Hergeir Kristgeirsson fæddist á bænum Vestri-Hellum í Gaulverjabæjarhreppi 16. ágúst 1934. Hann lést á heimili sínu að Grænumörk 5 á Selfossi 12. apríl 2020.

Foreldrar hans voru þau Kristgeir Jónsson, f. 1871, d. 1938, og Herborg Bjarney Jónsdóttir, f. 1898, d. 1936. Eftirlifandi systkini hans eru Hörður, f. 1930, Ögmundur, f. 1931, Anna, f. 1932, og Hjalti, f. 1933. Látin eru Kristrún, Jón, Grímur, Sveinbjörn, Hákon, Elín, Hallgrímur og Geirlaug. Hergeir fór um tveggja ára aldur í fóstur hjá þeim Þorkeli Guðmundssyni, f. 1883, d. 1975, og Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 1888, d. 1970, sem bjuggu í Gerðum í Gaulverjabæjarhreppi og ólst þar upp til fullorðinsára. Uppeldissystkini hans voru Markús, Þorgerður og Þórir sem öll eru látin.

Hergeir gekk í barnaskóla í Gaulverjabæ og vann við sveitastörf heima í Gerðum. Á síldarárunum fór hann á vertíð m.a. til Vestmannaeyja. Hann nam rafvirkjun í Iðnskólanum á Selfossi, var í starfsnámi hjá Kaupfélagi Árnesinga og fékk meistarabréf í rafvirkjun 1964.

Árið 1960 hóf hann störf í lögreglunni í Reykjavík og í lögreglunni í Árnessýslu árið 1962 þar sem hann starfaði óslitið til ársins 2001 er hann lét af störfum sökum aldurs. Veturinn 1973 fór hann í Lögregluskóla ríkisins. Árið 1976 var hann skipaður rannsóknarlögreglumaður í lögreglunni í Árnessýslu. Hann starfaði eftir það í rannsóknardeild embættisins, var skipaður lögreglufulltrúi 1983 og fór með stjórn rannsóknardeildarinnar allt til þess að hann lét af störfum árið 2001. Þó að Hergeir hafi lengst af haft lögreglustarfið að aðalstarfi tók hann auk þess um árabil að sér raflagnateikningar í íbúðarhús á Selfossi og víðar. Þá lærði hann einnig til ökukennara og fékkst við ökukennslu samhliða lögreglustarfinu um nokkurra ára skeið.

15. apríl 1962 giftist Hergeir Fanneyju Jónsdóttur frá Norðurhjáleigu í Álftaveri, f. 6. mars 1933, d. 3. desember 2016. Hófu þau búskap á Selfossi, byggðu sér hús að Birkivöllum 24 og bjuggu þar frá árinu 1964. Börn þeirra Fanneyjar eru: 1) Ragnheiður, f. 1962, gift Snorra Jóelssyni. Dætur hennar: a) Svanhildur Lilja Svansdóttir, f. 1988, í sambúð með Kolbeini Ara Haukssyni, börn hennar eru Snæþór Daði og Agla Fanney Hauksbörn. b) Fanney Svansdóttir, f. 1990, dóttir hennar er Rán Arnarsdóttir. 2) Þórir, f. 1964, giftur Kirsten Gaard. Börn þeirra: Maria, f. 1993, Sunniva, f. 1996 og Mathias, f. 2000. 3) Grímur, f. 1969, giftur Björk Steindórsdóttur. Börn þeirra eru: a) Hildur, f. 1987, í sambúð með Elíasi Erni Einarssyni, sonur þeirra Hergeir Þór, f. 24. maí 2019, d. 24. maí 2019, synir Hildar eru Jakob Máni og Aron Logi Hafþórssynir, b) Eva, f. 1995, í sambúð með Árna Geir Hilmarssyni, sonur þeirra er Bjarki Freyr, c) Hergeir, f. 1997 og d) Ragnheiður, f. 2005. 4) Guðrún Herborg, f. 1973, gift Júlíusi Magnúsi Pálssyni. Saman eiga þau Fannar Þór, f. 2008, Guðrún Herborg á Janus Daða Smárason, f. 1995. Júlíus á synina Gunnar Pál, f. 1995 og Einar Karl, f. 1996.

Útför Hergeirs fór fram í kyrrþey.

Elsku afi, tilhugsunin um að þú sért farinn frá okkur er erfið. Einhvern veginn héldum við að þú værir eilífur. Ekkert gæti stöðvað þig.

Þú reyndir alltaf að hafa nóg fyrir stafni, fórst í göngutúra, í heita pottinn, mættir á handboltaleiki, heimsóttir fólkið þitt og fórst í bíltúra og ferðalög. Hafðir svo gaman af félagsskap annarra og varst alltaf svo góður við menn og dýr.

Þú varst svo fróðleiksfús og sagðir skemmtilega frá, bæði í orði og texta. Það var hægt að spyrja þig að öllu milli himins og jarðar. Þú hafðir svörin og ef þú varst ekki viss þá fannstu út úr því.

