Sólarfrí Skipulögðum ferðum hefur verið aflýst vegna heimsfaraldursins. Nú er rætt frumvarp um tímabundna breytingu á lögum um pakkaferðir.
Sólarfrí Skipulögðum ferðum hefur verið aflýst vegna heimsfaraldursins. Nú er rætt frumvarp um tímabundna breytingu á lögum um pakkaferðir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sex umsagnir höfðu borist um frumvarp um breytingu á lögum um pakkaferðir í gær.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sex umsagnir höfðu borist um frumvarp um breytingu á lögum um pakkaferðir í gær.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) leggst gegn því að „lausafjárvanda fyrirtækja verði velt yfir á neytendur með því að heimila fyrirtækjum að endurgreiða neytendum pakkaferðir með inneignarnótum“. ASÍ segir að neytendur hafi enga tryggingu fyrir því að þeir geti innleyst nóturnar eða fengið peninga sína til baka ef fyrirtækin verða gjaldþrota.

Ferðamálastofa segir m.a. mestu skipta að viðskiptavinirnir fái sínar kröfur greiddar, hvort sem það er í formi beinna endurgreiðslna eða í framkvæmd frestaðra ferða. Ferðaskrifstofurnar hafi unnið að því að semja við viðskiptavini um frestun pakkaferða um óákveðinn tíma í einhverjum tilfellum, fram á haust og mjög mörgum fram á næsta ár. Þá bendir Ferðamálastofa á að til staðar sé tryggingakerfi sem endurgreiðir kröfur, komi til þess að ferðaskrifstofa verði gjaldþrota.

Neytendasamtökin gera alvarlegar athugasemdir og telja frumvarpsdrögin vera aðför að rétti neytenda. Með aðgerðinni sé lausafjárvanda fyrirtækja velt á herðar neytenda sem margir hverjir standi höllum fæti og hafi misst viðurværi sitt allt eða að hluta. Samtökin vara við því að frumvarpsdrögin kunni að brjóta í bága við 72. grein stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Neytendasamtökin leggjast gegn frumvarpinu vegna þess að það gangi út á „að skikka fólk til að lána ferðaskrifstofum fé vaxtalaust og með óvissu um endurgreiðslu“.

Neytendastofa telur nauðsynlegt að neytendum séu tryggðar fullar endurgreiðslur í samræmi við þau lög sem voru í gildi er kaup áttu sér stað. Þá telur hún mikilvægt að frumvarpið skerði ekki fjárhagsleg réttindi neytenda heldur fresti aðeins rétti þeirra til endurgreiðslu.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) benda m.a. á að veiting ferðaþjónustu hafi stöðvast um allan hinn vestræna heim vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpinu sé komið til móts við þann vanda og breytingin sé tímabundin aðgerð. SAF styðja breytinguna og telja að hún sé „einföldust og skilvirkust þeirra sem í boði eru til að ná markmiðum sem lögð eru til grundvallar“.

Ekki senda okkur reikninginn

Læknanemar á 3. ári við Háskóla Íslands, alls um 50 nemar og makar þeirra, segjast hafa „skrapað saman, fengið að láni, unnið fyrir útskriftarferð sem átti að vera í lok maí. Við höfum borgað allt að þrjú hundruð þúsund fyrir ferð sem átti að vera verðlaun fyrir mikla vinnu og mikið streð“. Ferðin verði aldrei farin en ferðaskrifstofan hafi gefið vilyrði fyrir því að hún verði endurgreidd að undanskildu 12 þúsund króna innanlandsfargjaldi. Ferðaskrifstofan hafi frestað endurgreiðslum fram yfir lögbundinn frest. Talsmanni hópsins finnst að með frumvarpinu sé verið að styrkja fyrirtæki á kostnað einstaklinga og mótmælir því að neytendur láni ferðaskrifstofum peninga sína næstu tólf mánuði.

„En ekki senda okkur reikninginn fyrir rekstri ferðaskrifstofa. Þetta er ekki bankinn sem á að láta fjármagna rekstur ferðaskrifstofunnar,“ segir í niðurlagi umsagnarinnar, sem endar á orðunum: „Ríkið á marga banka. Látið þá lána. Ekki okkur.“

Brugðist við faraldrinum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagði fram á þriðjudag stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Málið snýst um endurgreiðslur pakkaferða sem er aflýst eða þær afpantaðar vegna óviðráðanlegra aðstæðna frá 15. mars til 30. júní. Endurgreiðslan verður gerð með inneignarnótu. Sé hún ekki notuð verður ferðamanni heimilt að innleysa hana 12 mánuðum eftir að tímabilinu lýkur.

Í greinargerð kemur m.a. fram að með frumvarpinu sé brugðist við áhrifum kórónuveirufaraldursins á fyrrihluta ársins 2020.

Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram á miðvikudag og gekk málið eftir það til atvinnuveganefndar.