Stefán E. Stefánsson Baldur Arnarson „Þeir verða örugglega yfir tíu því vinna okkar stjórnmálamanna næstu misseri er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún R.

Stefán E. Stefánsson

Baldur Arnarson

„Þeir verða örugglega yfir tíu því vinna okkar stjórnmálamanna næstu misseri er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, þegar hún er spurð út í hversu marga aðgerðapakka ríkisstjórnin muni þurfa að kynna á komandi mánuðum vegna þess ástands sem nú er uppi í íslensku efnahagslífi. Þórdís er viðmælandi í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi ViðskiptaMoggans sem nú hefur verið birt. Reynist ráðherra sannspár á ríkisstjórnin eftir að kynna að minnsta kosti átta aðgerðapakka til bjargar íslensku efnahagslífi í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Segir Þórdís verkefnið gríðarlegt að vöxtum og að sumum fyrirtækjum verði ekki bjargað, hversu umfangsmiklar sem aðgerðir stjórnvalda verði. Hætt sé við að mjög fáir ferðamenn muni leggja leið sína til landsins nú í ár.

Ráðherra segir stjórnvöld fylgjast náið með framvindu mála á vettvangi Icelandair Group og þá sé ljóst að staða Isavia sé einnig áhyggjuefni. Hennar skoðun sé sú að styrkja mætti stöðu Keflavíkurflugvallar með því að fá einkafjárfesta sem hefðu reynslu af rekstri alþjóðaflugvalla erlendis sem minnihlutaeigendur að vellinum. Hún tekur þó fram að það sé ekki hluti af stefnu stjórnvalda að svo stöddu.

Uppstokkun í burðarliðnum

Viðmælendur Morgunblaðsins í hótelgeiranum reikna með uppstokkun á markaðnum á komandi vikum og mánuðum. Rekstri City Park Hótels í Ármúla hefur verið hætt. Þá hefur lögmaður annars hótels fengið það svar frá leigusala að gengið verði að tryggingum vegna ógreiddrar leigu í marsmánuði. Af þessu tilefni fólu hóteleigendur Viðari Má Matthíassyni prófessor að kanna réttarstöðu hótela gagnvart leigusölum og lánveitendum.

Niðurstaða Viðars Más er að fjórar reglur fjármunaréttar geti haft áhrif á stöðu leigutaka gagnvart slíkum skuldbindingum. Ferðabann vegna kórónuveirufaraldursins og hindranir sem af því leiði geti talist grundvöllur þess að slíkar reglur nái til þeirrar stöðu sem upp er komin á markaðnum. Sú niðurstaða gæti haft þýðingu fyrir aðrar atvinnugreinar sem horft hafa fram á gríðarlegt tekjuhrun og geta í mörgum tilvikum ekki staðið við skuldbindingar sínar.