Netverslun tekur rækilega við sér

Netverslun hefur tekið rækilega við sér á undanförnum vikum og það á við jafnt hér heima fyrir og erlendis. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu á þriðjudag sagði að seljendur væru á yfirsnúningi þessa dagana og jafnvel þær stærstu erlendis önnuðu ekki eftirspurn. Birtist fróðlegur listi um sölutölur. Á Íslandi hefur aukningin orðið mest í sölu á bókum, blöðum og hljómplötum á netinu og nemur 998%, en erlendis er aukningin mest í einnota gúmmíhönskum og hefur salan á þeim næstum sjöfaldast. Sala á ferðatöskum hefur hins vegar dregist verulega saman, sem kemur ekki á óvart.

Netverslun hér á landi jókst um 111% í mars frá sama mánuði í fyrra. Sala á fötum jókst um 135% og netverslun með heimilisbúnað um 177%.

Netverslun er vitaskuld ekki ný af nálinni og flest fyrirtæki bjóða upp á þjónustu á netinu. Í samkomubanni og viðleitninni til að forðast hættuna á smiti hafa forsendur hins vegar breyst. Þau fyrirtæki, sem lengst voru komin í að bjóða upp á netverslun, standa vitaskuld best að vígi, en það þarf ekki að taka langan tíma að bregðast við aðstæðum eins og sjá mátti á forsíðu Morgunblaðsins í gær. Þar gat að líta mynd af stöflum af varningi í nýrri 2.000 fermetra miðstöð Nettó til að þjóna netverslun þar sem unnið er á vöktum allan sólarhringinn.

Ekki er víst hvort hér er um að ræða breytingu til frambúðar og verður að teljast líklegt að þessi aukning muni að einhverju leyti ganga til baka. Einhverjir munu hins vegar örugglega sjá hagræði í því að halda áfram að spara sér þann tíma, sem fer í að gera helgarinnkaupin, þegar samskiptahömlum verður aflétt.

Í Bandaríkjunum hefur verslun færst hratt á netið og þrengt hefur að þeim, sem reka hefðbundnar verslanir sem standa við götur og hægt er að fara inn í og handfjatla varninginn.

Þessarar þróunar er einnig farið að gæta hér og getur haft margvíslegar afleiðingar í för með sér. Hún er líka til marks um það að eitt tekur við af öðru og hröð viðbrögð bera vitni eiginleikanum til að laga sig að nýjum aðstæðum og grípa ný tækifæri. Það er kannski lykilatriðið mitt í þeim ósköpum, sem nú dynja yfir vegna kórónuveirunnar.