Glaðbeittur Guðmundur Þ. Guðmundsson er á leið á enn eitt stórmótið.
Glaðbeittur Guðmundur Þ. Guðmundsson er á leið á enn eitt stórmótið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2021 Kristján Jónsson kris@mbl.is Í gær varð ljóst að Ísland verður með í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi í janúar á næsta ári.

HM 2021

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Í gær varð ljóst að Ísland verður með í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi í janúar á næsta ári. Árangur Íslands á EM í janúar á þessu ári, ásamt áhrifum kórónuveirunnar, gera það að verkum að Ísland fer beint á HM.

Stórar ákvarðanir voru teknar af Handknattleikssambandi Evrópu í gær eins og sjá má í fleiri fréttum hér á opnunni. Tímabært var að taka slíkar ákvarðanir enda var óvissa ríkjandi um hvort reyna ætti að spila í sumar eða ekki.

Umspili fyrir HM karla var aflýst og árangur liðanna á EM látinn gilda. Þar komst Ísland upp úr sínum riðli og í milliriðil eftir sigra gegn Dönum og Rússum en tap gegn Ungverjum. Ísland hafnaði í 11. sæti þegar upp var staðið á EM.

„Það er alltaf frábært að komast á HM. Ég er satt að segja mjög stoltur vegna þess að þetta undirstrikar okkar frábæra árangur að komast upp úr erfiðum riðli á EM. Það skilar okkur sæti á HM. Ég veit hvað þurfti til og þar af leiðandi er ég mjög ánægður. Það var ekkert einfalt að fara upp úr riðlinum á EM og þannig lít ég á það,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.

Guðmundur er ánægður með að fá niðurstöðu í málið enda óvissan um hvort spila hafi átt mikilvæga leiki eða ekki í sumar verið óþægileg fyrir þjálfara.

„Mér fannst þetta rosalega óþægilegt og maður var farinn að bíða eftir einhverri niðurstöðu. Ég held þar af leiðandi að það sé mjög gott fyrir alla aðila að fá hana fram. Maður vissi ekki hvort við ættum að spila í júní eða júlí. Nú vitum við að það verður ekki og því fylgir mjög góð tilfinning að nú sé komin niðurstaða. Það hefði verið erfitt að þurfa að eiga við þetta í sumar vegna þess að óvissan í kringum þetta hefði verið svo mikil. Til dæmis varðandi styrkleika liðsins. Leikmenn hefðu ekkert spilað í langan tíma og mjög misjafnt hvernig menn væru á sig komnir. Sumir í formi og aðrir ekki en enginn í almennilegri leikæfingu.“

Kom ekki á óvart

Nú þegar samkomubann og aðrar hömlur vegna kórónuveirunnar hafa verið í nokkurn tíma segist Guðmundur hafa verið farinn að búast við þessari niðurstöðu.

„Ég var búinn að sjá fyrir mér að þetta gæti gerst eftir að hafa velt þessu nokkuð fyrir mér. Ég sá bara ekki fyrir mér hvernig menn ætluðu að koma þessum leikjum í umspilinu fyrir í sumar. Þá fannst manni rökrétt að liðin í milliriðlinum á EM myndu komast beint á HM. Mér fannst þetta einhvern veginn líkleg niðurstaða,“ sagði Guðmundur og segir að hið jákvæða í stöðunni sé að vita með góðum fyrirvara að liðið sé á leið á stórmót.

„Enn er þó fullt af óvissuþáttum í þessu út af ástandinu í heiminum eins og hvort mótið verði haldið. Það er seinni tíma mál. Ég held að mótið verði haldið og maður vonar það.

Það sem er jákvætt í þessu er að vita með góðum fyrirvara að við séum á leið á stórmót,“ sagði Guðmundur enn fremur.

Frakkar rétt náðu inn

Spánn, Króatía og Noregur höfðu þegar tryggt sér sæti á HM en nú bætast við Slóvenía, Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð, Austurríki, Ungverjaland, Hvíta-Rússland, Ísland, Tékkland og Frakkland, en þessar þjóðir áttu að leika í umspilinu í júní. Athyglisvert má telja að Frakkar ná síðasta sætinu inn á HM af Evrópuþjóðunum eftir að hafa hafnað í 12. sæti á EM. Þar töpuðu Frakkar fyrstu tveimur leikjunum gegn Portúgal og Noregi og náðu ekki í milliriðilinn. Liðið vann Bosníu í þriðja leik sínum sem þá var talið að hefði enga þýðingu. Annað kom á daginn. Einnig má segja að sigurinn sæti gegn Dönum í fyrsta leik íslenska liðsins á EM sé nú orðinn enn þýðingarmeiri en hann var í janúar.

Ísland hefur tuttugu sinnum keppt í lokakeppni HM karla og í janúar 2021 verður það að óbreyttu í tuttugasta og fyrsta skipti. HM hefur áður farið fram í Egyptalandi, heimalandi formanns Alþjóðahandknattleikssambsins Hassans Moustafa. Var það árið 1999 en þá komst Ísland ekki í lokakeppnina, merkilegt nokk, en liðið hafnaði í 5. sæti á HM tveimur árum áður.

28 þjóðir eru komnar inn á HM af 32 en þær sem hér hafa verið taldar upp eru fulltrúar Evrópu. Enn á eftir að handvelja tvær þjóðir inn eins og IHF áskilur sér rétt til að gera og varð frægt þegar Þjóðverjum var hjálpað inn á HM 2015.

Aðrar þjóðir sem eru öruggar eru: Egyptaland, Angóla, Alsír, Túnis, Katar, Japan, Barein, Suður-Kórea, Argentína, Brasilía, Grænhöfðaeyjar, Marokkó, Úrúgvæ og Kongó. Aron Kristjánsson stýrir Barein og Dagur Sigurðsson stýrir Japan.