Kópavogur Bærinn stendur vel um þessar mundir.
Kópavogur Bærinn stendur vel um þessar mundir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Bæjarsjóður Kópavogs var gerður upp með 1,7 milljarða kr. afgangi árið 2019 en gert hafði verið ráð fyrir 554 milljónum í fjárhagsáætlun.

Bæjarsjóður Kópavogs var gerður upp með 1,7 milljarða kr. afgangi árið 2019 en gert hafði verið ráð fyrir 554 milljónum í fjárhagsáætlun. Mismunur á áætlun og niðurstöðu er einkum vegna þess að gjaldfærsla lífeyrissjóðsskuldbindinga var mun lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Þá var uppgert útsvar fyrir árið 2018 hærra en gert var ráð fyrir og uppgjör vegna lóðaúthlutana sömuleiðis.

„Ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2019 ber með sér hversu sterkur rekstur bæjarins er,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. „En það liggur fyrir að myndin í ár verður allt önnur og miklu verri vegna áhrifa Covid-19 á reksturinn. Við stöndum frammi fyrir umtalsverðri lækkun tekna og auknum kostnaði, meðal annars vegna þess að viðhalds- og endurbótaverkefnum verður flýtt og atvinnuúrræðum fjölgað.

Fjárfest var fyrir 3,1 milljarð í eigum bæjarins. Stærsta einstaka framkvæmdin var bygging húsnæðis fyrir Skólahljómsveit Kópavogs, en alls fóru 507 milljónir til þeirrar framkvæmdar 2019.

Alls var varið rúmlega 130 milljónum til endurnýjunar og viðhalds leik- og grunnskólalóða.

Þá fóru 750 milljónir króna til gatna- og hjólastígaframkvæmda. Helstu verkefni þar voru við Vesturvör, Nesvör, Auðbrekkusvæði, Álalind og 201 Smárann. Auk þess var unnið við Okkar Kópavog og endurnýjun á gatnalýsingu.