Þóra Ragnarsdóttir fæddist 25. mars 1954. Hún lést 16. apríl 2020.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Elsku hjartans Þóra okkar, það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin.

Þið fjölskyldan hafið alltaf verið svo stór partur af okkar lífi, við höfum átt svo margar skemmtilegar samverustundir í gegnum árin og alltaf haldið góðu sambandi sem hefur verið okkur mjög mikils virði.

Það koma upp svo margar fallegar minningar, þú kenndir okkur svo mikið, varst alltaf til staðar og þegar við bjuggum í sama húsi var svo gott að leita til þín á efri hæðina með allskonar spurningar og vangaveltur.

Ykkar Gísla vegna eignuðumst við okkar fyrsta heimili, þið höfðuð trú á okkur á meðan við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara, en í hendi var fokheld íbúð og krefjandi og skemmtilegir tímar framundan. Við áttum yndisleg ár með ykkur í sama húsi, þegar við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barn áttum við ófá samtölin yfir kaffi um allskonar barnamál og aðferðir. Það var alltaf svo gott að tala við þig.

Lífið er sko ekki sjálfgefið, það er svo erfitt að hugsa til þess að sjá þig ekki aftur, finna faðmlag þitt eða heyra röddina, en við munum hittast aftur, bara seinna.

Hvíldu í friði, kæra vinkona.

Elsku Gísli og fjölskylda, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Við fjölskyldan sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Einar Kári, Kolbrún

og fjölskylda.

Þóra, mamma Ollu okkar, hafði mikið með okkur stelpurnar að segja og átti sérstakan stað í hjarta okkar allra. Hún sýndi okkur svo mikinn áhuga og athygli eins og henni einni var lagið. Við búum svo vel að eiga góðan minningabanka um hana allt frá því við vorum börn, unglingar og síðan núna á okkar fullorðinsárum.

Hún var mikill félagi okkar og fannst oftast ekki mikið tiltökumál að hringsnúast í kringum okkur stelpurnar. Við lifum í þeirri von að henni hafi þótt fátt skemmtilegra en að fá okkur í Furuhjallann á okkar yngri árum þar sem íveran okkar hjá henni endaði oft í vöfflu- eða pönnukökubakstri. Hún hélt uppteknum hætti allt fram á síðasta dag. Það skipti engu máli þó við værum komnar vel yfir þrítugsaldurinn með mann og börn. Alltaf var hún Þóra okkar til í að koma og skutla okkur á tónleika eða í eitthvað skemmtilegt. Við gátum vel tekið leigubíl en það var bara svo miklu skemmtilegra að fá skutl hjá Þóru þegar hún var til í það og stundum tók hún upp á því að vera með glaðning fyrir okkur í bílnum. Svo kom ekki neitt annað til greina en að sækja okkur líka og skipti þá engu máli hvað klukkan var.

Við teljum okkur mikið lánsamar að hafa kynnst og átt eina Þóru í okkar lífi. Fá tækifæri til að tileinka okkur allt það góða og þá mögnuðu eiginleika sem Þóra bjó yfir, sem og þá hluti sem hún gerði, því hún var einstakur karakter. Nú sem aldrei fyrr áttum við okkur á því, að það að skapa og eiga minningar er það besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún Olla okkar speglar svo sannarlega fallegu eiginleika mömmu sinnar. Mikil félagsvera, húmoristi, með hjarta úr gulli og sýnir fólki áhuga og samkennd, svo fátt eitt sé nefnt.

Elsku Þóra okkar, við skulum byrja strax á að ganga í þitt hlutverk og hjálpa Ollu og fjölskyldu hennar á þessum erfiðu tímum. Við munum sakna þín en helst af öllu munum við rifja upp og segja sögur af þér og þannig halda minningu þinni á lofti.

Hún Þóra okkar alla sá

og allir hennar athygli vildu fá

Alltaf með ráðin á hreinu

og aldrei að skafa af neinu

Með sitt risastóra hjarta

og andlitið bjarta

hugsaði Þóra um

og gladdi alla

Þín sárt við munum sakna

en höldum áfram lífinu að fagna

Enda myndir þú ekki annað leyfa

það ráð þú munt fá að eiga.

Þínar vinkonur,

Erla Dögg, Íris, Kristín,

Sigurbjörg Rós og Svanhvít.

