Málfar Hvort varstu á Þórshöfn eða í Þórshöfn?
Málfar Hvort varstu á Þórshöfn eða í Þórshöfn? — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Senn fer að bera á óþoli vegna þeirrar samstöðu og hlýðni sem hefur grafið um sig frá því að þríeykið tók við landstjórninni.

Senn fer að bera á óþoli vegna þeirrar samstöðu og hlýðni sem hefur grafið um sig frá því að þríeykið tók við landstjórninni. Mörg horfa öfundaraugum til Bandaríkjanna þar sem fólk krefst nú víða frelsis til að sýkjast og deyja, og mótmælir – með stuðningi forsetans – varúðarráðstöfunum við farsóttinni þannig að heilbrigðisstarfsfólk kemst ekki til vinnu. Þegar brestir koma í samstöðuna hér á landi má búast við að ýmsir byrji aftur að etja landsmönnum saman, latteliðinu gegn landsbyggðarfólki, háskólamenntuðum gegn ófaglærðum, konum gegn körlum o.s.frv.

Þótt pestin gangi niður er ekki fyrirsjáanlegt að við getum tekið upp fyrri iðju með flugferðum úr landi; við sitjum því uppi hvert með annað fram eftir sumri og þurfum að láta okkur lynda að ferðast innan lands – án þess að rekast á alla útlendu ferðamennina og farandverkafólkið. Við munum því neyðast til að tala íslensku hvert við annað á tjaldsvæðunum, edduhótelunum og pylsusjoppunum – svo rifjaðir séu upp helstu möguleikar innlendra ferðalanga til afþreyingar áður en allt fylltist hér af ferðaþjónustuaðilum.

Sjálfsagt verður það nýmæli fyrir mörg að mega vænta þess að hitta heimafólk á hverjum stað með landshlutabundið málfar á vörum. Höfuðborgarbúar sem ekki vilja fara út af sínu linmælissvæði ættu þá ekki að hætta sér inn í Húnavatnssýslurnar að vestan eða norður fyrir Berufjörð að austan. Þau sem voga sér yfir þessi ystu mörk harðmælissvæðisins mega eiga von á stigvaxandi harðmæli þar til komið er austur yfir Héraðsvötn og norður í Vopnafjörð.

Þá verða menn að gæta að forsetninganotkun með bæjanöfnum og hlusta grannt eftir því hvort heimamenn séu á eða í sínum bæ. Eina almenna reglan er sú að staðir sem enda á -vík taka með sér í frá Vík í Mýrdal og að Súðavík. Frá og með Hólmavík erum við á slíkum víkum. Ekki er ráðlagt að hætta sér út í rökræður við staðkunnuga í þessum efnum og nefna að í Landnámu sé talað um að Garðar hafi verið í Húsavík á Skjálfanda – þegar Húsvíkingurinn við afgreiðsluborðið segist vera á Húsavík. Ekki eru öll jafn kurteis og Hofsósingar sem voru í Hofsós þar til ferðamenn komu í bæinn og voru á Hofsós i . Ástæðan fyrir því að Bolungarvík er skrifuð með erri er svo sú að þannig er þetta örnefni skrifað í Landnámu þótt sumum þyki nú rökréttara að fella errið burt vegna þeirra bolunga sem víkin hljóti að vera kennd við.

Reykvíkingar mega vænta sömu kurteisi af utanbæjarmönnum sem þekkja ekki að hér fyrir sunnan förum við inn í Laugarnes og inn að Elliðaám (sbr. hendinguna í Kleppsförinni : „Inn að Kleppi er óravegur, andskotastu því fljótt af stað“) og út á Seltjarnarnes, eitt Innnesjanna en svo eru nesin kölluð frá Elliðaám að Hvaleyrarholti sunnan Hafnarfjarðar þar sem Suðurnesin taka við (að tali „fólks í fjarlægum plássum“) allt suður í Hafnir, málfræðilegan suðurodda landsins.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is