Flott Mynd Önnu Margrétar Árnadóttur af konu með grímu er til sölu.
Flott Mynd Önnu Margrétar Árnadóttur af konu með grímu er til sölu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Okkur finnst skipta máli að við stöndum saman og sýnum samkennd í verki, vinnum saman í því sem hægt er að breyta, laga og styðja,“ segir Sissa Ólafsdóttir, ljósmyndari og skólastjóri Ljósmyndaskólans, en hún og Alda B. Guðjónsdóttir standa fyrir verkefninu List gegn ofbeldi, sem gengur út á að bjóða sérvaldar ljósmyndir áritaðar af ljósmyndurum til sölu á netinu til styrktar Kvennaathvarfinu.

„Þetta eru 48 ljósmyndir eftir jafnmarga ljósmyndara, en fyrirmyndina að þessu fengum við hjá Magnum, hinum heimsfræga alþjóðlega ljósmyndarahópi sem selur ljósmyndir á netinu og skartar bestu ljósmyndurum heims. Magnum-hópurinn bauð nýlega ákveðnar myndir til sölu til að styrkja sjúklinga sem hafa veikst af covid. Við Alda vildum gera eitthvað í tengslum við fréttir af auknu heimilisofbeldi á veirutímum, og ákváðum því að safna peningum til að styrkja Kvennaathvarfið.“

Sissa segir verkefnið vera tvíþætt.

„Fyrst og fremst er þetta til að láta gott af okkur leiða, en líka til að bæta aðgengi fólks að því að kaupa ljósmyndir. Ljósmyndarar eins og aðrir listamenn hafa misst vinnuna á covid-tímum, því verkefni hafa verið sett á stopp. Þegar þrengir að, hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða einstaklingum, þá hætta margir að kaupa list og síður er farið í að framleiða nýtt efni. Hjá okkur ljósmyndurum er þetta svolítið eins og í ferðabransanum, það mun líða nokkur tími þar til hjólin hjá okkur fara aftur af stað.“

Meðal þeirra 48 ljósmyndara sem gefa myndir í söfnuninni eru stór nöfn, Spessi, Páll Stefánsson, Golli, Saga Sigurðar, Ari Magg og fleiri. Sissa segir að það hafi gengið mjög vel að fá ljósmyndarana til að gefa myndir til verkefnisins.

„Við fengum strax já hjá þeim sem við leituðum til, allir voru jákvæðir og þakklátir að fá að leggja hönd á plóg. Allir fundu mynd í sínu ljósmyndasafni og sumar þessara mynda tóna mjög vel við verkefnið, eru táknrænar fyrir bága stöðu kvenna, enda bað ég fólk um að hafa í huga málstaðinn þegar það veldi mynd. Ljósmyndararnir völdu sjálfir myndirnar fyrir verkefnið, því tilgangurinn er að safna sem mestum peningum og þá þarf fólk að langa í myndirnar. Þessar myndir verður hvergi hægt að fá í þessari stærð aftur, en í boði eru tvær stærðir, 15 x 15 cm og 10 x 15 cm,“ segir Sissa og bætir við að Steinþór Rafn Matthíasson hjá Konsept hafi hjálpað þeim með uppsetningu og að koma verkefninu á netheima.

„Nú er tækifæri fyrir fólk að eignast ljósmyndaverk. Ein mynd verður til sölu frá hverjum ljósmyndara og hámarksupplag hverrar myndar er 100 stykki. Allar myndirnar verða prentaðar á sama pappír og þær verða í númeruðum eintökum og áritaðar af ljósmyndurum,“ segir Sissa og tekur fram að myndirnar verði póstlagðar til kaupenda. Salan hófst á miðnætti í gær á vefsíðunni ljósmyndaskolinn.is og hún mun standa næstu 10 daga, til 4. maí.