Í vikunni var annar hluti efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna Covid 19-faraldursins kynntur.

Í vikunni var annar hluti efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna Covid 19-faraldursins kynntur.

Aðgerðirnar sem snúa að heilbrigðismálum eru tvíþættar; annars vegar er um að ræða álagsgreiðslu til framlínustarfsfólks í heilbrigðiskerfinu og hins vegar umtalsverða geðheilbrigðisþjónustu.

Einum milljarði króna verður varið í álagsgreiðslur til framlínustarfsfólks sjúkrahúsa, heilsugæslu og heilbrigðisstofnana sem hefur starfað undir miklu álagi vegna faraldursins. Greiðslurnar verða eingreiðslur en útfærslan verður á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar. Mikið hefur mætt á starfsfólki á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar þar sem starfsaðstæður hafa verið krefjandi og hætta á smiti af Covid-19 daglegur veruleiki margra.

Enn fremur verða framlög til geðheilbrigðisþjónustu aukin um 540 milljónir króna til að efla þjónustuna. Þjónustan verður efld með fjölgun sérfræðinga í geðheilsuteymum og innan heilsugæslunnar. Rík áhersla verður á að tryggja sem best jafnt aðgengi landsmanna að þjónustunni.

Með auknum fjármunum verður sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu hjá heilsugæslunni fjölgað um 16. Markmiðið er að um land allt geti fólk fengið meðferð sálfræðinga innan heilsugæslu vegna algengustu geðraskana. Heilsugæslan fær einnig sérstakt framlag til að efla getu sína til að veita fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði.

Þjónusta geðheilsuteyma verður efld með auknum framlögum til teymanna í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum, t.d. fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur m.a. það hlutverk að stýra samhæfingu heilsugæsluþjónustu í landinu. Framlög til hennar verða aukin með áherslu á jafnt aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu, óháð búsetu.

Þróunarmiðstöðinni verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiða skimun á því sviði og þróa meðferðarúrræði innan heilsugæslu og hjá geðheilsuteymum. Þróunarmiðstöðinni verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila um geðheilbrigði og fræðsluefni á sviði geðræktar í skólum.

Með þessum aðgerðum báðum verður haldið áfram að styðja við uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og með geðheilsuteymum um allt land. Einnig er eingreiðslan til framlínufólks viðurkenning á því gríðarlega álagi sem sá hópur hefur búið við í glímunni við Covid-19 og um leið þakklætisvottur fyrir þann hlut sem þetta heilbrigðisstarfsfólk á í þeim árangri sem við höfum náð í viðbrögðum við veirunni hér á landi.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.