Langanes Tillaga að vindorkugarði á Brekknaheiði, upp af Þórshöfn. Í fjarska sést glitta í Finnafjörð.
Langanes Tillaga að vindorkugarði á Brekknaheiði, upp af Þórshöfn. Í fjarska sést glitta í Finnafjörð. — Tölvumynd/Efla
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Raforkan sem ætlunin er að framleiða í vindorkugörðum á Norðausturlandi verður notuð til að framleiða ammoníak á iðnaðarsvæðinu í Finnafirði. Ammoníakið verður notað sem eldsneyti á skip.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Raforkan sem ætlunin er að framleiða í vindorkugörðum á Norðausturlandi verður notuð til að framleiða ammoníak á iðnaðarsvæðinu í Finnafirði. Ammoníakið verður notað sem eldsneyti á skip. Afurðir sem til falla við framleiðsluna verða meðal annars notaðar við laxeldi á landi. Vindorkugarðarnir verða þannig liður í hringrásarhagkerfi á svæðinu, samkvæmt áætlunum Þróunarfélags Finnafjarðar.

Athygli vakti þegar Orkustofnun kynnti þá orkukosti sem fara til mats hjá verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar að Langanesbyggð var skrifuð fyrir sex vindorkugörðum með framleiðslugetu upp á 640 megavött. Eru þessi vindorkuver áformuð á Langanesi og heiðum og ströndum þar suður af.

Ammoníak sem skipaeldsneyti

Hafsteinn Helgason, byggingarverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu, hefur unnið að Finnafjarðarverkefninu. „Hugmyndin felst í því að framleiða raforku með þessum vindorkuverum og veita henni inn í Finnafjörð. Þar yrði fyrst framleitt vetni og súrefni með rafgreiningu á vatni og vetninu síðan breytt í ammoníak með því að nota köfnunarefni úr andrúmsloftinu með ákveðnu ferli. Fljótandi ammoníak verði síðan flutt með tankskipum á markað þar sem þörf er fyrir grænt ammoníak. Þar verður það notað sem eldsneyti á skip,“ segir Hafsteinn.

Hann segir að litið sé til ammoníaks sem framtíðareldsneytis fyrir skipaflotann. Margir af stærstu framleiðendum stórra skipavéla séu með slíkar vélar í lokaprófunum. Telur hann að sala á ammoníaki sem eldsneyti geti hafist eftir um það bil tíu ár.

Súrefnið sem verður til við rafgreiningu verður notað við fiskeldi sem byggt verður upp á landi.

Hafsteinn segir ekki ljóst hver muni framkvæma þessi áform. Það gætu orðið fleiri en einn aðili. Einn með raforkuframleiðsluna, annar með vetnis- og ammoníaksframleiðsluna og sá þriðji með fiskeldið.

Þessi áform eru í takt við áform Þróunarfélags Finnafjarðar um að þróa svæðið sem miðstöð fyrirtækja sem sinna nýrri og vaxandi starfsemi sem byggist á hugsun hringrásarhagkerfis og sjálfbærni. Hann tekur fram að verkefnið sé enn í frumskoðun valkosta og margt geti breyst fram að framkvæmd. Hann bendir einnig á að þetta séu stór verkefni, með fjárfestingar upp á milljarða evra eða hundruð milljarða króna, og þau taki tíma og komist ekki áfram nema öflug fyrirtæki komi að þeim.

Ekki nægt framboð af raforku

Eftir er að rannsaka nánar möguleika þessara vindorkuvera og áhrif þeirra á umhverfið, eins og Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, bendir á. Þá þurfi að vera markaður fyrir orkuna. Jónas var nýlega ráðinn sveitarstjóri Langanesbyggðar en hann starfaði áður sem skrifstofustjóri sveitarfélagsins. Jónas segir að ekki sé nægilegt framboð af raforku í Langanesbyggð. Ein flutningslína sé til Þórshafnar og hún uppfylli aðeins þriðjung raforkuþarfar íbúa og fyrirtækja. Afhendingaröryggi raforku sé lítið og oft þurfi að keyra varaafl. Fiskimjölsverksmiðjan á Þórshöfn sé knúin með olíu þar sem rafmagn fáist ekki. „Ef fram heldur sem horfir verða afurðir verksmiðjunnar ekki samkeppnishæfar, hvorki í verði né ímynd á markaði. Þetta hefur því ýmis áhrif á samfélagið hér.“