Kveðja frá gönguhópi

Það tók í að fá þær fréttir að vinkona okkar hún Þóra væri látin.

Fyrir tuttugu árum vorum við saman komin í Reykjarfirði á Ströndum gönguhópurinn okkar og þar hófst ævintýri. Kynni okkar hófust á misjöfnum tíma en öll áttum við það sameiginlegt að vera þátttakendur í starfi Lútherskrar hjónahelgar. Við höfum tengst nánum böndum á þessum 20 árum sem liðin eru.

Margar eru göngurnar, ferðirnar sem farnar hafa verið og alltaf var það markmið Þóru að ganga til þess enda sem áætlað var í upphafi, þannig hún setti sér markmið og lagði kapp á að ná því.

Það hefur verið blessun okkar allra að tilheyra þessum gönguhópi. Allt frá því að við hófum gönguna saman og til dagsins í dag hefur það verið tilhlökkun allt árið að vita hvert skal haldið næsta sumar.

Nú hefur Þóra verið kölluð til æðri verka og verður hennar sárt saknað. Þóra var sannur vinur vina sinna, hún „ýtti“ við okkur þegar við hittumst með framkomu sinni, það var eitthvað í fasi hennar sem hreyfði við manni á jákvæðan hátt. Hún var kennari af Guðs náð, bjó yfir gagnrýnni hugsun, fékk okkur til að fara út um víðan völl í huganum þegar við vorum í undirbúningi og skipulagningu í ferðum okkar. Þóra var falleg kona að utan sem innan. Hún var alltaf með fullt af hugmyndum og nutu börn okkar góðs af hugmyndum sem hún fékk í ferðunum okkar hér áður og samtalið sem hún átti við þau um landið og náttúru þess, hvaða fjalli við værum á og hvaða fjall væri að sjá í fjarska eða hvaða á við værum að vaða, heiti blóma og jurta, full af fróðleik var hún öllum stundum. Alltaf vissi maður hverjar skoðanir hennar voru því hún lét þær í ljós. Þóra var traust, ákveðin, umhyggjusöm, hress og skemmtileg og lék á als oddi og átti til að sýna af sér ógleymanlegar hliðar. Hún bjó yfir þrautseigju og var fylgin sér í því sem hún tók sér fyrir hendur, drífandi og dugleg. Ávallt var hún vel nestuð til fararinnar og bjóðandi með sér, margir í hópnum þefuðu uppi harðfiskinn í pokanum eða skottinu hjá henni.

Nú heldur hún í sína hinstu göngu og tekst á við ný ævintýri, hún mun alltaf verða með okkur í ferð vegna þess að hún var sá persónuleiki sem skilur eftir sig spor sem munu koma til með að fylgja okkur um ókomna tíð.

Elsku Gísli, Georg, Olla, Rúrik og fjölskyldur, megi góður Guð vaka yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni.

Guð blessi minningu Þóru.

Guðrún Lára og Guðni Þór, Þyrí og Karl, Hrafnhildur og Þröstur, Helga og Ingólfur

Í dag kveð ég yndislega vinkonu. Við Þóra kynntumst árið 1974 og höfum síðan átt góða og skemmtilega samleið. Okkar sameiginlega ferðalag í gegnum lífið einkenndist af glaðværð og léttleika og vinátta okkar og samskipti voru alltaf góð og gefandi. Við ferðuðumst víða saman. Í fyrstu ferðalögum okkar vakti athygli mína hvað Þóra var fróð og hafði mikinn áhuga á því sem fyrir augu bar. Hún hafði mikinn áhuga á náttúrunni og þekkti nöfn flestra plantna sem urðu á vegi okkar. Þóra lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands og lagði fyrir sig kennslu í náttúrufræðum þar sem eðlislægur áhugi hennar og þekking á náttúrunni kom sér vel. Hún var kennari af Guðs náð og börn okkar vina hennar nutu sannarlega góðs af því. Einn helsti kostur Þóru var hvað hún átti auðvelt með að gefa af sjálfri sér og hafa ófáir sem henni kynntust þegið góða og uppbyggilega ráðgjöf af hennar hálfu. Hún var einstaklega hlý og einlæg í samskiptum við samferðafólk sitt. Það var gott að geta leitað skjóls hjá henni. Hún lét sig varða bæði menn og málefni og hagur og líðan fólks skipti hana máli. Hún stóð eins og klettur með mér þegar erfiðleika eða sorg bar að höndum og átti auðvelt með að gefa góð og skynsamleg ráð. En Þóra kunni líka að gleðjast með glöðum og á gleðistundum í lífi mínu var hún fyrst til að samfagna mér. Slík vinátta er ómetanleg.

