Fim Það geta ekki allir sent kisu upp á þak.
Fim Það geta ekki allir sent kisu upp á þak. — Morgunblaðið/Ásdís
Tæknin í kringum sjónvarp hefur breyst mikið síðan í árdaga þess.

Tæknin í kringum sjónvarp hefur breyst mikið síðan í árdaga þess. Nú eru ekki lengur notaðir sendar, sem varpa merki út um allar trissur til að loftnet geti tekið á móti, heldur fara útsendingarnar eftir ljósleiðurum og eru þræddar inn í sjónvörp í gegnum beina og myndlykla.

Þetta þýðir að loftnet eru orðin óþörf að mestu, þótt enn tróni þau á mörgum húsþökum. Það er reyndar ágætt að vera laus við að príla upp á þak þegar eitthvað bjátar á, enda getur það verið afdrifaríkt. Sú tilfinning vaknar þó að sjónvarpsvesen sé orðið algengara nú, en var á tímum loftnetanna.

Þá getur verið ágætt að hafa loftnet á húsum í miklu fannfergi eins og sumarbústaðareigendur í Unadal skammt frá Hofsósi máttu reyna á dögunum. Þá var bústaðurinn horfinn og ekki víst að hann hefði fundist hefði loftnetsgreiðan ekki staðið upp úr snjónum.

Svo er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvað gerist þegar slökkt er á sjónvarpinu. Þá heldur útsendingin áfram að streyma í gegnum myndlykilinn, gagnamagnið vellur fram þótt enginn sé við skjáinn. Þá er eins gott að það sé ekki uppmælt til fjár. Af slíku þurfti ekki að hafa áhyggjur þegar sjónvarpsbylgjurnar léku um loftnetin á þökunum og slökkt var á sjónvarpinu í stofunni.

Karl Blöndal