Mörg aðildarríki ESB virðast kenna vaxandi óbragðs vegna verunnar þar

Það er furðu algengt í pólitískum deilum og jafnvel átökum innan ESB að deiluaðilar saki hver annan um að vera á hættulegri för úti á hinni hálu braut. Í framhaldinu gæti því skapast veruleg hætta á því að sambandið liðaðist í sundur! Vera má að slíkt sé ekki lengur frétt en fremur eins konar kækur.

En eftir því er tekið þegar áhrifamaður innan flokks kanslara Þýskalands slengir „kæknum“ á forsætisráðherra Ítalíu, sem stundum er kallað stofn- og stórríki í ESB. Það er ekki um það deilt að ESB hefur staðið sig illa í öllum þeim efnum sem snúa að kórónufaraldrinum í álfunni. Heilagar reglur ESB voru þverbrotnar án þess að um það færi fram umræða og leitast væri við að halda andlitinu með veitingu undanþága pakkaðra inn í skens og umvandanir eins og tíðkast hefur til þessa. Enginn samræmdur atbeini kom frá ESB sem hefði getað hjálpað einstökum löndum þess verulega. Það fimbulfambaði og þagði til skiptis og það litla sem fært var fram gerði ekki annað en að fipa og tefja ríkin sem tóku loks eigin ákvarðanir allt of seint. Tjónið af því verður aðallega talið í mannslífum og skal þó ekki lítið gert úr fjárhagstjóninu. Ítalía og Spánn eru á meðal þeirra sem verst hafa farið út úr klúðrinu. Eftir maraþon fundalotur þóttust búrókratar í Brussel vera búnir að ná fullri samstöðu um lánafyrirgreiðslu sem myndi ná að fleyta veikustu löndunum áfram næstu misserin. En þegar það rann upp fyrir Ítalíu að „hjálpin“ fólst í því að hneppa land og þjóð í sömu niðurlægingarfjötrana og notaðir voru til þess að kenna Grikkjum að sleikja skósóla herraþjóðanna, á meðan þeir máttu svitna við að endurgreiða ábyrgðarlausum þýskum og frönskum bönkum sem höfðu ekki kunnað fótum sínum forráð í landinu. Einn af leiðtogum CDU og sá sem er talinn líklegastur til að taka við af Merkel segir að forsætisráðherra Ítalíu sé augljóslega ekki fjárþurfi fyrst hann hafni lánsboði ESB. Leiðtogaefnið minnist ekki á skilmálana sem fylgja. Hann minnist þess kannski að Grikkir neituðu oft og með hávaða, en skriðu svo að borðinu og krotuðu undir þar sem þeim var sagt.