Minningarnar eru óteljandi og höfum við rifjað þær margar upp undanfarna daga og þær ylja okkur. Allar heimsóknirnar á Birkivellina til ykkar ömmu Fanneyjar þar sem þið tókuð hlýlega á móti okkur, iðulega með heitri blómkálssúpu, spjalli í eldhúskróknum og stoppi í gróðurhúsinu.

Þú varst stoltur af afkomendahópnum þínum og það fór ekki framhjá neinum. Þú fylgdist með okkur öllum sama hvar við vorum stödd í heiminum, sýndir því sem við tókum okkur fyrir hendur áhuga og varst hvetjandi.

Það er tómlegt án þín en við vitum að þú fylgist með okkur og við munum ætíð hugsa hlýlega til þín.

Nú eru þið amma sameinuð á ný og við erum viss um það hafi verið fagnaðarfundir.

Takk fyrir allt, afi.

Við elskum þig.

Þín barnabörn,

Hildur, Svanhildur Lilja, Fanney, Maria, Janus Daði, Eva, Sunniva, Hergeir, Mathias, Ragnheiður og Fannar Þór.

Væntumþykja byggir brýr

og bætir menn í flestu,

hennar vitund skín svo skýr

og skapar tengsl og festu.

Á stefnumót við dýrðardraum

hún dregur mikinn skara

er yfir lífsins ljúfa straum

hún lætur okkur fara.

Ég fer um þessa bestu brú

á björtum lífsins degi

og þar í gleði gengur þú

á gæfu þinnar vegi.

(Kristján Hreinsson)

Systkinin á móti og fjölskyldur þeirra þakka Hergeiri samfylgdina í gegnum árin og senda öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Katrín Stefanía, Elín Hekla, Klemenz Geir, Erlingur Reyr og Guðrún Hrafnhildur.

Við óvænt fráfall Hergeirs vinar míns 12. apríl sl. koma margar minningar í hugann. Við höfðum talað saman í síma deginum áður og ráðgert ýmislegt. Við höfum rækt vinskap frá því að við munum fyrst eftir okkur. Hergeir er næstyngstur af stórum systkinahópi, það elsta fætt 1892. Hergeir var á 5. ári þegar báðir foreldrar hans voru dánir. Yngstu systkinunum var komið í fóstur á góðum heimilum.

Hergeir ólst upp í Gerðum í Gaulverjabæjarhreppi. Við fylgdumst að í barnaskólanum í Gaulverjabæ ásamt Hjalta og Önnu Gunnu systkinum hans. Þeir bræður Hergeir og Hjalti voru miklir vinir mínir alla tíð. Við Hergeir æfðum á unglingsárum frjálsar íþróttir og kepptum fyrir ungmennafélagið okkar Samhygð.

Leið okkar beggja lá síðan um svipað leyti á Selfoss í byggingariðnnám. Við unnum hvor hjá öðrum; hann lagði rafmagn í mitt íbúðarhús en ég múraði hans hús. Þá hafði hann eignast góða konu, hana Fanneyju.

Þau hjón höfðu mikið barnalán en Fanney lést fyrir nokkrum árum. Nú allra síðast var Hergeir einn í íbúð aldraðra í Grænumörk 5 en við hjónin í næsta húsi. Við hittumst nær daglega. Fátt eitt verður sagt í afskömmtuðu plássi í minningargrein.

Í desember sl. lofaði ég Hergeiri vini mínum að heyra dálítið kvæði sem ég hafði gert og nefndi æviþulu. Þegar hann hafði hlýtt á kvæðið sagði hann: „Ég kannast við margt í þessu.“ Ég vil því enda þessi orð á þulunni, þar sem hún gildir í mörgu fyrir okkur báða.

Fagur er Flóinn minn.

Margs er þar að minnast

frá morgni lífsins.

Hofsóley á lækjarbakka

ranfang í varpa.

Lömbin að leika sér.

Silungurinn vakir í flóðinu

áveitan á enginu.

Engjarós og fjalldalafífill.

Barnaleikir okkar systkina.

Foreldrar okkar ferðbúast

að kjósa um lýðveldisstofnun.

Fáninn dreginn að húni á bæjarburst

á lýðveldisdaginn.

Barnaskólinn á Bæjarhlaði.

Hjalti, Hergeir og aðrir krakkar.

Hljómur kirkjuklukkna við messu.

Álftarhreiðrið í hólmanum.

Tjaldurinn, lóan og spóinn.

Kríuvarpið á Dælunum.

Íþróttir á Loftsstaðaflötum.

Ungmennafélagsfundir.

Áfram út í lífið,

sem ekki verður hér rakið.

Gæfan varð með gjöful,

með góða konu og niðja.

Líður senn að lokum.

Sest ég í Sumarlandið.

Þar hitti ég nafna aftur

og aðra góða vini.

Saman munum við sitja

og sjá yfir lönd og álfur.

Nánustu aðstandendum flytjum við hjónin innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurjón Erlingsson

frá Galtastöðum.