erfiðar vikur, en meira en tveir þriðju af öllum dauðsföllum sem skráð hafa verið af völdum kórónuveirunnar hafa orðið í ríkjum álfunnar. Dánartölur hafa hins vegar farið niður á við síðustu daga í flestum af stærri ríkjum Evrópu, svo sem Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og á Ítalíu. Á Spáni voru skráð 399 dauðsföll vegna veirunnar á mánudaginn, sem er hið lægsta í meira en mánuð.
Biður Kínverja um gagnsæi
Merkel skoraði á blaðamannafundi sínum í gær á Kínverja að vera eins gagnsæir og mögulegt væri um upphaf kórónuveirufaraldursins. „Ég trúi því að því meira sem Kínverjar greina frá upphafi veirunnar, því betra sé það fyrir heimsbyggðina alla til að læra af því,“ sagði Merkel.Hún bættist þar með í hóp Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, og Dominics Raabs, staðgengils forsætisráðherra í Bretlandi, sem báðir gáfu til kynna í síðustu viku að ekki væru öll kurl komin til grafar varðandi upphaf faraldursins í Kína, og sagði Raab að Kínverja biðu „erfiðar spurningar“ um tildrög kórónuveirunnar og hvort hægt hefði verið að stöðva framgang faraldursins fyrr.
Þá hafa stjórnvöld í Ástralíu óskað eftir óháðri rannsókn á viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við faraldrinum, sem myndi meðal annars fjalla um viðbrögð bæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, og kínverskra stjórnvalda þegar kórónuveiran kom fyrst upp.