[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
25. apríl 1967 KR-ingar eru Íslandsmeistarar karla í körfuknattleik þriðja árið í röð eftir stórsigur á ÍR, 72:43, í hreinum úrslitaleik liðanna um titilinn í Laugardalshöllinni en þau höfðu endað jöfn og efst í deildinni.

25. apríl 1967

KR-ingar eru Íslandsmeistarar karla í körfuknattleik þriðja árið í röð eftir stórsigur á ÍR, 72:43, í hreinum úrslitaleik liðanna um titilinn í Laugardalshöllinni en þau höfðu endað jöfn og efst í deildinni. Kolbeinn Pálsson skorar 22 stig fyrir KR í úrslitaleiknum, Hjörtur Hansson 19 og Einar Bollason 13.

25. apríl 1980

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik sigrar Færeyinga, 21:12, í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni. Þetta er annar af þremur leikjum þjóðanna hér á landi á jafnmörgum dögum og Ísland vinnur alla. Guðríður Guðjónsdóttir skorar 6 mörk og Arna Garðarsdóttir 4.

25. apríl 1985

Ísland sigrar Lúxemborg, 93:84, í fyrsta vináttulandsleik þjóðanna af fjórum í körfuknattleik karla sem fram fer í íþróttahúsinu í Keflavík að kvöldi sumardagsins fyrsta. Valur Ingimundarson skorar 29 stig fyrir íslenska liðið og Jón Kr. Gíslason 16.

25. apríl 1995

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik sigrar Dani á þeirra heimavelli í Nyköbing á Falstri, 22:20, í fyrsta leiknum á alþjóðlegu móti. Gústaf Bjarnason skorar 5 mörk, Patrekur Jóhannesson 4 og Sigurður Sveinsson 4 fyrir íslenska liðið sem er í lokaundirbúningi fyrir heimsmeistaramótið sem síðan fór fram á Íslandi í maímánuði.

25. apríl 2000

KR rýfur áratugar einokun Suðurnesjaliðanna á Íslandsmeistaratitlinum í körfubolta karla með því að sigra Grindavík, 83:63, í fjórða úrslitaleik liðanna sem fram fer í Vesturbænum. Keith Vassell skoraði 21 stig fyrir KR, Jesper Sörensen 14 og Jónatan Bow 14. Meðal skorara KR eru m.a. tveir ungir piltar, Jón Arnór Stefánsson og Jakob Örn Sigurðarson.

25. apríl 2001

Ísland sigrar Möltu 4:1 á útivelli í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu, þrátt fyrir að vera undir í leiknum í tæpan hálftíma. Tryggvi Guðmundsson og Helgi Sigurðsson skora á lokamínútum fyrri hálfleiks og þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Þórður Guðjónsson bæta við mörkum á lokakafla leiksins.

25.4.2010

Valskonur eru Íslandsmeistarar í handbolta í fyrsta sinn í 27 ár eftir sigur á Fram, 26:23, í Safamýri í fjórða úrslitaleik liðanna og þær vinna þar með einvígið 3:1. Berglind Hansdóttir ver 22 skot í marki Vals og Hrafnhildur Skúladóttir skorar 12 marka Hlíðarendaliðsins.