Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson
Keppnistímabilinu hjá karlaliði Vals í handknattleik er formlega lokið þar sem EHF ákvað í gær að aflýsa því sem eftir er af Áskorendabikar Evrópu.

Keppnistímabilinu hjá karlaliði Vals í handknattleik er formlega lokið þar sem EHF ákvað í gær að aflýsa því sem eftir er af Áskorendabikar Evrópu. Snorri Steinn Guðjónsson og lærisveinar hans í Val voru komnir í átta liða úrslit keppninnar og áttu að mæta Halden frá Noregi en þeim leikjum hafði verið frestað fram í byrjun júní. EHF tilkynnti eftir fund framkvæmdastjórnar í dag að frekari keppni í EHF-bikar karla, EHF-bikar kvenna, Áskorendabikar karla og Áskorendabikar kvenna á þessu keppnistímabili hefði verið felld niður.

Þessi ákvörðun EHF hefur áhrif á þrjú erlend Íslendingalið sem voru á fullri ferð í sextán liða úrslitum EHF-bikarsins. Rhein-Neckar Löwen, lið Alexanders Peterssonar og Ýmis Arnar Gíslasonar, hafði þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum og Melsungen, undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar, var í hörðum slag við Bjerringbro/Silkeborg, lið Þráins Orra Jónssonar, um að komast í átta liða úrslitin.