Nanna Kolbrún Bjarnadóttir húsmóðir fæddist á Árbakka, Eskifirði, 2.9. 1938. Hún lést á umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað 11.4. 2020. Foreldrar hannar voru Bjarni Kristjánsson, sjómaður á Eskifirði, f. 13.2. 1911, d. 23.1. 1998 og eiginkona hans Laufey Sigurðardóttir húsmóðir, f. 23.9. 1914, d. 3.8. 2001.

Nanna Kolbrún var yngst í röð fimm systkina: Elstur var Sigurður, f. 5.8. 1932, d. 14.2. 2005, Svana, f. 8.6. 1934, d. 24.6. 1982, Kristján Ragnar, f. 21.8. 1935 og Nikólína, f. 10.9.1937, d. 27.12. 1986.

Þann 11. maí 1957 giftist Nanna Kolbrún eftirlifandi eiginmanni sínum, Kristni Guðmundssyni, f. 21.9. 1933, húsa- og húsgagnasmíðameistara. Foreldrar hans voru Guðmundur Karl Stefánsson vélstjóri, f. 2.4. 1894, d. 15.6. 1976, og eiginkona hans Jóhanna Kristín Magnúsdóttir húsmóðir, f. 15.3. 1904, d. 8.2. 1996. Börn Kristins og Nönnu Kolbrúnar eru Stefán, kvæntur Helgu Katrínu Leifsdóttur. Dætur þeirra eru tvær. Guðmundur Bjarni, kvæntur Hrafnhildi Gróu Atladóttur, börn þeirra eru fjögur. Jóhann Magnús Kristinsson, kvæntur Margréti Karlsdóttur, þau eiga einn son. Ingibjörg Laufey, börn hennar eru tvö og sambýlismaður er Sigurður Tómas Sigfússon.

Jarðsungið verður frá Eskifjarðarkirkju í kyrrþey í ljósi þjóðfélagsaðstæðna.

Útförinni verður streymt. Þeir sem hyggjast fylgja streyminu, vinsamlegast hafið samband við aðstandendur.

Komið er að kveðjustund og fram í hugann streyma minningarnar. Tengdamóðir mín Nanna Kolbrún Bjarnadóttir er látin. Andlátið bar brátt að. Hún leggst inn á sjúkrahús og fáum dögum síðar er hún látin.

Nanna var listfeng kona. Það kom m.a. fram í handavinnu, matargerð og bakstri. Allt lék það í höndum hennar.

Ég man svo vel eftir því þegar ég kom í fyrsta sinn á heimili Nönnu og Kidda. Mér var boðið í sunnudagskaffi. Útidyrnar opnuðust og við mér blasti lágvaxin, hnellin kona, kvik í hreyfingum. Hún var klædd gallabuxum og bol og brosti breitt. Hún bauð mig strax velkomna og ég fann að mér leið vel. Ég var teymd að kaffiborði. Ég settist niður, dáleidd yfir öllu sem ég sá. Ég, aðkomumanneskjan, hafði varla séð annað eins fínerí nema í fermingarveislum eða stórafmælum. Á borðinu var kaffibrauð af öllum gerðum og allt sem ég smakkaði var gott.

Þannig var maturinn hennar líka, góður. Þegar gesti bar að garði fór Nanna í búrið og galdraði fram kræsingarnar. Yfirleitt mátti telja 8-10 sortir á kaffiborðinu.

Brynjar sonur okkar hafði dálæti á kanilsnúðunum hennar ömmu. Hann var ekki gamall þegar hann stakk upp á því við ömmu að hún opnaði bakarí. Þetta gladdi ömmu sem tók bakarísumræðunni sem miklu hrósi.

Fyrir utan hefðbundna vikudvöl á sumrin á Eskifirði höfðum við samband um Skype oft í viku. Nanna talaði um hve frábært henni fyndist að geta haft þannig samband því þá gat hún séð okkur. Síðari ár höfum við líka notað snapp. Þannig gat hún fylgt sínu fólki og séð heiminn í leiðinni. Þegar við höfum verið í sumarbústaðnum eða á ferðalögum hefur alltaf verið ofarlega á dagskrá að senda snapp. Við vissum að það gladdi.

Í mörg sumur komu þau hjónin keyrandi suður til barna sinna sem þar búa. Eitt sumarið höfðu tveir ungir sonarsynir fengið að dvelja hjá afa og ömmu um tíma og komu með þeim keyrandi suður til foreldranna. Annar var Brynjar sonur okkar hjóna. Á leiðinni var stoppað í öllum sjoppum til að leita að Olla-bókinni, sem síðan fannst í þeirri síðustu. Þá var okkur sögð sagan af því þegar amma hafði keypt einnota myndavélar, sína handa hvorum strák og sonur okkar ætlaði að taka mynd af fjalli þegar stoppað var.

Honum þótti amma eitthvað fyrirferðarmikil og sagði við hana: „Amma, þú stendur fyrir fjallinu.“

Þau hjón komu tvisvar í heimsókn til Danmerkur, þar sem við bjuggum um nokkurra ára skeið vegna framhaldsnáms Jóhanns. Í bæði skiptin voru það vel heppnaðar ferðir og frá þeim tíma eigum við margar góðar minningar.

Eftir því sem árin liðu og við Nanna kynntumst betur, áttaði ég mig á því að þar fór kona sem ekki lá á skoðunum sínum og talaði hreina íslensku ef svo bar undir. Við gátum ekki alltaf verið sammála en aldrei bar skugga á okkar samskipti.

Nanna bar hag barna sinna og fjölskyldna þeirra fyrir brjósti og hún vildi alltaf vita hvernig lífið og tilveran gengi. Þannig minnumst við fjölskyldan hennar. Ég veit að hún fylgist með okkur áfram.

Blessuð sé minning látinnar tengdamóður.

Hvíl í friði.

mbl.is/andlat

Margrét Karlsdóttir

Þessi kona hefur kvatt, Nanna Bjarnadóttir.

Nanna var ljóð, Nanna var yndislegur nágranni, Nanna var sterk, Nanna var margra manna maki, Nanna var töfrakona, Nanna fór upp í fjall eftir vinnu, Nanna kom til baka með fleiri lítra af bláberjum, Nanna bakaði heimsins besta brauð, Nanna bakaði heimsins bestu lagtertur, Nanna var gestrisin, Nanna lagði ætíð á borð eins og forsetinn væri væntanlegur ef maður kíkti inn, Nanna bauð upp á besta djúpsteikta kjúklinginn, Nanna hló hátt, Nanna átti stóran faðm og hlýtt faðmlag, Nanna átti fjöldann allan af hughreystandi orðum, Nanna varð aldrei orðlaus, Nanna var skapmikil, Nanna var stormsveipur, Nanna var sannur vinur vina sinna, Nanna var stórbrotin, Nanna á stórt hólf í hjarta mér, Nanna elskaði Kidda,

Nanna elskaði börnin sín af heilu hjarta.

Innilegar samúðarkveðjur til Kidda, Stefáns, Guðmundar Bjarna, Jóhanns, Ingu Lullu, tengdabarna og barnabarna. Ég sakna Nönnu.

Unnur Sólrún Bragadóttir.