Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Eftir Gunnar Björnsson: "Verður ekki séð, að presturinn hafi rofið trúnað eða brotið starfs- og siðareglur. Það var því ástæðulaust að segja honum upp störfum."

Á dögunum lauk þjónustu prests í Þjóðkirkju Íslands af því að honum var gefið að sök að hafa rofið trúnaðarskylduna.

Sakramenti okkar evangelísk-lúthersku kirkju eru þrjú: Skírn, heilög kvöldmáltíð og skriftir.

Í Fræðum Lúthers hinum minni segir svo: „Það eru skriftir, þegar maður játar misgjörðir og veitir syndafyrirgefningu viðtöku af skriftaföður svo sem af Guði sjálfum væri og trúir fastlega að brot hans séu þar með fyrirgefin.“

Að játa syndir sínar fyrir Guði er ekki að segja honum hluti, sem hann vissi ekki fyrir. En syndirnar eru gjá á milli þín og hans, þangað til þú játar þær. Þegar þú hefur játað þær verða þær aftur á móti að brú á milli ykkar.

Einkaskriftir eru að mestu horfnar úr kirkju okkar.

En í framhaldi af almennu kirkjubæninni í messunni mælir prestur:

Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn.

Og söfnuðurinn gerir svofellda játningu:

Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs, til dýrðar nafni þínu.

Þá snýr prestur sér frá altarinu og mælir með upplyftri hægri hendi:

Almáttugur Guð fyrirgefi yður allar syndir, styrki yður og leiði til eilífs lífs fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.

Í Handbók íslensku kirkjunnar er enn gert ráð fyrir einkaskriftum. Þær fara fram á skrifstofu prests, í kirkjunni eða í heimahúsum. Prestur má ekki greina frá því, sem honum er tjáð í skriftum.

Þagnarskyldan

Heldur þá prestur, sem virðir þagnarskylduna, hlífiskildi yfir lögbrjóti? Því er til að svara, að skyldurækinn sálusorgari lætur ekki þar við sitja að hlýða á syndajátningu og fyrirgefa afbrot eftir skipun Drottins, Jesú Krists, í nafni heilagrar þrenningar, heldur kannar hann svo sem verða má, hvort viðkomandi iðrist af hjarta synda sinna. Hafi verið brotið gegn öðrum manni eða slíkt í aðsigi eða saklausum manni verið refsað ber presti tvímælalaust að ráðleggja hlutaðeigandi að greina yfirvöldum frá misgerð sinni og taka eftir atvikum afleiðingunum.

Ekki verða öll samtöl prests við leikmenn álitin trúnaðarsamtöl.

Komist menn á snoðir um pretti, er valda kunni öðru fólki ófagnaði og stórvandræðum, er það borgaraleg skylda þeirra að vara við.

Presturinn braut ekki af sér

Í ljósi ofanritaðs verður ekki séð, að presturinn hafi rofið trúnað eða brotið starfs- og siðareglur.

Það var því ástæðulaust að segja honum upp störfum.

Höfundur er pastor emeritus.