Ferðalög okkar hjóna með Þóru og Gísla, eiginmanni hennar, bæði hér á landi og erlendis, eru fjársjóður í banka minninganna sem við munum varðveita og eigum eftir að ylja okkur við í framtíðinni. Oft höfðu ferðir okkar stuttan aðdraganda. Börnin voru drifin í bílana; plöntubók, fuglabók og gott nesti og síðan lögðum við af stað. Við fórum vítt og breitt um landið; sóttum kirkjukaffi á einum stað og dansleik á öðrum eða gerðum eitthvað annað skemmtilegt. Við nutum lífsins og líðandi stundar. Þóra var snögg og fljót til og hafði lag á að gera lífið skemmtilegt. Eina af okkar ánægjulegustu ferðum fórum við fyrir tveimur árum þegar við fórum saman í heimsreisu og nutum dýralífs og náttúrufegurðar. Eins og oft áður var þessi ferð ekki skipulögð í þaula en það var einmitt það sem gerði ferðina svo eftirminnilega og skemmtilega.

Þóra var hreystin holdi klædd og lagði áherslu á að hreyfa sig, borða hollan og góðan mat og viðhafa skynsamlega lifnaðarhætti. Það kom því öllum á óvart að illvígur sjúkdómur skyldi leggja hana af velli svona fljótt. Allt til hinstu stundar hélt hún sinni léttu lund og það var alltaf stutt í brosið. Það er óbærilega erfitt að sjá á eftir jafn góðum vini og Þóru. Blessuð sé minning okkar góðu og elskulegu vinkonu.

Helga og Ingólfur.

Í dag kveðjum við okkar kæru vinkonu. Við kynntumst Þóru fyrst þegar við byrjuðum í Kennaraháskólanum haustið 1975. Fljótlega myndaðist sterk vinátta á milli okkar. Í upphafi vorum við sjö en misstum Dísu fyrir um það bil níu árum og nú er aftur höggvið skarð í vinahópinn. Þegar veru okkar í Kennaraskólanum lauk stofnuðum við „saumaklúbb“ og höfum hist að minnsta kosti einu sinni í mánuði allar götur síðan.

Í gegnum árin höfum við gert margt skemmtilegt saman og oft var Þóra potturinn og pannan í skipulagningunni. Við ferðuðumst mikið bæði innan lands og utan. Ógleymanlegar eru ferðirnar í Knarrarnes til þeirra heiðurshjóna Gísla og Þóru. Þar naut náttúrubarnið Þóra sín vel. Við þeyttumst á milli skerja, söfnuðum æðardúni og eggjum og veiddum í soðið. Eftirminnilegasta utanlandsferðin fyrir Þóru var Afríkuferðin þar sem ein úr hópnum tók á móti okkur og með henni upplifðum við undur Afríku. Einnig voru ferðirnar til Brussel og Washington ógleymanlegar.

Þóra var alveg einstök kona, alltaf tilbúin að hjálpa, kærleiksrík og umhyggjusöm. Þrátt fyrir erfið veikindi síðasta hálfa árið héldum við alltaf í vonina því við áttum eftir að gera svo margt saman. Við söknum hennar óendanlega mikið. Við vottum Gísla og fjölskyldu innilega samúð og biðjum Guð að styrkja þau á þessum erfiða tíma.

Elín Anna, Guðrún, Kristín, Sigríður og Unnur.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku hjartans Þóra.

Takk fyrir samfylgdina.

Takk fyrir hlátur þinn og gleðina.

Takk fyrir símtölin, nú síðast 2. apríl. Takk fyrir vináttuna, sem aldrei skugga bar á. Takk fyrir samverustundirnar. Takk fyrir komuna síðastliðið haust. Takk fyrir minningarnar.

Takk fyrir að vera þú.

Á lífsins morgni rauðust rósin skín

og raddir vorsins kalla þig til sín.

