[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Séra Eðvarð Ingólfsson, prestur og rithöfundur, er fæddur í Reykjavík 25. apríl 1960 en ólst upp á Hellissandi. Hann var við nám í Héraðsskólanum í Reykholti í tvo vetur. Stúdent varð hann frá Menntaskólanum á Egilsstöðum 1981.

Séra Eðvarð Ingólfsson, prestur og rithöfundur, er fæddur í Reykjavík 25. apríl 1960 en ólst upp á Hellissandi. Hann var við nám í Héraðsskólanum í Reykholti í tvo vetur. Stúdent varð hann frá Menntaskólanum á Egilsstöðum 1981. Haustið 1989 hóf Eðvarð nám í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi 1995. Hann var skipaður sóknarprestur í Skinnastaðarprestakalli i Norður-Þingeyjarsýslu í febrúar 1996, en frá 1997 sóknarprestur í Garðaprestakalli á Akranesi. Gegndi hann því embætti í tæp 22 ár.

Eðvarð stundaði ritstörf samhliða námi og öðrum störfum frá 1980. Hann var afkastamikill höfundur unglingabóka og ævisagna áður en hann vígðist til prests og var aðeins 19 ára þegar hann samdi fyrstu bók sína, Gegnum bernskumúrinn. Alls eru bækur hans nú 15 og urðu sumar þeirra metsölubækur. Eðvarð ritaði meðal annars ævisögur Ragnars Bjarnasonar söngvara og Róberts Arnfinnssonar leikara. Hlaut hann verðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur 1989 fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina sem kom út 1988.

Eðvarð var dagskrárgerðarmaður hjá Rás 1 og Rás 2 árin 1981-86, hann var blaðamaður og síðar ritstjóri barnablaðsins Æskunnar 1982-90 og skrifaði ritdóma fyrir Morgunblaðið 1990-94. Eðvarð kenndi við grunnskólann í Lundi í Öxarfirði einn vetur og hefur aukinheldur kennt á námskeiðum hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu.

Eðvarð tók ungur þátt í félagsstörfum. Hann var framkvæmdastjóri Héraðssambands Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu árið 1980, sat í stjórn bókaútgáfunnar Skálholts 1986-91 og í stjórn átthagafélags Sandara 1987-90. Eins átti hann sæti í stjórn barnablaðsins Æskunnar 1991-97.

Íþróttir hafa verið eitt af aðaláhugamálum Eðvarðs frá unga aldri, einkum knattspyrna og frjálsar íþróttir. Auk þess má nefna ferðalög með fjölskyldu og vinum, kvikmyndir og tónlist, að ógleymdum matarklúbbum þar sem tækifæri gefst til að rækta dýrmæta vináttu, að hans sögn.

„Það er ekki heiglum hent fyrir mig að ætla að halda upp á stórafmæli. Fyrir tíu árum gaus Eyjafjallajökull af miklum krafti á afmælisdaginn minn og við hjónin urðum strandaglópar í New York. Nú „kórónar“ alheimsveiran þetta allt og við verðum að lúta samkomu- og ferðabanni,“ segir Eðvarð.

„Tilfinningin að verða sextugur er góð. Það ná ekki allir þeim aldri. Stórafmæli gefa tilefni til að staldra við, líta um öxl og horfa fram á veginn. Maður hefur margt að þakka. En dýrmætast af öllu er að eiga góða fjölskyldu. Það hefur verið mitt lífslán.

Ég hef verið trúaður frá því ég var drengur,“ svarar Eðvarð, spurður hvers vegna leiðin hafi legið í guðfræðina. „Ég var tvö, þrjú sumur í Vatnaskógi og það hafði mikið að segja. Svo missti ég föður minn úr krabbameini þegar ég var sjö ára, hann var 44 ára, og ég býst við að það hafi haft sín áhrif líka, og kannski mest, vegna þess að það eru margar stórar spurningar sem leita á mann við missi foreldris,“ segir Eðvarð hispurslaust.

„Ég greindist með parkinsons-sjúkdóm fyrir 10 árum og smám saman dró úr vinnuþreki mínu. Ég fékk tilfærslu í starfi og sinni nú ýmsum sérverkefnum,“ segir hann og bætir því við að guðfræðin hafi breytt lífi hans. „Þarna er allt undir, gleði og sorg, og þetta hlýtur auðvitað að móta mann sé maður opinn fyrir því,“ segir séra Eðvarð Ingólfsson að skilnaði.

Hann verður að heiman á afmælisdaginn.

Fjölskylda

Kona Eðvarðs er Bryndís Sigurjónsdóttir, f. 5.1. 1963, kennari, foreldrar hennar eru Sigurjón Skúlason, f. 16.5. 1940, fv. skrifstofustjóri NLFÍ, og Arnþrúður Kristín Ingvadóttir, f. 25.5. 1942, fv. verslunarmaður. Þau búa í Hveragerði. Börn Eðvarðs eru 1) Elísa Eðvarðsdóttir, f. 31.5. 1986, MSc í taugasálfræði, búsett í London, maki Sveinn F. Gunnlaugsson, f. 6.9. 1985, tölfræðingur. Börn þeirra eru Sigrún Edda, f. 18.8. 2015, og Arnar Elí, f. 15.12. 2018. 2) Ingólfur Eðvarðsson, f. 5.8. 1989, tölvunarfræðingur í London, maki Rhaní Conley, f. 14.4. 1990, stafrænn auglýsingastjóri. 3) Sigurjón Eðvarðsson, f. 15.5. 1996, nemi í Hveragerði. Systkini Eðvarðs eru Kristín, f. 8.4. 1953, hjúkrunarfræðingur í Kópavogi, Guðrún Þóranna, f. 15.5. 1955, húsmóðir í Reykjavík, Jónína, f. 15.5. 1956, húsmóðir í Reykjavík, Inga, f. 22.8. 1964, hjúkrunarfræðingur í Reykjanesbæ, Guðný Úlla, f. 15.2. 1968, húsmóðir í Hafnarfirði. Hálfsystir Eðvarðs, sammæðra, er Sigurjóna Óskarsdóttir, f. 10.3. 1949, húsmóðir í Reykjavík. Foreldrar Eðvarðs eru Guðný Jónína Þórarinsdóttir, f. 1.3. 1933, d. 18.10. 1999, húsmóðir á Hellissandi, og

Ingólfur Eðvarðsson, f. 15.8. 1923, d. 7.11. 1967, sjómaður á Hellissandi.