Ozzy Osbourne er engum líkur.
Ozzy Osbourne er engum líkur. — AFP
Gamla málmbrýnið Ozzy Osbourne segir kórónuveirunni stríð á hendur með því að setja leðurblökuskreyttan síðermabol á markað.

Málmgoðið og athafnamaðurinn Ozzy Osbourne hefur hafið sölu á síðermabolum með áletruninni „Til fjandans með kórónuveiruna“ og myndskreytingu af leðurblöku með grímu til að hylja vitin en sem kunnugt er telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin líklegt að vágesturinn eigi upptök sín hjá þeirri tegund dýra. Fyrstu 72 klukkustundirnar fylgir andlitsgríma frítt með hverjum bol en skýrt er tekið fram að hún sé ekki heilbrigðisvottuð og komi ekki í stað slíkra grímna.

Ozzy hefur lengi verið tengdur leðurblökum í huga margra en sem frægt er beit hann hausinn af einni slíkri á tónleikum í Bandaríkjunum árið 1982. Vakti uppátækið að vonum mikla hneykslan en söngvarinn bar því síðar við að hann hefði haldið að leðurblakan væri leikfang sem tónleikagestur hefði hent upp á sviðið.

Ozzy hefur haldið sig mikið til hlés undanfarin misseri enda glímir hann við parkinsonsjúkdóminn og sækir meðferð af þeim sökum.