Og meðan sólin gyllir sæ og grund

hver geisli hlýtt þig vermi alla stund.

(ÞH)

Sofðu vært elskulega vinkona, minning þín lifir í huga okkar og hjörtum, björt og falleg.

Elsku vinir Gísli, Georg, Júlía, Olla, Jóhannes, Rúrik, Nathalia og elsku börnin ykkar öll, systkini og fjölskyldur, ykkar missir er mikill, megi algóður Guð leiða ykkur, styrkja og umvefja.

Þið eruð í huga okkar og bænum.

Ykkar vinir

Þrúðmar (Dúddi), Ingibjörg, börn og fjölskyldur.

Ert þetta þú Torfi minn? Heyrðist í gegnum myrkrið á meðan við dreifbýlistútturnar bisuðum við að skríða inn um þvottahúsgluggann á húsinu sem við vorum nýflutt inn í að vestan. Við höfðum nefnilega gleymt lyklunum inni eins og svo oft, þar sem við vorum ekki vön að vera með læstar útidyr. Sú sem kallaði yfir götuna var Þóra. Þetta voru okkar fyrstu kynni af hjónunum á móti, Þóru og Gísla. Hún hafði frétt að við værum að flytja í götuna en Þóra og Gísli höfðu um tíma búið í sama húsi og Torfi fyrir vestan í Sundstræti hjá tengdó á meðan Gísli var að vinna við Vestfjarðagöngin, því þekktu þau aðeins til þegar fjölskyldan að vestan ruddist inn í rólega Furuhjallann með 3 ung börn.

Maður vissi að vorið var á næsta leiti þegar maður varð var við Þóru í garðinum. Hún var óþreytandi í að snurfusa og dunda í garðinum og eftir að hún hætti að vinna gafst henni meiri tími í þessa iðju. Síðasta vor plantaði ég sumarblómum í ker fyrir framan húsið, það var frekar snemma en ég var orðin ansi hress eftir veikindi mín og ákvað að skella í þetta. Þóra og Gísli komu einmitt yfir götuna og spurðu hvort þetta væri nú ekki full snemmt því þau voru ekki byrjuð í garðinum sínum og hvort blómin myndu hafa næturfrostið af en blómin blómstruðu vel og lengi síðasta sumar en það sem ég fylgdist með blómunum næstu daga til að athuga hvort þau væru örugglega ekki í lagi. Krakkarnir minnast þess að þegar þau voru að selja saltfisk til að fjármagna fótboltaferðir hafi Þóra og Gísli sagt þeim að þau ættu alltaf að koma við þegar þau væru að selja saltfisk og hafa ferðirnar yfir götuna verið ófáar með fisk.

Aldrei hefði okkur órað fyrir því að hún myndi lúta í lægra haldi fyrir þessum vágesti en á sama tíma fyllumst við gríðarlegu þakklæti því við vorum heppin og náðum að sigrast á þessum vágesti hinum megin við götuna. Á mínum daglegu gönguferðum á meðan ég var að takast á við mitt mein hitti ég Þóru oft og spjölluðum við um heima og geima og oftar en ekki varð útiveran mín mun lengri en áætlað var þar sem Þóra vissi einhvern veginn alltaf að hverju hún ætti að spyrja og tók reglulega stöðuna á mér, það var ljúft og gott að spjalla við hana.

Ég hef verið aðdáandi ítalska markvarðarins Buffon frá því að ég man eftir mér. Mér til ómældrar gleði kom Þóra einn daginn með flösku af ólífuolíu merkta Buffon því hún hafði tekið eftir því á samfélagsmiðlum að mér var mjög í mun að fá að sjá kappann spila. Þessi olía hefur verið okkur fjölskyldunni óþrjótandi uppspretta alls kyns ánægjustunda og tilhugsunin um Buffon glimmerolíuna eins við köllum hana mun ylja okkur og minna á yndislega nágrannakonu hana Þóru.

Hetja varst' til hinstu stundar

heilbrigð lundin aldrei brást.

Vinamörg því við þig funda

vildu allir, glöggt það sást.

Minningarnar margar, góðar

mikils nutum, bjarminn skín.

Bænir okkar heitar hljóðar

með hjartans þökk við minnumst

þín.

