Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Raforkan sem ætlunin er að framleiða í vindorkugörðum á Norðausturlandi verður notuð til að framleiða ammoníak á iðnaðarsvæðinu í Finnafirði. Ammoníakið verður notað sem eldsneyti á skip. Afurðir sem til falla við framleiðsluna verða meðal annars notaðar við laxeldi á landi. Vindorkugarðarnir verða þannig liður í hringrásarhagkerfi á svæðinu, samkvæmt áætlunum Þróunarfélags Finnafjarðar.
Athygli vakti þegar Orkustofnun kynnti þá orkukosti sem fara til mats hjá verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar að Langanesbyggð var skrifuð fyrir sex vindorkugörðum með framleiðslugetu upp á 640 megavött. Eru þessi vindorkuver áformuð á Langanesi og heiðum og ströndum þar suður af.
Ammoníak sem skipaeldsneyti
Hafsteinn Helgason, byggingarverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu, hefur unnið að Finnafjarðarverkefninu. „Hugmyndin felst í því að framleiða raforku með þessum vindorkuverum og veita henni inn í Finnafjörð. Þar yrði fyrst framleitt vetni og súrefni með rafgreiningu á vatni og vetninu síðan breytt í ammoníak með því að nota köfnunarefni úr andrúmsloftinu með ákveðnu ferli. Fljótandi ammoníak verði síðan flutt með tankskipum á markað þar sem þörf er fyrir grænt ammoníak. Þar verður það notað sem eldsneyti á skip,“ segir Hafsteinn.
Hann segir að litið sé til ammoníaks sem framtíðareldsneytis fyrir skipaflotann. Margir af stærstu framleiðendum stórra skipavéla séu með slíkar vélar í lokaprófunum. Telur hann að sala á ammoníaki sem eldsneyti geti hafist eftir um það bil tíu ár.
Súrefnið sem verður til við rafgreiningu verður notað við fiskeldi sem byggt verður upp á landi.
Hafsteinn segir ekki ljóst hver muni framkvæma þessi áform. Það gætu orðið fleiri en einn aðili. Einn með raforkuframleiðsluna, annar með vetnis- og ammoníaksframleiðsluna og sá þriðji með fiskeldið.
Þessi áform eru í takt við áform Þróunarfélags Finnafjarðar um að þróa svæðið sem miðstöð fyrirtækja sem sinna nýrri og vaxandi starfsemi sem byggist á hugsun hringrásarhagkerfis og sjálfbærni. Hann tekur fram að verkefnið sé enn í frumskoðun valkosta og margt geti breyst fram að framkvæmd. Hann bendir einnig á að þetta séu stór verkefni, með fjárfestingar upp á milljarða evra eða hundruð milljarða króna, og þau taki tíma og komist ekki áfram nema öflug fyrirtæki komi að þeim.