Raufarhöfn Heimskautsgerðið setur óneitanlega svip á umhverfið.
Raufarhöfn Heimskautsgerðið setur óneitanlega svip á umhverfið. — Ljósmynd/Jónas Friðrik
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Í ár verður 35 milljónum króna úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða varið til framkvæmda við heimskautsgerði á Raufarhöfn, en greint var frá 200 milljóna króna viðbótarúthlutun í gær.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Í ár verður 35 milljónum króna úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða varið til framkvæmda við heimskautsgerði á Raufarhöfn, en greint var frá 200 milljóna króna viðbótarúthlutun í gær. Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43%, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra. Þá renna 28% til verkefna á Suðurlandi.

Að sögn Jónasar Friðriks Guðnasonar, eins forystumanna um byggingu heimskautsgerðisins, hafa framkvæmdir staðið yfir í um 15 ár. Gerðið hefur vakið athygli og ferðamenn sótt í að skoða mannvirkið. Meira að segja undanfarið hafa sést stöku bílar við Melrakkaás þar sem gerðið stendur og tveir bílar með fimm manns stoppuðu þar í gær.

Jónas Friðrik segir að verkefnin séu ærin. Búið er að reisa hlið gerðisins, en eftir að klára topp miðsúlu, skúlptúra innan gerðisins og fleira. Í sumar er m.a. ráðgert að setja handrið á göngustíg og jafnvel lýsingu meðfram honum, en stígurinn nefnist Bifröst. Bílastæði verður lagfært, vatns- og rafmagnslagnir undirbúnar og farið að vinna að salernisaðstöðu á svæðinu.

Heimskautsgerðið er byggt þannig að sex metra há hlið vísa til höfuðáttanna og verða fjórir skúlptúrar inni í gerðinu, hver með sínu sniði. Á heimasíðu Samtaka um söguferðaþjónustu segir meðal annars að heimskautsgerðið muni virkja miðnætursólina við heimskautsbaug og rísa utan um goðsögulegan hugarheim og dvergatal Völuspár. Það verði 52 metrar í þvermál og innan þess dvergastígur með nöfnum 72 dverga sem mynda árhring. Í miðjunni verði átta metra há súla með toppi sem varpi geislum sólar um gerðið.

Áningarstaður við ysta haf

Af úthlutuninni núna fara 30 milljónir til Hafnarbakka á Bakkafirði undir heitinu áningarstaður við ysta haf. Þar er fyrirhugað að gera lagfæringar á tanganum upp af gömlu höfninni á Bakkafirði, þar sem gamla verslunarhúið stendur. Um er að ræða frágang á svæðinu, hellulagningu og gerð göngustíga, grjóthleðslu og þjónustuhúss á tangasporðinum. Þaðan er fallegt útsýni út á Bakkaflóann, yfir á Langanesströndina.

21,5 milljónir fara til Akureyrarbæjar vegna stígagerðar og brúunar á Glerárdal frá bifreiðastæði að Lamba, skála ferðafélags Akureyrar.

Af stórum verkefnum annars staðar má nefna að Skógræktarfélag Reykjavíkur fær 17 milljónir vegna tengileiðar frá Mógilsá að Kollafjarðará. Þá verður 16,2 milljónum varið í minningarreit í Dalabyggð um Sturlu Þórðarson sagnaritara. Þá fara 19 milljónir í Þorláksleið, sem er gönguleiðarverkefni frá Skálholti.