(María Helgadóttir)

Elsku Gísli og fjölskylda, ykkar missir er mikill. Megi Guð gefa ykkur styrk á erfiðum tímum.

Eyrún Harpa, Torfi og börn.

Elsku Þóra, mamma Ollu vinkonu minnar, er látin. Þegar ég settist niður og hugsaði um hana kom margt upp í huga minn en fyrst og fremst þakklæti.

Ég kynntist Ollu þegar við vorum 15 ára starfandi í Sambíóunum Álfabakka. Ég varð ekki bara svo heppin að eignast þar eina af mínum bestu vinkonum heldur kynntist ég fjölskyldu sem tók mér opnum örmum.

Ég bjó á Álftanesi svo Þóra leysti það hratt og vel að skjóta yfir mig skjólshúsi eftir langar vaktir og reyndar hvenær sem var. Ein ógleymanleg áramót átti ég með fjölskyldunni í Furuhjalla. Ekkert eitt stendur þar upp úr, bara upplifun af samveru með góðri samheldinni fjölskyldu. Eitt af því sem við Þóra áttum sameiginlegt var ást á slátri, sem gerði að verkum að það var oft á boðstólum á þessum tíma. Heyri ég í henni ljóslifandi segja fyrir þremur vikum: „Nú takið þið Olla slátur í haust.“ Dæmigerður frasi fyrir þessa yndislegu konu. Þóra var úrræðagóð með eindæmum. Eitt sinn fengum við stöllur tjald að láni í ferð á Þjóðhátíð. Við skiluðum því rennblautu og sjúskuðu eftir blauta helgi. Var ég hálfsmeyk að skila grip í slíku ástandi. Ekki var það vandamál hjá Þóru frekar en annað: Haldið þið að þetta þorni ekki? – tjaldið var hengt upp og ekki áhyggjur af því meir. Þeir sem þekktu Þóru vita að hún var einn stór klettur fyrir alla sem stóðu henni næst. Ég verð ansi stolt ef ég næ að verða eins góð mamma og amma og hún var.

Samband okkar seinustu ár var að mestu á rafrænan hátt en Fésbókin kom þar sterkt inn. Við sendum hvor annarri afmæliskveðjur og annað slíkt. Þegar við hjónin giftum okkur í desember árið 2014 sendi Þóra okkur jólaóróa, okkar fyrsta óróa sem mun minna mig á Þóru öll komandi jól.

Hugur minn er hjá elsku Gísla, Georg, Ollu, Rúrik og öllum ástvinum hennar á þessum erfiða tíma.

Minningin um einstaka konu lifir.

Ykkar vinkona,

Hjördís Halldóra

Sigurðardóttir.

Það er ómetanlegt að eiga góðan kennara að, ekki síst þegar fyrstu skrefin eru stigin á menntaveginum. Ég var svo heppinn að njóta leiðsagnar og verndar Þóru í þrjá vetur. Margt gekk á í stórum bekk en hún átti alltaf stund aflögu fyrir áhyggjur lítils hnokka. Fyrsta skólaveturinn sinn gekk Georg í Seljaskóla. Ósjaldan beið ég við bílastæðið, spenntur að taka á móti Georgi litla (því ég var svo ægilega gamall og reynslumikill að eigin mati) og fylgdi honum til stofu sinnar. Það góða samband sem Þóra ræktaði við mig hefur verið mér veigamikið veganesti inn í fullorðinsárin og í uppeldi dætra minna. Aðeins einu sinni skyggði á, þegar ég af galsa kastaði snjóbolta inn í kennslustofuna okkar. Hún leysti það með natni og jákvæðni. Þessa sögu og fleiri af samskiptum okkar Þóru rifja ég reglulega upp með dætrum mínum. Með þakklæti kveð ég minn kæra barnaskólakennara og votta fjölskyldu hennar samúð mína.

Karl Óskar Þráinsson,

1.-3. ÞR 1982-1985.

Á þessum erfiðu tímamótum koma upp svo margar góðar og kærar minningar um liðna tíma. Minningar um yndislega vinkonu og minningar um traustan og góðan vinskap okkar. Það er þyngra en tárum taki að missa þig og þú munt um ókomna tíð eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Með sorg og trega kveð ég þig, elsku besta Þóra mín.

Þín verður sárt saknað.

Elínborg (Bogga).